
Birgitta Haukdal
Þar sem Ísland hafði ekki þátttökurétt í Eurovision 2002 (sem haldin var í Eistlandi) voru Íslendingar lítið með hugann við keppnina fyrr en í ársbyrjun 2003 þegar undankeppni var haldin með pomp og prakt og fimmtán lög kepptu til úrslita en yfir 200 lög höfðu borist í hana. Þá var tekin upp sú nýlunda að selja inn á keppnina, sem haldin var í Háskólabíói.
Lögin fimmtán voru eftirfarandi; Allt (lag Höskuldur Ö. Lárusson / texti Egill Lárusson) flutt af Höskuldi höfundi lagsins, Ást á skítugum skóm (lag og texti Karl O. Olgeirsson) í flutningi Rúnars Júlíussonar, Engu þurfum að tapa (lag og texti Einar Jónsson) sungið af Regínu Ósk Óskarsdóttur og Hjalta Jónssyni, Eurovísa (lag og texti Botnleðja) flutt af höfundum, Ferrari (lag og texti Páll Torfi Önundarson) sungið af Ragnheiði Gröndal, Hvar sem ég enda (lag Karl O. Olgeirsson / texti Bragi Valdimar Skúlason) með Þóru Gísladóttur, Í nótt (lag Ingvi Þór Kormáksson / texti Friðrik Erlingsson) flutt af Eivöru Pálsdóttur, Með þér (lag og texti Sveinn Rúnar Sigurðsson) í flutningi Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur og Dísellu Lárusdóttur, Mig dreymdi lítinn draum (lag og texti Friðrik Karlsson) flutt af Hreimi Erni Heimissyni, Sá þig (lag Albert G. Jónsson / texti Kristinn Sturluson) í flutningi Þóreyjar Heiðdal, Segðu mér allt (lag Hallgrimur Óskarsson / texti Hallgrímur og Birgitta Haukdal) flutt af Birgittu, Sögur (lag Ingunn Gylfadóttir og Tómas Hermannsson/texti Sigurjón Sigurðsson) sungið af Ingunni, Tangó (lag Ragnheiður Eiríksdóttir / texti Þorkell S. Símonarson) flutt af Ragnheiði, Þú (lag Grétar Örvarsson/texti Ingibjörg Gunnarsdóttir) sungið af Hreimi Erni Heimissyni og Þú og ég (er ég anda) (lag Ingólf Sv. Guðjónsson / texti Stefán Hilmarsson) í flutningi Jóhönnu Vigdísar Arnardóttur.
Það sem vakti kannski mestu athyglina þarna var að Hafnfirðingarnir í Botnleðju væru á meðal keppenda og það hjálpaði þeim óneitanlega að lagið var eins óeurovisionlegt og hægt var því margir voru á því að Íslendingar ættu að senda óhefðbundið lag eða grínlag, það væri engu að tapa.
Það fór þó ekki að Eurovísa ynni því Segðu mér allt, flutt af Birgittu Haukdal, söngkonu hljómsveitarinnar Írafár sigraði, Eurovísa Botnleðju varð í öðru sæti og Sá þig með Þóreyju Heiðdal í því þriðja. Met var sett í símakosningu tengt keppninni en rétt um 70.000 manns kusu.
Sigurlagið kom út á smáskífu í þremur útgáfum (ensku, íslensku og ósunginni) og hét nú orðið Open your heart, engar deilur urðu í þetta skiptið um hvort syngja ætti á íslensku eða ensku. Einnig kom lagið út á safnplötunni Eurovision: Iceland’s entries in the ESC and a lot more… 1986-2003, um vorið.
Önnur lög keppninnar – Ferrari kom út með Ragnheiði Gröndal og Salsasveitinni á safnplötunni Halló, halló, halló um sumarið og síðan á sólóplötu höfundarins Páls Torfa Önundarsonar tveimur árum síðar, Jazzskotinn stef og söngdansar, Í nótt með Eivöru Pálsdóttur kom út á plötunni Eurovision: Iceland’s entries in the ESC and a lot more… 1986-2003, Mig dreymdi lítinn draum, Sá þig og Þú og ég (er ég anda) voru einnig að finna á þeirri plötu. Lagið Í nótt kom út á plötu höfundarins Ingva Þór Kormákssonar Kvöld í borginni (2004) í flutningi Ellenar Kristjánsdóttur en áður hafði það sigrað í alþjóðlegri sönglagakeppni, þá flutt af Eivöru eins og hér heima. Með þér kom út á plötu höfundarins Sveins Rúnar Sigurðssonar, Valentine lost (2007), Tangó kom á plötu Heiðu og Heiðingjanna, Tíu fingur upp til guðs og Ást á skítugum skóm kom út á safnplötu Rúnars Júl. Söngvar um lífið 1966-2008 árið 2008. Önnur lög undankeppninnar hafa aldrei komið út á plötum.
Birgitta hélt til Lettlands en Lettar höfðu sigrað árið áður í Eistlandi, heilmikið mál var þó gert úr því hvort lagið væri löglegt þar eð það líktist lagi sem Richard Marx hafði gert vinsælt nokkrum árum áður, niðurstaðan varð þó sú eftir nokkra rekistefnu að lagið væri ekki stolið. Birgitta steig fyrst allra á svið og hafnaði í níunda sæti sem ætti að teljast ágætur árangur, fyrir vikið tryggði hún Íslendingum sæti í keppninni að ári. Tyrkir sigruðu í Eurovision að þessu sinni.