Söngvakeppni Sjónvarpsins 2013 – Ég á líf

Eyþór Ingi Gunnlaugsson

Ákveðið var undankeppni Eurovisison keppninnar árið 2013 yrði með nokkru breyttu sniði eftir gagnrýni sem fyrirkomulagið hafði fengið árið á undan en þá höfðu úrslit keppninnar í raun ráðist á dómnefndinni en þjóðin hafði kosið lagið sem lenti í öðru sæti. Fyrirkomulagið yrði nú með þeim hætti að vægi dómnefndar og símakosningar yrði 50/50 (eins og áður) í úrslitakeppninni en að henni lokinni yrði einvígi tveggja efstu laganna þar sem símakosning gilti eingöngu. Önnur breyting á keppninni var sú að nú kepptu aðeins tólf lög til úrslita og undanúrslitakvöldin voru aðeins tvö, 25. og 26. janúar – og úrslitakvöldið 2. febrúar. Ástæðan fyrir því að undankvöldin voru sömu helgina var hversu dýr Eldborgarsalur Hörpu var og sparaði Ríkissjónvarpið sé töluverðar upphæðir með því leigja húsið tvö kvöld í röð.

Alls bárust um 240 lög í keppnina og voru þau eftirfarandi fyrra undanúrslitakvöldið: Ekki líta undan (lag Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Ingibjörg Gunnarsdóttir) flutt af Magna Ásgeirssyni, Ég á líf (lag og texti Örlygur Smári og Pétur Örn Guðmundsson) í flutningi Eyþórs Inga Gunnlaugssonar, Lífið snýst (lag Hallgrímur Óskarsson, texti Hallgrímur og Svavar Knútur Kristinsson (Bragi Valdimar Skúlason samdi upphaflega textann)) flutt af Svavari Knúti Kristinssyni og Hreindísi Ylvu Garðarsdóttur Hólm, Meðal andanna (lag Birgitta Haukdal, Sylvía Haukdal og Jonas Gladnikoff, texti Birgitta Haukdal, Sylvía Haukdal, Michael James Down og Primoz Poglajen) í flutningi Birgittu Haukdal, og Sá sem lætur hjartað ráða för (lag Þórir Úlfarsson, texti Kristján Hreinsson) flutt af Eddu Viðarsdóttur, Þú (lag og texti Davíð Sigurgeirsson) flutt af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur. Síðara undanúrslitakvöldið kepptu lögin: Augnablik (lag Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Ingibjörg Gunnarsdóttir) sungið af Ernu Hrönn Ólafsdóttur, Ég syng! (lag Elíza Newman, Gísli Kristjánsson og Ken Rose, texti Elíza Newman, Gísli Kristjánsson og Hulda G. Geirsdóttir) sungið af Unni Eggertsdóttur, Skuggamynd (upphaflega undir titlinum Hjartað) (lag Hallgrímur Óskarsson, texti Hallgrímur Óskarsson og Ashley Hicklin) sungið af Klöru Ósk Elíasdóttur, Stund með þér (hét upphaflega Kem til þín) (lag og texti María Björk Sverrisdóttir) sungið af Sylvíu Erlu Scheving, Til þín (texti Sveinn Rúnar Sigurðsson, texti Sveinn Rúnar Sigurðsson og Ágúst Ibsen) flutt af Jógvan Hansen og Stefaníu Svavarsdóttur, og Vinátta (lag og texti Haraldur Reynisson) sungið af höfundinum. Lögin Ég á líf, Lífið snýst og Meðal andanna komust áfram frá fyrri undanúrslitunum og Ég syng, Til þín og Vinátta frá síðara kvöldinu, dómnefndin ákvað síðan að Ekki líta undan yrði sjöunda lagið í úrslitin.

Á úrslitakvöldinu voru það Ég á líf með Eyþóri Inga og Ég syng! með Unni Eggertsdóttur sem urðu hlutskörpust og hið nýja fyrirkomulag – tveggja laga einvígið var á milli þeirra laga. Flestir höfðu reiknað með góðu gengi fyrrnefnda lagsins en nokkuð kom á óvart að sjá lagið með Unni í einvíginu, skýringin kann að vera sú að hún var um þessar mundir í hlutverki Latabæjarpersónunnar Sollu stirðu og yngsta kynslóðin kunni því vel að meta framlag hennar. Svo fór reyndar að hún þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Eyþóri Inga og Ég á líf sem varð hlutskarpast í keppninni og þar með framlag Íslands í Eurovision í Svíþjóð í maí. Þar með var Örlygur Smári, annar höfundur lagsins að fara í fjórða sinn í keppnina sem lagahöfundur en hinn höfundurinn, Pétur Örn Guðmundsson í fyrsta sinn sem höfundur – hann hafði hins vegar farið fimm sinnum sem bakraddasöngvari.

Fljótlega fóru af stað raddir sem vildu meina að Ég á líf væri rammstolið en það þótti keimlíkt Arrogant worms laginu I am cow, ekki þótti þó tilefni til frekari aðgerða. Ekki var gerð ensk útgáfa af laginu og var það í fyrsta sinn sem aðeins kom út íslensk útgáfa af framlagi Íslands. Smáskífa kom út með Ég á líf sem fór í dreifingu um Evrópu og lagið kom svo einnig út á safnplötunni Söngvakeppni Sjónvarpsins 2013 ásamt öðrum lögum undankeppninnar. Þess má geta að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins gaf það út um vorið að þar eftir skyldi orðið Eurovision notað í stað Evróvisjón en mörgum hafði þótt íslenskunin á hugtakinu býsna kjánaleg.

39 lög kepptu um sigurinn í Eurovision keppninni sem fram fór um miðjan maí í Malmö og skoraði íslenska framlagið ekki hátt í veðbönkum tengdum keppninni en þar var lagið meðal neðstu sæta, menn tóku þó gleði sína þegar Eyþór Ingi og félagar voru dregnir upp úr einu umslaganna á síðara undanúrslitakvöldinu og ljóst var að Eurovision partí væri framundan á laugardagskvöldinu. Og árangurinn var vel viðunandi því Ég á líf endaði í 17. sæti keppninnar, miklu ofar en veðbankarnir sögðu til um en Danir sigruðu að þessu sinni. Reyndar kom í ljós að íslenska framlagið hafnaði í 12. sæti í símakosningunni en dómnefndirnar drógu það töluvert niður, lagið átti síðan ágæta gengi að fagna eftir keppnina í Evrópu þótt ekki væri því sérstaklega fylgt eftir af Eyþóri Inga og höfundum lagsins í álfunni, hér heima var lagið hins vegar sungið víða á bæjarhátíðum um sumarið.

Efni á plötum