Söngfélag Stykkishólms (1878-88)

Kór eða söngflokkur var starfandi í Stykkishólmi um áratugar skeið undir lok 19. aldar, undir nafninu Söngfélag Stykkishólms en bókbindarinn Guðmundur Guðmundsson var stofnandi þess og söngstjóri.

Söngfélag Stykkishólms var stofnað árið 1878 til að syngja á milli atriða á leiksýningum sem leikfélagið í bænum setti upp en það var stofnað um svipað leyti. Guðmundur var stofnandi söngfélagsins og sá um söngstjórnina en einnig gætu þeir Ólafur Thorlacius og Sveinn Jónsson einnig hafa komið þar við sögu. Félagið starfaði við bágar aðstæður í Stykkishólmi framan af en það lenti þá á hrakhólum með húsnæði, æfingaaðstaða hópsins var fyrstu árin í fangaklefa hreppsins en heldur rættist úr þegar félagið fékk kirkjuna í Stykkishólmi til afnota fyrir æfingar, með þeim skilyrðum reyndar að ekki yrðu sungnar þar drykkju- eða gleðivísur auk þess sem söngfélagið tæki að sér söng við messuhald, meðlimir kórsins munu hafa verið fjórtán þegar mest var.

Söngfélag Stykkishólms starfaði til 1887 eða 88 og var í raun sjálfhætt þegar Guðmundur söngstjóri lést, einhverjar tilraunir voru þá gerðar til að reisa félagið aftur við – hugsanlega þá undir stjórn þeirra Ólafs og Sveins en þær tilraunir báru lítinn árangur og félagsskapurinn hætti störfum litlu síðar.