Söngvakeppni Sjónvarpsins 2008 – Fullkomið líf / This is your life

Eurobandið

Eurobandið

Óhætt er að segja að Ríkissjónvarpið hafi reynt að gera þátt undankeppni Söngvakeppni Sjónvarpsins sem mestan fyrir árið 2008 með mjög svo breyttu fyrirkomulagi, reyndar svo mjög að mörgum þótti nóg um.

Herlegheitin hófust á haustmánuðum þegar skemmtiþátturinn Laugardagslögin hóf göngu sína en hann var í umsjá Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur og Gísla Einarssonar.

Í ellefu þáttum fram að jólum voru þrjú lög kynnt í hverjum þætti, samtals þrjátíu og þrjú lög en sex þeirra komu úr röðum laga sem „almenningur“ sendi í undankeppnina (146 slík lög bárust) en afgangurinn, tuttugu og sjö lög runnu undan rifjum níu lagahöfunda sem fengnir voru sérstaklega til að semja þrjú lög hvert fyrir þáttinn.

Reyndar gerðu þeir sér ekki allir ljóst að um væri að ræða undankeppni fyrir Eurovision og voru víst ekki allir á eitt sáttir þegar þeir komust að hinu sanna. Málin voru hins vegar settluð í kyrrþei. Höfundarnir níu voru þeir Andrea Gylfadóttir, Barði Jóhannsson, Guðmundur Jónsson, Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunni), Hafdís Huld Þrastardóttir, Magnús Eiríksson, Magnús Þór Sigmundsson, Margrét Kristín Sigurðardóttir (Fabúla) og Svala Björgvinsdóttir.

Lögin þrjátíu og þrjú kepptu í áðurnefndum ellefu þáttum fyrir jól og komst eitt lag áfram úr hverjum þætti. Einu lagi var síðan bætt við þannig að tólf laganna kepptu í fjórum undanúrslitaþáttum í janúar og febrúar, og kepptu um átta laus sæti í úrslitaþættinum sem fram fór 23. febrúar í Vetrargarðinum í Smáralind. Auk þáttanna fimmtán voru þrír upprifjunarþættir svo samtals urðu þeir átján. Á þessu fimm mánaða tímabili tóku sum laganna heilmiklum breytingum, svo miklum að sum þeirra breyttu um texta og stíl og voru nær óþekkjanleg eftir þá yfirhalningu.

Lögin átta sem kepptu í úrslitaþættinum voru eftirfarandi; Don‘t wake me up með Ragnheiði Gröndal en lag og texti var eftir Margréti Kristínu Sigurðardóttur (Fabúlu), Fullkomið líf (lagið hafði hlotið nýjan enskan texta, This is my life) fyrir úrslitin, eftir Pál Óskar Hjálmtýsson) flutt af Eurobandinu, Örlygur Smári samdi lagið en Friðrik Ómar Hjörleifsson og Regína Ósk Óskarsdóttir textann, Gef mér von sungið af Páli Rósinkrans og Gospelkór Reykjavíkur við lag og texta Guðmundar Jónssonar, Ho ho ho, we say hey hey hey með hljómsveitinni Merzedes club eftir Barða Jóhannssonar, Hvað var það sem þú sást í honum? flutt af hljómsveitinni Baggalúti en lag og texti voru eftir Magnús Eiríksson, Hvar ertu nú? með hljómsveitinni Dr. Spock en lag og texta sömdu Gunnar L. Hjálmarsson (Dr. Gunni) og hljómsveitin í sameiningu, In your dreams flutt af Davíð Þ. Olgeirssyni við eigið lag og texta og Núna veit ég sungið af Magna Ásgeirssyni og Birgittu Haukdal en lag og texti eru eftir Hafdísi Huld Þrastardóttur.

Lögin fjögur sem duttu út í undanúrslitunum voru The girl in the golden dress sungið af Bjarti Guðjónssyni við eigin texta en móðir hans, Andrea Gylfadóttir samdi lagið, Leigubílar með Pálma Gunnarssyni og Hrund Ósk Árnadóttur við lag og texta Magnúsar Eiríkssonar, Lullaby to peace sungið af Seth Sharp, Berglindi Ósk Guðgeirsdóttur og Ínu Valgerði Pétursdóttur en Magnús Þór Sigmundsson samdi lag og texta og The wiggle wiggle song með Hafsteini Hafsteinssyni (Haffa Haff) við lag og texta Svölu Björgvinsdóttur.

