Himbrimi [2] (2013-18)

Himbrimi

Hljómsveitin Himbrimi starfaði um nokkurt skeið á öðrum áratug þessarar aldar en sveitin átti rætur að rekja til Hafnarfjarðar rétt eins og önnur sveit með sama nafni mörgum árum fyrr, líklega er þó enginn skyldleiki milli sveitanna tveggja.

Himbrimi var stofnuð árið 2013 og voru meðlimir hennar frá upphafi þau Margrét Rúnarsdóttir söngkona og hljómborðsleikari, Birkir Rafn Gíslason gítarleikari, Hálfdán Árnason bassaleikari, Egill Rafnsson trommuleikari og Skúli Arason hljómborðsleikari. Sveitin lét lítið á sér kræla fyrst um sinn en árið 2014 varð hún miklu meira áberandi og lék nokkuð á tónleikum, sveitin sendi ennfremur frá sér tvö lög þá um haustið og þótti afar efnileg en hún hlaut tvær tilnefningar á Hlustendaverðlaunum X-ins 977, sem nýliði ársins og fyrir bestu söngkonuna.

Himbrimi sendi frá sér sjö laga plötu á vínylformi árið 2015 (líklega líka á geisladisk) undir nafni sveitarinnar en ekki liggur fyrir hvers konar móttökur sú plata hlaut nema að hún hlaut ágæta gagnrýni á Rás 2, sveitin starfaði áfram allt til 2018 þegar hún virðist hafa lagt upp laupana fljótlega eftir að hafa komið fram á Iceland Airwaves þá um haustið.

Efni á plötum