Afmælisbörn 27. apríl 2024

Hermann Guðmundsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar á þessum degi:

Í fyrsta lagi er það hljómborðsleikarinn Stefán Helgi Henrýsson en hann er fimmtíu og fjögurra ára gamall í dag. Stefán hefur leikið með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina, Sóldögg er þeirra þekktust enda hefur sú sveit sent frá sér fjölda laga og platna en einnig má nefna hljómsveitir eins og Testimony soul band co., Neyðina, Greip, Sval & Val, Blauta dropa og Kandís.

Og svo er það bassaleikarinn Birgir Mogensen en hann var áberandi á nýbylgjutímanum um og upp úr 1980 með hljómsveitum á borð við Spilafífl, Kukl, Frostrósir, Inferno 5, Hattímas og Með nöktum, þá vita það ekki allir að Birgir var einn af upphaflegu meðlimum Mezzoforte og starfaði einnig um hríð með bresku sveitinni Killing joke. Birgir er sextíu og tveggja ára gamall í dag.

Að síðustu er hér nefndur söngvarinn Hermann Guðmundsson en hann var þekktur dægurlagasöngvari og raunar einn sá allra fyrsti hér á landi. Hermann var fæddur 1916 og söng bæði klassík og dægurlög, hann söng bæði með karlakórum og danshljómsveitum á sínum tíma og varð jafnvel svo frægur að syngja í óperusýningum. Hann lést árið 1989.

Vissir þú að Dr. Gunni og Guðbergur Bergsson rithöfundur áttu eitt sinn í samstarfi í tónlistinni?