Afmælisbörn 28. apríl 2024

Margrét Pálmadóttir

Sjö tónlistartengd afmæli koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Jón Ólafsson bassaleikari á sjötíu og tveggja ára afmæli í dag en varla finnst sá hljóðfæraleikari sem hefur leikið með fleiri hljómsveitum á Íslandi. Glatkistan hefur á skrá á þriðja tug sveita sem hann hefur leikið með en hér er aðeins stiklað á stóru: Sonet, Start, Póker, Tatarar, Ástarkveðja, Drýsill, Eik, Pelican og Pops.

Margrét Pálmadóttir kórstjórnandi er sextíu og átta ára gömul, hún hefur stjórnað Kór Flensborgarskóla, Vox feminae, Barnakór Grensáskirkju, Stúlknakór Reykjavíkur, Stúlknakór Seltjarnarness, Kór starfsmannafélags ríkisstofnana og Kvennakór Reykjavíkur, svo nokkur dæmi séu tekin. Margrét nam söng í Austurríki og Ítalíu, nam einnig orgelleik og er einn af stofnendum Óperusmiðjunnar.

Ingvar Grétarsson söngvari og gítarleikari frá Akureyri fagnar sextíu og eins árs afmæli á þessum degi. Ingvar var áberandi í Landslagskeppnunum sem haldnar voru fyrir og um 1990 en hann hefur starfað með hljómsveitum á borð við Úlfana, Pass, Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Karakter og Flúr.

Myrra Rós Þrastardóttir trúbador er fjörutíu og eins árs gömul í dag. Hún hafði fyrst vakið athygli ásamt Elísabetur Eyþórsdóttur í Músíktilraunum árið 2008 en ári síðar var hún ein Trúbatrixa sem gaf út plötuna Taka 1. Sjálf gaf Myrra Rós út plötu árið 2012, sem bar nafnið Kveldúlfur.

Júlíus (Ingvar) Brjánsson er sjötíu og þriggja ára gamall í dag en margir muna eftir honum á leiksviði, sjónvarpi og hljómplötum en hann starfaði sem grínisti og skemmtikraftur um skeið og var m.a. í grínhópum eins og Úllen dúllen doff og Kaffibrúsakörlunum sem gáfu út vinsælar plötur á sínum tíma.

Skúli Kristján Halldórsson píanóleikari og tónskáld hefði átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2004. Skúli (f. 1914) sem starfaði lengi sem skrifstofustjóri SVR, skildi eftir sig þrjár plötur sem höfðu að geyma verk eftir hann.

Halldór Fannar Valsson (1948-2012) einn af stofnfélögum Ríó tríós átti einnig afmæli þennan dag, hann lék á gítar í sveitinni fyrstu árin og var t.a.m. á tveimur fyrstu smáskífum sveitarinnar, áður hafði hann verið í undanförum Ríósins, Rokkunum og Kviðagilskvartettnum. Hann hætti hins vegar 1969 til að einbeita sér að tannlæknanámi sínu og kom lítið að tónlist eftir það.

Vissir þú að amma Þráins Árna Baldvinssonar í Skálmöld gaf eitt sinn út plötu?