Deildarbungubræður (1976-79)

Deildarbungubræður4

Deildarbungubræður

Deildarbungubræður var hljómsveit sem herjaði á sveitaballamarkaðinn á árunum 1977-79 og náði að gefa út tvær stórar plötur á þeim tíma.

Hljómsveitin var upphaflega sett saman sem grínverkefni fyrir útihátíð á Melgerðismelum í Skagafirði um verslunarmannahelgina 1976 en þar lék hún í pásu hjá Eik, Deildarbungubræður skipuðu að sögn þeir Axel Einarsson gítarleikari, Bragi Björnsson (bílstjóri Eikar) bassaleikari, Þorsteinn Magnússon (gítarleikari Eikar) trommuleikari og Lárus Grímsson (hljómborðsleikari Eikar) gítarleikari.

Sveitin (sem réttilega má kalla systursveit Eikar) var eins konar mótvægi fyrir þá þungu tónlist sem Eik lék en Deildarbungubræður léku léttpopp sem auðvelt var að dansa við.

Ákveðið var að halda áfram með grínið og fimm dögum fyrir jólin 1976 kom út platan Saga til næsta bæjar, þá var sveitin skipuð þeim Axeli (sem líklega lék nú á bassa), Þorsteini gítarleikara, Ólafi Garðarssyni trommuleikara og Árna Sigurðssyni söngvara og gítarleikara.

Á plötunni sló lagið María draumadís í gegn en Harpo hafði gert það vinsælt ári fyrr undir nafninu Movie star, þess má til gamans geta að Abba-drottningin Anni-Frid Lyngstad syngur bakraddir í útgáfu þeirra bræðra frá Deildarbungu. Einnig naut opnunarlag plötunnar, Nú er gaman, mikilla vinsælda. Platan fór reyndar í upphafi fyrir ofan garð landsmanna og neðan enda hafði enginn tími gefist til að kynna hana svo stuttu fyrir jól, sveitinni varð það til happs að koma fram í sjónvarpsþættinum Rokkveitu ríkisins og vakti það meiri athygli á plötunni en ella. Enda fór svo að hún seldist ágætlega eða í um þrjú þúsund eintökum eða mun betur en plata sem Eik gaf út um sama leyti, tvenns konar umslög af plötunni komu út, ljósbrúnleitt og appelsínugult. Saga til næsta bæjar hlaut sæmilega dóma í Vísi.

Þrátt fyrir nokkrar vinsældir plötunnar lék sveitin ekki opinberlega aftur (eftir verslunarmannahelgina 1976) fyrr en vorið eftir (1977), þá var Þorsteinn gítarleikari hættur en Kristinn Sigurjónsson bassaleikari hafði gengið til liðs við sveitina í staðinn, þá lék Axel orðið á gítar. Þetta sumar tók sveitin upp aðra plötu en hún kom síðan út fyrir jólin, platan hlaut heitið Enn á jörðinni og fékk ekki eins góðar viðtökur og Saga til næsta bæjar. Á henni er þó að finna lagið Stúlkan mín, það naut nokkurra velgengni en þó í engu eins mikilla og það naut í flutningi Skítamórals áratugum síðar. Platan fékk þokkalega dóma í Dagblaðinu. Breytingar höfðu orðið í sveitinni frá því að upptökurnar fóru fram um sumarið, Ólafur Kolbeins hafði þá tekið við trommunum af nafna sínum Garðarssyni.

Deildarbungubræður2

Deildarbungubræður við kirkjuna á Árbæjarsafni

Snemma árs 1978 komu Deildarbungubræður fram í umdeildri sjónvarpsþáttaröð sem hlotið hafði nafnið Hér sé stuð, þátturinn var fyrst og fremst umdeildur fyrir að lög hljómsveita voru leikin af plötum en tónlistarmennirnir „mæmuðu“, þ.e. þóttust leika og syngja lögin. Það var nýlunda á þessum tíma og því voru áhorfendur sjónvarpsins ekki alls kostar ánægðir með þættina.

Um vorið 1978 urðu enn mannabreytingar í sveitinni, ágreiningur um hvort bæta ætti við fimmta manninum varð til þess að Axel hætti í sveitinni og Ólafur trommari stuttu síðar, þegar sýnt þætti að hinir tveir ætluðu ekki að halda áfram starfseminni ákváðu tvímenningarnir að halda áfram og fengu til liðs við sig Ágúst Ragnarsson bassaleikara og Jón Ragnarsson söngvari og gítarleikara en Axel söng einnig. Þannig skipuð héldu Deildarbungubræðurnir inn í sumarið og léku mikið á sveitaböllum á landsbyggðinni næstu mánuðina við nokkrar vinsældir.

Í byrjun árs 1979 var hljómsveitin ennþá starfandi en síðan virðist hafa fjarað undan henni, þeir Axel, Ólafur og Jón stofnuðu við fjórða mann hljómsveitina Freeport en saga Deildarbungubræðra virtist úti, sveitin lék þó eitthvað um haustið, nokkrum mánuðum síðar áður en hún lognaðist alfarið útaf.

Fleiri aðilar en þeir sem hér að ofan eru taldir munu hafa staldrað við í Deildarbungubræðrum um skemmri tíma, þar má nefna Ágúst Birgisson bassaleikara, Harald Þorsteinsson bassaleikara og Yngva Stein Sigtryggsson hljómborðsleikara.

Þrátt fyrir að sögu sveitarinnar hafi lokið haustið 1979 kom hún saman aftur ríflega þrjátíu árum síðar eða haustið 2010. Þá voru fimm meðlimir í henni en ekki liggur fyrir hverjir það voru.

Efni á plötum