Söngvakeppni Sjónvarpsins – undankeppni Eurovision (1986-)

Jóhanna Guðrún

Jóhanna Guðrún hefur náð lengst Íslendinga í Eurovision keppninni ásamt Selmu Björnsdóttur

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Evróvisjón söngvakeppnin eða Eurovision song contest) hefur lengi verið vinsælt sjónvarpsefni á Íslandi sem annars staðar í álfunni en keppnin hefur verið haldin frá árinu 1956. Hún hefur þó einnig verið vinsælt þrætuefni og ekki hafa allir verið á eitt sáttir um gæði keppninnar, sumir hafa litið á hana sem ruslfæði í tónlistarformi og tóku fjölmargir íslenskir tónlistarmenn t.a.m. þátt í tónlistarhátíð (Alternativfestival) í Svíþjóð 1975 til að mótmæla því að Eurovision keppnin var haldin þá um vorið þar í landi eftir að Abba hafði sigrað hana árið áður. Meðal þeirra Íslendinga sem tóku þátt í þeirri „anti-Eurovision“ hátíð voru Þokkabót, Þrjú á palli, Megas og hljómsveit á vegum Gunnars Þórðarsonar. Þrátt fyrir misjafnar skoðanir fólks á keppninni verður þó tæpast litið fram hjá vinsældum hennar, enda er hún eitt vinsælasta sjónvarpsefni sem fyrirfinnst í Evrópu.

Eurovision keppnin hafði verið sýnd hérlendis í sjónvarpi frá árinu 1970 þegar hin írska Dana sigraði, þó ekki í beinni útsendingu fyrr en vorið 1983, keppnin hefur verið send út beint síðan þá.

Íslendingar tóku fyrst þátt í keppninni 1986 og hafa verið með síðan, fyrir utan tvö skipti sem við hlutum ekki þátttökurétt vegna slaks árangurs árið áður. Fyrst var bjartsýnin með ólíkindum en þegar framlög okkar höfðu hafnað í þrígang í sextánda sætinu og síðan í botnsætinu má segja að áhuginn meðal landsmanna hafi dvínað nokkuð. Hin síðari ár hafa væntingarnar hins vegar aukist nokkuð aftur og þykir fólki sjálfsagt að við séum að berjast við toppþjóðirnar ár hvert.

Eurovision söngvakeppnin og þátttaka Íslendinga í henni er löngu búin að sanna sig í gegnum tíðina. Menn smitast af áhuganum og nú þegar við höfum verið með í ríflega tuttugu skipti má benda á það að samkvæmt lauslegum útreikningum hafa á þriðja hundrað laga keppt í úrslitum undankeppninnar hér heima, og um tvö þúsund lög verið send í hana (sum lögin hafa þó væntanlega verið send oftar en einu sinni).

Yfirleitt hefur farið fram undankeppni með aðsendum lögum en þó hefur Ríkissjónvarpið í nokkur skipti valið framlag Íslendinga án slíkrar keppni, það þarf vart að taka fram hvort fyrirkomulagið hefur verið vinsælla meðal almennings.

Mörg laganna hafa komið út á plötum, ýmist með listamönnunum sjálfum, höfundunum eða á plötum sem gefnar hafa verið út sérstaklega með lögum úr keppninni. Þau hafa einnig birst á alls kyns safnplötum, hérlendis sem erlendis en keppnislögin í aðalkeppninni eru t.a.m. alltaf gefin út á safnplötum.

Hér hefur verið stiklað á stóru um þessa vinsælu söngvakeppni sem fólk ýmist elskar út af lífinu eða elskar að hata. Margir vilja ekkert kannast við að fylgjast með Eurovision, hvorki hér heima né þegar í aðalkeppnina er komið en samt virðist íslenska þjóðin yfirleitt verða að einni manneskju þegar vel gengur, ekkert ósvipað og með handboltaáhuga landans en þegar miður vel gengur skiptist þjóðin í tvennt. Og þá eru stóru orðin ekkert spöruð á hinn veginn.

Efni á plötum

Undankeppni Eurovision 1986 – Gleðibankinn / Bank of fun

Undankeppni Eurovision 1987 – Hægt og hljótt / One more song

Undankeppni Eurovision 1988 – Þú og þeir (Sókrates) / Socrates

Undankeppni Eurovision 1989 – Það sem enginn sér / No one knows

Undankeppni Eurovision 1990 – Eitt lag enn / One more song

Undankeppni Eurovision 1991 – Draumur um Nínu (Nína) / Nina

Undankeppni Eurovision 1992 – Nei eða já / Time after time

Undankeppni Eurovision 1993 – Þá veistu svarið / Midnight dancer

Undankeppni Eurovision 1994 – Nætur / Night time

Undankeppni Eurovision 1995 – Núna / If it’s gonna end in heartache

Undankeppni Eurovision 1996 – Sjúbídú / Shoobe doo

Undankeppni Eurovision 1997 – Minn hinsti dans / My dear

Undankeppni Eurovision 1998

Undankeppni Eurovision 1999 – All out of luck

Undankeppni Eurovision 2000 – Hvert sem er / Tell me!

Undankeppni Eurovision 2001 – Birta / Angel

Undankeppni Eurovision 2002

Undankeppni Eurovision 2003 – Segðu mér allt / Open your heart

Undankeppni Eurovision 2004 – Heaven

Undankeppni Eurovision 2005 – If I had your love

Undankeppni Eurovision 2006 – Til hamingju Ísland / Congratulations

Undankeppni Eurovision 2007 – Ég les í lófa þínum / Valentine lost

Undankeppni Eurovision 2008 – Fullkomið líf / This is your life

Undankeppni Eurovision 2009 – Is it true?

Undankeppni Eurovision 2010 – Je ne sais quoi

Undankeppni Eurovision 2011 – Aftur heim / Coming home

Undankeppni Eurovision 2012 – Mundu eftir mér / Never forget

Undankeppni Eurovision 2013 – Ég á líf

Undankeppni Eurovision 2014 – Enga fordóma / No prejudice

Undankeppni Eurovision 2015 – Lítil skref / Unbroken

Undankeppni Eurovision 2016 – Raddirnar / Hear them calling

Undankeppni Eurovision 2017 – Ég veit það / Paper

Undankeppni Eurovision 2018 – Heim / Our choice

Undankeppni Eurovision 2019 – Hatrið mun sigra

Undankeppni Eurovision 2020 – Gagnamagnið / Think about things

Undankeppni Eurovision 2021 – 10 years

Undankeppni Eurovision 2022 – Með hækkandi sól

Undankeppni Eurovision 2023 – Lifandi inni í mér / Power