Önnur lög keppninnar voru Að eilífu í flutningi Þóru Gísladóttur við lag og texta Guðmundar Jónssonar, Á ballið á sungið af Tinnu Marínu Jónsdóttur og Böðvari Rafni Reynissyni (Bödda í Daltón) en lag og texti eru eftir Barða Jóhannsson, Bigger shoes þar sem Margrét Kristín Sigurðardóttir söng eigið lag og texta, Boys and perfume flutt af Hafdísi Huld Þrastardóttur og samið af henni einnig, Drepum tímann í flutningi Karls Sigurðssonar og Sigríðar Thorlacius við lag Gunnars L. Hjálmarsonar (Dr. Gunna) og texta Braga Valdimars Skúlasonar, Flower of fire með Andreu Gylfadóttur en lag og texta samdi hún sjálf, Friður á þessari jörð í flutningi Ali Mobli, Harold Burr, Hildar Guðnýjar Þórhallsdóttur, Sigurðar Þór Óskarssonar og Soffíu Karlsdóttur en lag og texta samdi Barði Jóhannsson, Game over sungið og samið af Margréti Kristínu Sigurðardóttur (Fabúlu) og Martin Höybye, I wanna manicure sungið af dúettnum Hara systrum við lag og texta Hallgríms Óskarssonar, I won‘t be home tonight með Seth Sharp en lag og texti eru eftir Svölu Björgvinsdóttur, If I fall in love again flutt af Edgari Smára Atlasyni en lag og texti eru eftir Svölu Björgvinsdóttur, If you were here með hljómsveitinni Mönnum ársins við lag og texta Þórarins Freyssonar, Í rússíbana í flutningi Hrundar Ósk Árnadóttur við lag og texta Magnúsar Eiríkssonar, Ísinn með Ragnheiði Eiríksdóttur (Heiðu í Unun) við lag Gunnars L. Hjálmarssonar og texta Ólafs Sindra Ólafssonar, Johnny sungið af Seth Sharp en lag og texti eru eftir Magnús Þór Sigmundsson, Lífsins leið sem Áslaug Helga Hálfdanardóttir flutti en lag og texta samdi hún sjálf, The picture með Þóru Gísladóttur við lag og texta Hjörleifs Ingasonar, Skot í myrkri í flutningi Ragnheiðar Gröndal, Magnús Þór Sigmundsson samdi lag og texta, Straumurinn með Einari Ágústi Víðissyni og Sigurjóni Brink en lag og texti eru samin af Guðmundi Jónssyni og Vocalise, flutt og samið af Andreu Gylfadóttur.

Sigurvegarinn undankeppninnar 2008 varð hljómsveitin Eurobandið með þau Friðrik Ómar Hjörleifsson og Regínu Ósk Óskarsdóttur í fararbroddi með europoppið Fullkomið líf (This is my life) en þau börðust hatrammri baráttu við aðra sveit, Merzedes club og europoppskotna danslagið Ho ho ho, we say hey hey hey. Þriðja sveitin hafnaði í þriðja sæti, Dr. Spock og sjómannarokklagið Hvar ertu nú?

Eitthvað var grunnt á vinskapnum milli sigurvegaranna og Merzedes club því þegar Friðrik Ómar hafði tekið við verðlaununum skaut hann föstum skotum að þeim síðarnefndu. Engin eftirmál urðu þó af þeim viðskiptum.

Smáskífa og síðan breiðskífa litu dagsins ljós hjá Eurobandinu í kjölfarið og sveitin fór á fullt í kynningar og undirbúning fyrir lokakeppnina sem haldin yrði í Serbíu í maí. Höfundur lagsins, Örlygur Smári hafði með sigrinum unnið undankeppni Eurovision í annað skipti en fyrra skiptið var þegar Hvert sem er (Tell me) sigraði átta árum áður. Hann var ekki meðal þeirra níu lagahöfunda sem Sjónvarpið bað um að semja þrjú lög þrátt fyrir að hafa verið sigurvegari keppninnar árið 2000.

Öll lögin þrjátíu og þrjú í undankeppninni komu út á tvöföldu safnplötunni Söngakeppni Sjónvarpsins 2008 en auk þess gaf Merzedes club einnig út breiðskífuna I wanna touch you og naut mikilla vinsælda ekkert síður en sigurvegararnir, lagið The wiggle wiggle song með Haffa Haff kom ennfremur út á safnplötukassanum 100 íslensk í ferðalagið á 6 geislaplötum árið eftir en önnur lög komu ekki út annars staðar en á fyrrnefndri safnplötu með þátttökulögunum.

Eurovision keppnin var eins og fyrr segir haldin í Serbíu og voru þátttökuþjóðir orðnar það margar að tvær forkeppnir þurfti til, sú fyrri var haldin á þriðjudagkvöldi en sú síðari tveimur dögum síðar, fimmtudaginn 22. maí en þá mættu þau Friðrik Ómar og Regína til leiks. Íslendingum til mikillar gleði komust þau áfram í úrslitin tveimur dögum síðar og stemmingin magnaðist fram að því.

Þau stigu síðan fyrst á svið úrslitakvöldið og þegar stigagjöf var lokið síðar um kvöldið kom í ljós að Ísland hafði hafnað í 14. sæti. Það hlaut að vera ásættanlegur árangur þar eð þátttökuþjóðunum hafði fjölgað svo mjög á síðustu árum. Rússar urðu sigurvegararnir í þetta skiptið.

Efni á plötum