Sálin hans Jóns míns (1988-2018)

Sálin hans Jóns míns – upphaflega útgáfan

Sálin hans Jóns míns er eitt stærsta nafn íslenskrar tónlistar, og líklega það allra stærsta þegar talað er um hljómsveitir. Sveitin afrekaði á sínum 30 ára ferli ótrúlega hluti, hún var upphaflega stofnuð upp úr soultónlistar-verkefni og var aldrei ætlaður lengri líftími en eitt sumar á sveitaböllum en næstu árin varð hún hins vegar ein allra vinsælasta hljómsveit landsins með ótal stórsmelli og fjölda útgefinna platna. Sálin lék mest framan af á dansleikjum en eftir aldamót hafði hún þróast í nýja átt þar sem vandað gæðapopp leiddi m.a. til aukins tónleikahalds og samstarfs við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Gospelkór Reykjavíkur og Stórsveit Reykjavíkur með viðkomu í Borgarleikhúsinu, og festi hana í sessi sem virtustu popphljómsveit Íslands. Spenna og átök einkenndu þó stundum samstarfið og á þrjátíu ára afmælisárinu var ákveðið að segja því lokið meðan menn gátu ennþá talast við innbyrðis.

Upphaf ævintýrsins má klárlega rekja til þess þegar Þorsteinn J. Vilhjálmsson þáverandi útvarpsmaður á Bylgjunni og blaðamaður, kallaði saman nokkra tónlistarmenn til að spila tónlist úr kvikmyndinni Blues Brothers á skemmtistaðnum Evrópu haustið 1987. Það voru þeir Jón Ólafsson hljómborðsleikari (Bítlavinafélagið, Possibillies o.fl.), Guðmundur Jónsson gítarleikari (Kikk, Tíbet tabú o.fl.), Birgir Bragason bassaleikari (Birthmark, Galíleó o.fl.), John Collins söngvari, Pétur Grétarsson trommuleikari (Smartband, Síðan skein sól o.fl.) og Stefán Hilmarsson söngvari (Sniglabandið o.fl.). Þeir félagar spiluðu í þessari Blues Brothers dagskrá ásamt Elínu Ólafsdóttur og Arnhildi Guðmundsdóttur nemum úr Verzlunarskólanum en auk þess sungu áðurnefndur Þorsteinn og Guðjón Reynisson félagi hans nokkur lög. Þetta band sem var einungis tímabundið verkefni og hlaut aldrei nafn, varð síðar kveikjan að stofnun hinnar einu sönnu Sálar.

Fljótlega eftir áramótin eða í febrúar 1988 kom hópurinn aftur fram á skemmtistaðnum Lækjartunglinu en þá kom Þorsteinn J. hvergi nærri, í það skiptið voru þeir félagar auglýstir undir nafninu Blúsbræður. Í kjölfarið fékk Jón það verkefni að setja saman sveit til að leika tónlistina úr Jesus Christ Superstar á nokkrum skemmtikvöldum og í framhaldi af því datt honum í hug að sú sveit gæti haldið áfram störfum og leikið sams konar sálartónlist og leikin hafði verið í Evrópu haustið á undan. Hann fékk því félaga sína úr Bítlavinum, Rafn Jónsson trommuleikara og Harald Þorsteinsson bassaleikara til liðs við sig og að auki þá félaga sína úr Blues brothers verkefninu Stefán Hilmarsson söngvara (sem um jólin hafði slegið í gegn með laginu Jólahjól) og Guðmund Jónsson gítarleikara til að slást í hópinn, einnig var Björn Vilhjálmsson í fyrstu útgáfu sveitarinnar en hann staldraði stutt við. Aldrei stóð þó til að sveitin starfaði lengur en fram á haust þegar Stefán Hjörleifsson gítarleikari Bítlavina kæmi heim úr námi sínu í Bandaríkjunum en það var einmitt ástæðan fyrir að sú sveit var í fríi.

Samhliða stofnun hinnar nýju sveitar voru jafnframt saumaðir sérstakir hljómsveitarbúningar á bandið í anda soul tónlistarmanna. Síðan var bandið nefnt Sálin hans Jóns míns, að nokkru leyti til heiðurs Jóni sem átti hugmyndina að hljómsveitinni, auk þess sem “sálin” vísaði til orðsins soul – Sálin hans Jóns míns er þó auðvitað fyrst og fremst heiti á þjóðsögu sem Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi orti samnefnt ljóð út frá (sem og leikritið Gullna hliðið).

