Söngvakeppni Sjónvarpsins 2006 – Til hamingju Ísland / Congratulations

Silvía nótt og lífverðir hennar

Silvía Nótt ásamt lífvörðum

Árið 2006 rann upp og loksins var komið að því að undankeppni skyldi haldin eftir þriggja ára hlé, og hún skyldi verða í stærra lagi enda átti Ríkissjónvarpið fjörtíu ára afmæli á árinu auk þess sem tuttugu ár voru liðin frá því Ísland keppti fyrst, með Gleðibankann. Ennfremur var söngvakeppnin sett í hendurnar á utanaðkomandi aðila, BaseCamp productions sem sá um alla framkvæmd hennar.

Fyrirkomulagið var því með enn nýju sniði, tuttugu og fjögur lög voru valin úr hópi 226 laga og kepptu þau á þremur kvöldum um fjögur laus sæti í úrslitunum, þannig áttu tólf lög að keppa til úrslita auk tveggja laga í viðbót sem bestan árangur hefðu þeirra sem næst komu, samtals fjórtán lög.

Reyndar urðu þau fimmtán því að í ljós kom að eitt laganna Til hamingju Ísland, hafði lekið á Internetið áður en leyfilegt var og hafði því ákveðið forskot á önnur lög. Þetta kom í ljós eftir að lagið hafði tryggt sér sæti í úrslitunum undankeppninnar og því var erfitt að vísa því úr keppni. Var því ákveðið að einu lagi til viðbótar yrði bætt í hóp þeirra fjórtán sem kæmust í úrslitin.

Lögin fimmtán voru eftirtalin: Andvaka með Guðrúnu Árnýju Karlsdóttur (e. Trausta Bjarnason), Á ég? Í flutningi Bjartmars Þórðarsonar (e. Örlyg Smára/Sigurð Örn Jónsson), Eldur nýr með Ardísi Ólöfu Víkingsdóttur (e. Örlyg Smára/Örlyg Smára, Niclas Kings og Daniellu Vecchia), Flottur karl, Sæmi rokk flutt af Magna Ásgeirssyni (e. Sævar Benediktsson), Hjartaþrá sungið af Sigurjóni Brink (e. Bryndísi Sunnu Valdimarsdóttur), 100% í flutningi Rúnu Stefánsdóttur og Brynjars Más Valdimarssonar (e. Hörð G. Ólafsson/Kristján Hreinsson), 100% hamingja með Aðalheiði Ólafsdóttur (e. Svein Rúnar Sigurðsson/Kristján Hreinsson), Mynd af þér sungið af Birgittu Haukdal (e. Svein Rúnar Sigurðsson/Kristján Hreinsson), Sést það ekki á mér flutt af Matthíasi Matthíassyni (e. Sigurð Örn Jónsson), Strengjadans með Davíð Þ. Olgeirssyni (e. Davíð sjálfan), Stundin, staðurinn í flutningi Þóru Gísladóttur og Edgars Smára Atlasonar (e. Ómar Ragnarsson), Til hamingju Ísland með Silvíu Nótt (e. Þorvald Bjarna Þorvaldsson/Ágústu Evu Erlendsdóttur og Gauk Úlfarsson), Útópía sungið af Dísellu Lárusdóttur (e. Svein Rúnar Sigurðsson/Kristján Hreinsson), Það sem verður með Friðriki Ómari Hjörleifssyni (e. Hallgrím Óskarsson/Láru Unni Ægisdóttur) og Þér við hlið sungið af Regínu Ósk Óskarsdóttur (e. Trausta Bjarnason/Magnús Þór Sigmundsson).

Hin lögin níu (sem sátu eftir) voru Á meðan hjartað slær sungið af Katy Winter (e. Tómas Hermannsson/Ragnheiði Gröndal), Dagurinn í dag í flutningi Geirs Ólafssonar (e. Friðrik Ómar Hjörleifsson/Kristján Hreinsson), Ég sé sungið af Írisi Kristinsdóttur (e. Írisi sjálfa), Hamingjusöm með Fanneyju Óskarsdóttur (e. Fanneyju sjálfa), Í faðmi þér sungið af Maríönnu Másdóttur (e. Ingva Þór Kormáksson/Valgeir Skagfjörð), Lífið flutt af Eyjólfi Kristjánssyni og Bergsveini Arilíussyni (e. Eyjólf), María með Gunnari Ólasyni (e. Roland Hartwell/Birgi S. Klingenberg), Mig langar að hafa þig hér sungið af Sólveigu Samúelsdóttur (e. Hallgrím Óskarsson/Heiðu Eiríksdóttur) og Það var lagið með Gunnari Ólasyni (e. Roland Hartwell/Stefán Hilmarsson).

