Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar (1995-)

Hljómsveit Friðjóns á upphafsárum hennar

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar er um margt merkileg hljómsveit en segja má að verkefni hennar hafi í gegnum tíðina verið tvíþætt, fyrir utan að vera venjuleg hljómsveit sem leikur á dansleikjum af ýmsu tagi hefur sveitin haft það megin markmið að varðveita og gefa út alþýðutónlist af austanverðu landinu – tónlist sem annars hefði horfið af yfirborðinu en sveitin hefur þegar þetta er ritað gefið út um áttatíu lög eftir um sextíu laga- og textahöfunda. Og til að nefna þriðja vinkilinn í starfsemi hennar má geta þess að hún hefur þrívegis verið fulltrúi Íslands á skandinavískri tónlistarhátíð í Svíþjóð.

Hljómsveit Friðjóns Jóhannssonar var stofnuð sem tríó síðsumars 1995 á Egilsstöðum af Friðjóni Inga Jóhannssyni sem leikur á bassa og syngur en hinir meðlimir sveitarinnar eru sonur hans, Daníel Friðjónsson trommuleikari og Árni Jóhann Óðinsson gítarleikari og söngvari. Einnig lék Eyþór Hannesson hljómborðs- og harmonikkuleikari með sveitinni um tíma undir lok aldarinnar en sveitin hefur starfað óslitið síðan 1995 og leikið á hundruð dansleikja, tónleika og öðrum tónlistartengdum uppákomum, og hefur jafnframt skv. heimildum leikið í hundrað tuttugu og átta samkomustöðum um allt land. Þrátt fyrir að Friðjón hljómsveitarstjóri hafi flutt til Akureyrar árið 2000 og búið þar síðan hefur það ekki hamlað starfsemi hljómsveitarinnar.

Með hljómsveit sinni hefur Friðjón unnið mikið og göfugt hugsjónastarf en sveitin hefur á eigin kostnað og frumkvæði leitast við að varðveita austfirska dægurtónlist með útgáfu á henni en sú tónlist hefði annars að öllum líkindum horfið af sjónarsviðinu, þeir félagar hafa leitað uppi lög og texta alþýðutónskálda og textahöfunda í landshlutanum frá ýmsum tímum í því skyni að gefa þau út og hafa þeir fengið til þess fjölda söngvara og hljóðfæraleikara til samstarfs, auk útsetjara og upptökumanna, hér má m.a. nefna Einar Braga Bragason, Hafstein M. Þórðarson, Brynleif Hallsson, Aðalheiði Borgþórsdóttur, Hreggvið Jónsson og Valmar Väljaots.

Hljómsveit Friðjóns árið 1996

Fyrsta platan í þessu hugsjónastarfi kom út árið 1996 og bar heitið Austfirskir staksteinar, hún hafði að geyma þrettán lög eftir sextán laga- og textahöfunda en upptökur höfðu farið fram undir stjórn Einars Braga Bragasonar í Stúdíó Risi í Neskaupstað. Eðlilega hlaut platan mestu athyglina á heimaslóðum fyrir austan en mun þó hafa selst ágætlega á landsvísu, gagnrýni um plötuna birtist í DV en var varla nema þokkalega jákvæð. Tvö laganna rötuðu ári síðar inn á safnplötuna Í laufskjóli greina sem gefin var út í tilefni af hálfrar aldar afmælis Egilsstaðabæjar en Friðjón hafði einmitt yfirumsjón með því verkefni.

Árið 1997 sendi sveitin frá sér sína aðra plötu en hún var helguð tónlist Óðins G. Þórarinssonar föður Árna gítarleikara sveitarinnar en Óðinn sem upphaflega kemur frá Fáskrúðsfirði hefur samið lög eins og Nú liggur vel á mér, Blíðasti blær og Síðasti dansinn. Platan bar heitið Við tónanna klið: Lög Óðins G. Þórarinssonar, Óðinn kom sjálfur við sögu á plötunni þar sem hann lék á harmonikku en fjöldi aðstoðarfólks kom einnig við sögu, Einar Bragi var sveitinni aftur innan handar með útsetningar og upptökustjórn en platan geymir nítján lög Óðins.

Nokkur bið var nú á því að sveitin sendi frá sér plötu en árið 2000 voru meðlimir hennar áberandi á safnplötu sem var helguð tónlist frá Borgarfirði eystra og bar titilinn Fjörðurinn okkar en Friðjón söng þar átta laganna og aðrir meðlimir hennar komu þar einnig víða við sögu.

Danshljómsveit Friðjóns ásamt Óðni G. Þórarinssyni á útgáfutónleikum

Önnur Staksteinaplata kom út árið 2003 undir titlinum Austfirskir staksteinar II en hún var hluti af fyrrgreindu hugsjónastarfi Friðjóns og hljómsveitar hans rétt eins og samnefnd fyrsta plata (og platan með lögum Óðins einnig). Nýja platan var fimmtán laga og voru laga- og textahöfundar á henni alls sautján talsins en að þessu sinni sá Brynleifur Hallsson um upptökuþáttinn, plötugagnrýni birtist í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Virðingarverðar björgunaraðgerðir“ og var ekkert alltof jákvæð í garð sveitarinnar frekar en sá dómur sem birtist um fyrri plötuna enda var þar fremur lítt horft til þess hugsjónastarfs sem þarna var unnið, nokkru fyrr gat þó að líta grein í sama blaði þar sem fjallað var einmitt um þetta sama hugsjónastarf. Að venju nutu þeir félagar liðsinnis fjölda aðstoðarmanna og -kvenna við flutninginn. Þessi plata var gefin út undir merkjum eigin útgáfufyrirtækis sveitarinnar (Austfirskir staksteinar) sem einnig gaf út um svipað leyti plötu með upplestri á barnasögum, flestar plötur sveitarinnar voru eftirleiðis gefnar út af þessu sama útgáfufyrirtæki.

