Afmælisbörn 19. janúar 2015

Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla)

Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla)

Í dag eru fjölmörg afmælisbörn, þau eru eftirfarandi:

Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) er 65 ára. Hann hefur vægast sagt komið víða við á sínum ferli enda fjölhæfur með afbrigðum, spilar á flest hljóðfæri, útsetur og semur tónlist. Framan af var hann í hljómsveitum eins og Náttúru, bjó síðar í Vestmannaeyjum þar sem hann stjórnaði kórum og kenndi tónlist, en eftir að hann eignaðist hljóðverið Stemmu varð það hans aðalstarf. Diddi hefur sérhæft sig í upptökum á kóratónlist og hefur tekið upp hundruðir slíkra platna.

Óttar Felix Hauksson, sem á sínum tíma var talað um sem bítlaaðdáanda númer eitt á Íslandi er líkt og Diddi fiðla, 65 ára gamall. Hann lék með sveitum eins og Geislum, Pops og Sonet á árum áður, gerðist umboðsmaður hljómsveita og tónleikahaldari, síðar útgefandi þegar hann stofnaði Sonet útgáfuna. Á síðari árum hefur Óttar Felix starfrækt hljómsveitir eins og Gullkistuna og Specials, auk Pops.

Norðfirðingurinn Guðjón Birgir Jóhannsson hljómborðsleikari Out loud og hljóðmaður hjá Hljóðkerfaleigu Austurlands  er þrítugur á þessum degi.

Sigurður Reynir Pétursson (1921-2007) fyrrverandi framkvæmdstjóri STEFs hefði einnig átt afmæli á þessum degi. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjórans í tuttugu ár, var einnig lögfræðingur samtakanna og FÍH um árabil auk þess að vera framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda um tíma.