Sálin haustið 1988

10. mars 1988 var fyrsta gigg Sálarinnar hans Jóns míns, í Bíókjallaranum – nýjum skemmtistað við Lækjargötu þar sem Cafe Rósenberg hafði verið áður, en sveitin hafði verið ráðin þar til að leika í nokkur skipti. Það sama kvöld voru útgáfutónleikar hljómsveitarinnar E-X í Lækjartunglinu í sama húsi, og upphitunarhljómsveit þar var Ham sem þar var að koma fram í fyrsta sinn rétt eins og Sálin.

Sálin fór á fullt í spilamennsku í framhaldinu, lék töluvert í Bíókjallaranum en einnig í Evrópu og víðar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni áður en Stefán söngvari hélt til Írlands og söng framlag Íslands í Eurovision, lagið Sókrates e. Sverri Stormsker, og fór sveitin þá í stutta pásu en að henni lokinni tók nokkuð sleitulítil ballspilamennska við um sumarið sem náði hápunktinum um verslunarmannahelgina á Melgerðismelum í Eyjafirði ásamt fleiri sveitum. Fyrir verslunarmannahelgina var einnig sett saman hljómsveit, Víxlar í vanskilum sem sendi frá sér Flagarabrag en meðlimir Sálarinnar voru meðal meðlima hennar.

Nokkur lög höfðu verið hljóðrituð „lifandi“ í Bíókjallaranum og Hótel Akranesi í mars og apríl  með það að markmiði að gefa þau út ásamt fjórum lögum (þar af þremur frumsömdum) sem hljóðrituð voru í Glaðheimum með nokkrum blásurum, til að gefa tónlistinni meiri sálarkeim. Platan sem hlaut nafnið Syngjandi sveittir kom svo út í júlí á vegum Steina og seldist vel, lagið Á tjá og tundri (lag og texti Guðmundar) sló eftirminnilega í gegn sem og Kanínan (sem upphaflega kom út með hljómsveitinni Ýr frá Ísafirði árið 1975) sem bæði komust ofarlega á vinsældalistana en önnur lög voru gamlir soul-standardar. Platan hlaut þó fremur slaka dóma í DV og varla nema sæmilega í Pressunni. Vínylútgáfa plötunnar hafði að geyma átta lög en þrjú aukalög voru á CD-útgáfunni – eitt þeirra var Sókrates í enskri útgáfu. Kanínan kom einnig út þetta sumar á sumarsafnplötunni Bongóblíðu.

Haustið kom, Sálin hélt sinn lokadansleik og Bítlavinafélagið með þá Jón, Harald og Rafn tók til starfa á nýjan leik. Eftir sátu þeir Stefán og Guðmundur og höfðu þá ákveðið að halda áfram sem frá var horfið og gengu hlutirnir hratt fyrir sig, svo hratt að sveitin fór í raun aldrei í pásu. Nýir meðlimir komu inn, Magnús Stefánsson trommuleikari (Utangarðsmenn, Egó o.fl.) Birgir J. Birgisson hljómborðsleikari og nafni hans Birgir Bragason bassaleikari sem hafði verið í Blues brothers verkefninu í upphafi. Hans naut þó ekki lengi við og tók Friðrik Sturluson (Mao, Hending o.fl.) við af honum um áramótin 1988-89.

Ástæðan fyrir þessum skjótu mannabreytingum má líklega rekja til þess að sveitin hafði í ágúst tekið upp lögin Þig bara þig og Neistann sem síðan komu út á safnplötunni Frostlög um haustið, og vildu þeir félagar sjálfsagt fylgja því eftir með spilamennsku. Það fór líka svo að lögin slógu í gegn, Þig bara þig fór fljótlega á topp Íslenska listans og sat þar sem fastast næstu vikurnar og á toppi vinsældalista Rásar 2 einnig um jólin og fram eftir janúar mánuði, Neistinn naut einnig vinsælda. Og þar með hófst í raun hið rómaða samstarf þeirra Guðmundar og Stefáns sem laga- og textahöfunda. Guðmundur samdi lögin tvö og Stefán textann við Þig bara þig, Stefán hafði þá áður átt einn texta á Sniglabandsplötu en Guðmundur hafði meiri reynslu og hafði samið lög og texta m.a. fyrir Kikk. Á nýju lögunum var soulkeimurinn að mestu farinn af tónlistinni enda komu engin blásturshljóðfæri við sögu eins og á Syngjandi sveittum.