Danshljómsveit Friðjóns á Græna hattinum

Næst á dagskrá var endurútgáfa á Austfirskum staksteinum 1 & II og Við tónanna klið vorið 2006 en plöturnar þrjár voru þá orðnar ófáanlegar og því tilefni til endurútgáfu sem reyndar var vegleg því um var að ræða tvöfalda plötu undir nafninu 44 íslensk alþýðu dans- og dægurlög: 42 íslenskir laga- og textahöfundar. Reyndar voru á þessari útgáfu nokkur aukalög sem ekki höfðu verið á upphaflegu plötunum og ennfremur var fáeinum lögum sleppt af upprunalegu Staksteinunum. Plata þessi hefur selst vel í gegnum tíðina og verið endurútgefin að minnsta kosti tvívegis.

Sveitin hefur sem fyrr segir alla tíð verið dugleg við hvers konar spilamennsku og næst kom svo út plata árið 2007 með live-upptökum frá skemmtistaðnum Vélsmiðjunni á Akureyri en þar höfðu þeir félagar leikið sama vor og hljóðritað herlegheitin, þessi plata hét Eins og við erum: Tekið upp „live“ á Vélsmiðjunni 14. apríl 2007 – hún kom út í takmörkuðu upplagi.

Næsta plata í því hugsjónastarfi Danshljómsveitar Friðjóns Jóhannssonar að varðveita austfirska alþýðutónlist kom út árið 2016 undir titlinum Austfirskir staksteinar 3, sú plata hafði að geyma sextán lög eftir sautján laga- og textahöfunda og var unnin undir sömu forskrift og hinar plöturnar.

Hljómsveitina á Svenska Dansbandsveckan

Sumarið 2017 fór Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar í fyrsta sinn utan til Malung í Svíþjóð til að leika á stærstu danshljómsveitatónlistarhátíð sem haldin er á Norðurlöndunum en hátíðin ber heitið Svenska Dansbandsveckan og stendur yfir í vikutíma hvert sinn, þar koma fram á níunda tug hljómsveita og gestir hátíðarinnar hafa verið um fimmtíu þúsund talsins og koma víðs vegar að. Sveitin fór í þrígang til Svíþjóðar til að taka þátt í þessu sér skandinavíska festivali, á árunum 2017 til 19 en eins og kunnugt er skall Covid-heimsfaraldurinn á ári síðar og varð líklega til að koma í veg fyrir að sveitin færi aftur á hátíðina – reyndar sendu þeir félagar frá sér dvd-disk árið 2018 þar sem ferð þeirra til Svíþjóðar sama ár var gerð skil í máli og myndum, á þeim disk er einnig að finna svipmyndir frá dansleik sveitarinnar hjá félagsskapnum „Komið og dansið“ en það er félag áhugafólks um dansmennt starfandi á höfuðborgarsvæðinu.

2019 var komið að enn einni útgáfunni hjá hljómsveitinni en þá leit dagsins ljós platan Þá og nú: Lög Óðins G. Þórarinssonar, tveggja diska pakki með þrjátíu og sjö lögum – aukin og endubætt útgáfa af plötunni Við tónanna klið sem hafði komið út 1997, þar hafði verið bætt við áður óútgefnum lögum sem og gömlum útgáfum sem áður höfðu komið út og Alda music hefur nú útgáfuréttinn á og gaf Alda góðfúslega leyfi fyrir endurútgáfunni. Jafnframt gáfu þeir félagar út nótnabók með lögum Óðins samhliða plötuútgáfunni.

Danshljómsveit Friðjóns Jóhannssonar 2024

Útgáfuformið hefur verið að breytast á síðustu árum og hafa geisladiskarnir nær horfið af sjónarsviðinu en tónlistarveiturnar tekið við. Hljómsveit Friðjóns hefur á allra síðustu árum tileinkað sér það útgáfuform og sent frá sér tvær jólasmáskífur á netinu, annars vegar lagið Aðventuljós eftir Sigþrúði Sigurðardóttur en Friðjón hafði einmitt sungið á plötu hennar nokkrum árum fyrr, hins vegar lagið Hólahopp – framlag sveitarinnar úr Jólalagasamkeppni Rásar 2 árið 2004 en Björn Hafþór Guðmundsson frá Stöðvarfirði hafði samið lag og texta.

Hvert sem útgáfuform sveitarinnar í framtíðinni verður þá er ljóst að hún á eftir að senda frá sér meira efni því sveitin lumar enn á tónlist austfirskra alþýðutónskálda og textahöfunda sem bíður eftir að vera gefið út. Og ekkert bendir til að sveitin sé að hætta störfum enda er hún í fullu fjöri.

Efni á plötum