Egon (1955-67)

Egon 1955, myndin ef fengin af myndasíðu Snæbjörns1

Egon 1955

Hljómsveitin Egon (stundum nefnd Egon kvintett og síðar Egon og Eyþór) lífgaði upp á tónlistarlífið í Stykkishólmi um árabil á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Hljómsveitin var stofnuð 1955, meðlimir hennar höfðu allir fengið tónlistargrunn sinn úr Lúðrasveit Stykkishólms, og lék hún á dansleikjum, aðallega á Vesturlandi, framundir lok áratugarins.

Sú útgáfa sveitarinnar var skipuð þeim Gísla Birgi Jónssyni trommuleikara, Sæbirni Jónssyni trompetleikara, Hinrik Finnssyni bassaleikara, Bjarna Lárentsínussyni saxófónleikara og Gunnlaugi Lárussyni gítarleikara, einnig söng Birna Pétursdóttir með sveitinni. Jón Svanur [?] harmonikkuleikari leysti Gísla af um tíma. Sveitin hætti störfum í þessari mynd 1959 þegar Sæbjörn hætti og flutti suður til Reykjavíkur en hann átti síðar eftir að verða þekktur í tónlistarlífi landsmanna, m.a. sem stjórnandi Lúðrasveitarinnar Svans og stofnandi Stórsveitar Reykjavíkur, svo eitthvað sé nefnt.
Egon lá líklega í kör í tvö ár áður en hún var endurreist vorið 1961, áðurnefndir Bjarni, Gunnlaugur og Birgir skipuðu þá sveitina en einnig höfðu þá bæst í hópinn Einar Halldórsson píanó-, harmonikku- og víbrafónleikari, Ólafur Kristjánsson bassaleikari og Eyþór Lárentsínusson söngvari. Sveitin lék nú að minnsta kosti til ársins 1967, hugsanlega eitthvað lengur. Þórður Ársæll Þórðarson [píanóleikari?] var eitthvað viðloðandi sveitina um tíma og ekki er ólíklegt að fleiri hafi komið við sögu hennar.

Árið 2000 kom sveitin saman fyrir Danska daga í Stykkishólmi og lék þá á dansleik, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu þá útgáfu Egons.