Sveitin notaði öll tækifæri til að leika fyrir lýðinn og þó svo að sveitaballaverkefnum fækkaði yfir vetrartímann lék Sálin á skemmtistöðum höfuðborgarsvæðisins og skólaböllum – t.d. á Jólagleði framhaldsskólanna á Hótel Íslandi rétt fyrir jól þar sem flestar af vinsælustu sveitum landsins spiluðu.

Sálin 1989

Árið 1988 var gott fyrir Sálina hans Jóns míns og í uppgjöri barnablaðsins Æskunnar var sveitin kjörin vinsælasta hljómsveitin, átti vinsælasta lagið (Þig bara þig), var með þriðju vinsælustu plötuna og Stefán bæði kjörinn vinsælasti söngvari og vinsælasta poppstjarnan – þarna hafði Stefán reyndar átt ótrúlegt ár, hafði átt vinsælasta jólalag allra tíma á Íslandi jólin á undan ásamt Sniglabandinu (Jólahjól), sungið framlag Íslands í Eurovision (Sókrates) og slegið í gegn með Sálinni.

Sálin hans Jóns míns lék áfram á dansleikjum í þéttbýlinu fram á vorið en þá tóku sveitaböllin meira við. Sveitin hafði þá gert þriggja platna útgáfusamning við Steina og um sumarið kom út safnplata á vegum útgáfunnar undir nafninu Bandalög, þar sem Sálin átti tvö lög sem höfðu verið hljóðrituð í Grjótnámunni um vorið. Þetta voru lögin 100.000 volt og Getur verið? sem slógu í gegn sem vænta mátti enda má segja að sveitin hafi um sumarið stimplað sig endanlega inn sem vinsælasta hljómsveit landsins. Þeir félagar voru aðal hljómsveitin á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina ásamt Bítlavinafélaginu en fór jafnframt mikinn á sveitaböllum um land allt s.s. á Logalandi, Ýdölum, Valaskjálfi, Sjallanum, Víkurröst og Klifi svo dæmi séu nefnd en baráttan var mikil á þeim markaði þetta mikla sveitaballasumar þar sem hver stórhljómsveitin á fætur annarri kepptust um stærstu bitana með vinsæl lög – hér má nefna Bítlavinafélagið með Danska lagið, Síðan skein sól með Dísu og Leyndarmál, Stuðmenn með Betri tíð og Leysum vind en einnig voru Greifarnir, Stjórnin, Nýdönsk, Skriðjöklar, Todmobile og fleiri sveitir á ferðinni um sumarið.

Þrátt fyrir að nokkuð föst skipan væri komin á Sálina með þá Stefán, Guðmund og Friðrik áttu nokkrar mannabreytingar eftir að setja svip sinn á sveitina, um sumarið (1989) tók Ástvaldur Traustason við hljómborðinu af Birgi en hann starfaði þó ekki með sveitinni nema fram á haust þegar hann hvarf til Bandaríkjanna til náms en sæti hans tók Jens Hansson sem bæði lék á hljómborð og saxófón, sá átti eftir að starfa með sveitinni alla tíð síðan og setja mikinn svip á hljóm hennar.

Sálin vann að plötuupptökum um sumarið og haustið samhliða ballspilamennsku enda var þá ráðgert að plata kæmi út fyrir jólin, Ástvaldur tók þátt í þessum hljóðritunum og Jens þegar hann kom til sögunnar en þegar platan kom út var þar á ferð gjörbreytt hljómsveit frá Syngjandi sveittum enda hafði tónlistin þróast með safnplötulögunum fjórum sem höfðu komið út í millitíðinni, saxófónleikur Jens (og trompetleikur Ásgeirs Steingrímssonar) á plötunni gaf henni vissan sálarblæ en tónlistin var þó fyrst og fremst sálarpopp eins og hún hefur iðulega verið kölluð. Sveitin lék reyndar lítið um haustið en kom þó fram á tónleikum í Tunglinu þar sem erlendir útsendarar sáu sveitina leika en Steinar var um það leyti í nokkrum útrásargír og hugðist koma nokkrum sveitum (þ.á.m. Sálinni) á framfæri á erlendum mörkuðum.