Eins og fyrr segir var fimmtánda laginu bætt inn í úrslitin þegar ljóst var að Til hamingju Ísland hefði verið þjófstartað í vefheimum, miklar deilur spruttu upp af því í kjölfarið og margir vildu að laginu yrði vísað úr keppninni. Páll Magnússon sjónvarpsstjóri tók þá ákvörðun að lagið skyldi fá að keppa í úrslitunum en höfundar annarra laga vildu ekki una þeirri niðurstöðu og gekk Kristján Hreinsson þar fremstur í flokki enda átti hann fjóra texta af þeim lögum sem komust í úrslitin, og eitt að auki ef öll tuttugu og fjögur voru talin. Hópurinn hótaði m.a. að hætta við þátttöku í keppninni. Niðurstaðan varð þó eins og áður segir, að fimmtán lög kepptu til úrslita laugardagskvöldið 18. febrúar í myndveri Sjónvarpsins að Fiskislóð.

Vilji landans í símakosningunni varð skýr, yfir 70% atkvæða féllu Silvíu Nætur og laginu Til hamingju Ísland í skaut en ríflega 100.000 manns kusu í þeirri kosningu. Þér við hlið með Regínu Ósk varð í öðru sæti og Friðrik Ómar með Það sem verður hafnaði í þriðja sæti.

Áður en lengra er haldið er rétt að kynna þessa söngkonu Silvíu Nótt lítillega. Á sjónvarpsstöðinni Skjá einum hafði þessi persóna, Silvía Nótt (sem er aukasjálf leikkonunnar Ágústu Evu Erlensdóttur) verið með þátt í eigin nafni og hafði öðlast eigið líf sem sjálfumglaður hrokagikkur sem skildi eftir sig sviðna jörð í formi meinlegra athugasemda um aðra og ekki síður hástemmdar yfirlýsingar um eigið ágæti. Hún naut nokkurra vinsælda þar sem útsendingar Skjás eins náðust og þegar í ljós kom að hún myndi syngja þetta lag varð hún landsfræg. Ekki voru allir þó meðvitaðir um leikþáttinn í kringum hana og átti hún sér þ.a.l. einnig „óvildarmenn“ sem ekki tóku hana í sátt þegar þeim var ljóst grínið. Hún var því frá upphafi afar umdeild.

Lagið Til hamingju Ísland kom að sjálfsögðu í kjölfarið út á smáskífu á íslensku og ensku (undir nafninu Congratilations) en lagið var þar að finna í fimm mismunandi útgáfum. Einnig var búið að „útlenska“ nafn hennar upp á ensku og hét hún nú Silvia Night. Lagið kom ennfremur út á safnplötunni Pottþétt 40 og á plötu sem Sena gaf út í samvinnu við Ríkissjónvarpið undir nafninu Söngvakeppni Sjónvarpsins 2006, slík plata hafði ekki komið út frá árinu 1988.

Af öðrum lögum keppninnar er það að frétta að lagið Andvaka var einnig að finna á plötu Guðrúnar Árnýjar, Eilíft augnablik, 100% hamingja og Útópía voru á plötu höfundarins Sveins Rúnars Sigurðssonar, Valentine lost (2007), Það sem verður með Friðriki Ómari var ennfremur á plötu hans, Annan dag (2006) og Þér við hlið kom út á safnplötunni 100% sumar og á sólóplötu Regínu Óskar, Í djúpum dal (sem báðar komu út 2006). Öll komu lögin fimmtán í úrslitunum út á áðurnefndri safnplötu, Söngvakeppni Sjónvarpsins 2006. Ekkert laganna níu sem sátu eftir, hafa hins vegar komið út á plötum.

Haldið var til Aþenu í Grikklandi þar sem forkeppnin fyrir Eurovision fór fram fimmtudagskvöldið 18. maí. Silvía Nótt baðaði sig strax í sviðsljósinu og þar sem fáir utan Íslendinganna á svæðinu vissu um þennan risaleikþátt sem verið var að setja á svið aflaði hún sér mikilla óvinsælda á mettíma og gerði allt vitlaust með grófum móðgunum og athugasemdum í garð hinna keppendanna, fjölmiðlafólks og annarra. Ennfremur kom til álita að vísa laginu úr keppni þar sem brot úr textanum fór fyrir brjóstið á stjórnendum keppninnar. Af því varð þó ekki.

Forkeppnin gekk í garð og söngkonan uppskar baul að flutningi loknum, og þegar ljóst var að hún kæmist ekki áfram í úrslit keppninnar fór leikkonan, Ágústa Eva, alla leið í showinu og lét skammirnar í bland við reiðitárin bitna á nærstöddum með vel völdum skammaryrðum. Hún hafnaði í þrettánda sæti forkeppninnar og ekki er laust við að brandarinn þótti orðinn ansi grófur og langur að mati sumra Íslendinganna sem hlegið höfðu þó í upphafi.

Hirðin í kringum Silvíu Nótt nýtti þó athyglina og hélt sýningin áfram um tíma, með plötuútgáfu og sjónvarpsþáttagerð þar til efnið var þurrausið um ári síðar. Finnar sigruðu Eurovision að þessu sinni en Íslendingar voru heillengi að jafna sig.

Efni á plötum