Afmælisbörn 27. apríl 2023

Birgir Mogensen

Tvö tónlistartengd afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar á þessum degi:

Það er annars vegar hljómborðsleikarinn Stefán Helgi Henrýsson en hann er fimmtíu og þriggja ára gamall í dag. Stefán hefur leikið með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina, Sóldögg er þeirra þekktust enda hefur sú sveit sent frá sér fjölda laga og platna en einnig má nefna hljómsveitir eins og Testimony soul band co., Neyðina, Greip, Sval & Val, Blauta dropa og Kandís.

Og svo er það bassaleikarinn Birgir Mogensen en hann var áberandi á nýbylgjutímanum um og upp úr 1980 með hljómsveitum á borð við Spilafífl, Kukl, Frostrósir, Inferno 5, Hattímas og Með nöktum, þá vita það ekki allir að Birgir var einn af upphaflegu meðlimum Mezzoforte og starfaði einnig um hríð með bresku sveitinni Killing joke. Birgir er sextíu og eins árs gamall í dag.

 Vissir þú að þegar Sálin hans Jóns míns fór í pásu vorið 1993 var Pláhnetan stofnuð að hluta til af sömu mönnum til að fylla skarðið?