Skífan hlaut nafnið Hvar er draumurinn? og fékk strax góðar viðtökur þegar hún kom á markaðinn um miðjan nóvember á vínyl-, kassettu- og geisladiskaformi (með aukalaginu Ræfillinn), þá var sveitin þegar komin aftur á fullt í spilamennsku víðs vegar um land s.s. í félagsheimilum eins og Aratungu, Víkurröst, Stapanum og Bifröst en einnig á höfuðborgarsvæðinu fyrir Reykvíkinga og nærsveitunga. Platan rauk strax í annað sæti sölulistans og um miðjan desember var hún komin á toppinn, var þar um jólin en endaði svo í öðru sæti á eftir Bubba Morthens – Nóttin langa í baráttunni um söluhæstu plötu ársins, í um 13.000 eintökum. Titillagið Hvar er draumurinn? birtist á Íslenska listanum fyrst laga af plötunni og komst efst í annað sætið og í kjölfarið birtust þar einnig lögin Auður og Eltu mig uppi sem nutu vinsælda, reyndar fengu afar mörg lög plötunnar útvarpsspilun sem var óvenjulegt.

Sálin hans Jóns míns 1989

Draumurinn hlaut prýðilega dóma í Morgunblaðinu, DV og Vikunni og þokkalega í tímaritinu Þjóðlífi, í vinsældavali Æskunnar annað árið í röð hafði Sálin mikla yfirburði, var kjörin vinsælasta hljómsveitin, Stefán vinsælasta poppstjarnan og söngvarinn, Hvar er draumurinn? vinsælasta platan og titillag hennar vinsælasta lagið. Þá lenti platan í þriðja sæti á vali plötu ársins að mati hlustenda Rásar 2.

Um áramótin lék Sálin hans Jóns míns á fjölsóttum dansleik á Hótel Íslandi ásamt Síðan skein sól en á nýju ári fór sveitin í góða pásu enda höfðu þeir félagar haft í nógu að snúast mánuðina á undan. Það var ekki fyrr en í byrjun mars 1990 sem hljómsveitin fór á stjá á nýjan leik með dansleikjahaldi og fór þá um leið að hljóðrita tvö ný lög ætluð fyrir útgáfu safnplötu fyrir sumarið. Lögin tvö, Ég er á kafi og Ekki, voru unnin eftir sömu forskrift og áður með Guðmund sem lagahöfund og Stefán sem textahöfund, þau komu út um miðjan júní á Bandalögum 2 og nutu rétt eins og önnur lög sveitarinnar mikilla vinsælda um sumarið. Þess má einnig geta að myndbönd voru gerð við flest laganna á Bandalagaplötunni og komu þau út á VHS formi síðar um sumarið undir titlinum Myndbandalög.

Sálin hitaði upp fyrir Kim Larsen og hljómsveit hans í Kaplakrika um vorið og lék einnig á stórum tónleikum í Laugardalshöllinni ásamt fleiri sveitum undir yfirskriftinni Rokkskógar sem og landsmóti UMFÍ ásamt fleirum en hefðbundinn sumartúr um landið var einnig á dagskrá. Þá var leikið á böllum á stöðum eins og Sævangi, Sjallanum á Akureyri og Ísafirði, Flúðum, Hótel Akranesi, Sindrabæ, Njálsbúð og Egilsbúð og svo um verslunarmannahelgina var sveitin ásamt mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins í Húnaveri. Dansleikir sumarsins voru auglýstir sem miðnæturtónleikar en hljómsveitir landsins stóðu þá í stappi við yfirvöld um virðisaukaskatt sem sýslumenn vildu innheimta af dansleikjahaldi, tónleikar voru a.á.m. undanþegnir þeim skatti.

Um haustið 1990 hægði sveitin heldur á sér eftir balltörnina um sumarið og um miðjan október fóru þeir Sálar-liðar í góða pásu til að hvíla sig og um leið markaðinn en þá hafði Sálin leikið í flestum félagsheimilum landsins og miklu oftar en einu sinni sums staðar. Lesendur Æskunnar voru þó síður en svo búnir að gleyma sveitinni og í áramótauppgjöri tímaritsins var sveitin bæði kjörin sú vinsælasta og Stefán vinsælasti söngvarinn.

