
Jóhanna Guðrún syngur Is it true?
Undirbúningur fyrir næstu undankeppni hófst þegar um haustið 2008 og er ekki laust við að meiri bjartsýni ríkti meðal landans eftir að Eurobandið hafði komist upp úr forkeppninni um vorið.
Sjónvarpinu var þó þröngur stakkur búinn í kjölfar kreppuástands að ljóst að yfirbragð og umgjörð keppninnar yrði með látlausara móti, t.d. færi keppnin fram í sjónvarpssal en ekki í stórum sal úti í bæ.
Fyrirkomulagið var með þeim hætti að fjórir undanúrslitaþættir með fjórum lögum hver (alls sextán lög), færi fram í janúar og febrúar, tvö lög kæmust í úrslitin úr hverjum þætti og alls myndu átta lög keppa í úrslitaþættinum 14. febrúar.
Fimmtán laganna sextán voru valin úr hópi 217 laga sem bárust í keppnina en aukinheldur var Örlygi Smára sigurvegaranum árið áður boðið að eiga eitt lag meðal þeirra sextán. Þær Ragnhildur Steinunn og Eva María Jónsdætur sáu um þættina sem fengu einfaldlega nafnið Söngvakeppni Sjónvarpsins 2009.
Lögin átta sem kepptu í úrslitaþættinum voru þau Easy to fool í flutningi Arnars Jónssonar, Edgars Smára Atlasonar, Sverris Baldurs Torfasonar og Ólafs Torfasonar (lag Torfi Ólafsson, texti Þorkell Olgeirsson), Got no love sungið af hljómsveitinni Elektru (lag Örlygur Smári, texti Örlygur Smári og Sigurður Arnar Jónsson) I think the world of you með Jógvan Hansen (lag og texti Hallgrímur Óskarsson), Is it true? Sungið af Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur (lag Óskar Páll Sveinsson, texti Óskar Páll Sveinsson, Christopher Neil og Tinatin Japaridze), The kiss we never kissed í flutningi Edgars Smára Atlasonar (lag Heimir Sindrason, texti Ari Harðarson), Lygin ein sungið af Kaju Halldórsdóttur (lag og texti Albert G. Jónsson), Undir regnboganum sungið af Ingólfi Þórarinssyni (Ingó Veðurguð) (lag Hallgrímur Óskarsson, texti Eiríkur Hauksson) og Vornótt með Hreindísi Ylfu Garðarsdóttur (lag Erla Gígja Þorvaldsdóttir, texti Hilmir Jóhannesson).
Lyktir urðu þær að Jóhann Guðrún og Is it true? sigraði með yfirburðum og lagið Undir regnboganum með Ingó Veðurguð varð í öðru sæti.
Hin lögin átta (sem ekki komust í úrslitaþáttinn voru Close to you sungið af Kristínu Ósk Wium (lag og texti Grétar Sigurbergsson), Cobwebs með Unni Birnu Björnsdóttur (lag Heimir Sindrason, texti Ari Harðarson), Dagur nýr í flutningi Heiðu Ólafsdóttur (lag Halldór Guðjónsson, texti Íris Kristinsdóttir), Family með Seth Sharp (lag og texti Óskar Páll Sveinsson og J. A. Wright), Fósturjörð sungið af Páli Rósinkrans (lag og texti Einar Scheving), Glópagull í flutningi Ernu Hrönn Ólafsdóttur (lag og texti Einar Oddsson), Hugur minn fylgir þér með Ólöf Jöru Skagfjörð (lag og texti Valgeir Skagfjörð) og Roses í flutningi Höllu Vilhjálmsdóttur (lag Trausti Bjarnason, texti Halla Vilhjálmsdóttir).
Fyrirfram þótti Is it true? ekki sigurstranglegt í undankeppninni en þegar undirbúningur fór í fullan gang gleymdu menn því. Smáskífa var gefin út og lagið kom ennfremur út á safnplötunum Pottþétt 49 og 100 íslensk í ferðalagið á 6 geislaplötum. Lagið í öðru sæti, Undir regnboganum kom einnig út á safnplötunum tveimur. Lögin tvö voru einnig ásamt hinum lögunum úr undankeppninni á plötunni Söngvakeppni Sjónvarpsins 2009.
Jóhanna sem nú kallaðist nú Yohanna fyrir alþjóðamarkað hafði verið barnastjarna á Íslandi undir verndarvæng Maríu Bjarkar Sverrisdóttur en var nú komin á fullorðins aldur og hafði þegar landað plötusamningi, plata hennar Butterflies and Elvis hafði komið út árið áður og menn notuðu nú þann meðbyr og athygli sem Eurovision óneitanlega gat vakið, til að koma henni almennilega á kortið.
Og allt leit vel út, veðbankar spáðu Jóhönnu Guðrúnu góðu gengi í Moskvu og þegar hún söng framlag sitt fyrra kvöld forkeppninnar komst hún í úrslitin og hafnaði þar að endingu í öðru sæti Eurovision á eftir Norðmanninum Alexander Rybak og jafnaði þar með besta árangur Íslands síðan árið 1999. Eftir keppnina var ennfremur gefið út að hún hefði sigrað forkeppnina. Það má því segja að Jóhanna Guðrún hafi unnið hug og hjarta þjóðarinnar og kallað fram gæsahúð hörðustu andstæðinga Eurovision.