Sálin haustið 1989

Fréttir af Sálinni voru nú fátíðar um nokkurra mánaða skeið en í febrúar 1991 bárust þó þær fregnir að Magnús trymbill væri hættur í sveitinni, nokkrir vildu spreyta sig í Sálinni og mættu í prufu og þar á meðal Jóhann nokkur Hjörleifsson sem síðar átti eftir að leika með sveitinni en Birgir Baldursson var ráðinn í stað Magnúsar, hann var þá þekktastur fyrir þátt sinn með S.h. draumi. Um það leyti var gert opinbert að sveitin væri að vinna að nýju efni sem óvíst væri hvenær liti dagsins ljós. Hins vegar kom út lag (Skólalagið) snemma vors með hljómsveit sem kallaðist Plús og mínus og var ekkert annað en Sálin hans Jóns míns í dulargervi, en lagið var unnið í samstarfi við menntamálaráðuneytið og kom svo út á Bandalögum 3 snemma um vorið. Stefán var nokkuð bundinn verkefnum um þetta leyti, hafði sungið á plötu Possibillies lagið Tunglið mitt sem naut vinsælda fyrir jólin og á nýju ári hafði hann sungið í rokksýningu á Hótel Íslandi og lítillega með hljómsveitinni Tvöfalda beat-inu, þá söng hann ásamt Eyjólfi Kristjánssyni lagið Draum um Nínu í undankeppni Eurovision, sem var framlag Íslands í keppninni um vorið. Á meðan höfðu aðrir meðlimir Sálarinnar hægt um sig.

Það var svo í lok maí 1991 að Sálin hans Jóns míns lét á sér kræla á nýjan leik eftir um átta mánaða hlé, þá var nýi trommuleikarinn kynntur til sögunnar en einnig annar nýr liðsmaður, Örvarr Atli Örvarsson hljómborðs- og trompetleikari (Stuðkompaníið) og þar með var sveitin orðin að sextett með ýmsa möguleika í átt að soultónlist. Þá var gefið út að tvö lög kæmu út með sveitinni á safnplötunni Bandalögum 4 sem kæmi út í júní og að þeir væru langt komnir með að semja efni á nýja breiðskífu sem kæmi út fyrir jólin, upphaflega stóð til að platan kæmi út um sumarið en Guðmundur hafði lent í slysi svo hann hafði verið handlama um tíma. Sumartúrinn hófu þeir í Lídó við Lækjargötu og kvöldið eftir var leikið í Njálsbúð fyrir troðfullu húsi.

Um þetta leyti hafði Steinar unnið að útgáfu- og dreifingarsamningi um íslenska tónlist á Norðurlöndunum og kom út safnplata með úrvali íslenskra flytjenda undir nafninu Icebreakers en efni hennar var flutt á ensku. Í júní skaust Sálin til Noregs og Svíþjóðar í stutta ferð og svo aftur um haustið til Danmerkur og lék þar á kynningartónleikum og í framhaldinu kom plata sveitarinnar, Hvar er draumurinn? svo út á ensku (lítið breytt) undir titlinum Where‘s my destiny? en sveitin kallaðist á enska tungu Beaten bishops, sem eftir á að hyggja var líklega ekki góð ákvörðun enda þurfti ekki mikið hugmyndaflug til að tengja það við sjálfsfróun. Platan fór í dreifingu um Norðurlöndin, Frakkland, Belgíu, Holland og víðar snemma árs 1992 en vakti ekki mikla athygli en auk þess var titillagið Where‘s my destiny? gefið út á smáskífu. Í framhaldinu létu Sálarliðar af öllum draumum um frægð og frama erlendis og einbeittu sér að innanlands markaðnum.

Með tvö ný lög í farteskinu, Ábyggilega og Brostið hjarta sem komu út á Bandalagaplötunni, reri Sálin á sveitaballamið um sumarið 1991 af fullum þunga, endurnærð og full af spilagleði eftir fríið, og eftir Skandinavíu-skottúrinn var herjað á Keflavík, Akranes, Akureyri, Siglufjörð, Hlaðir á Hvalfjarðarströnd, Miðgarð, Ýdali í Aðaldal og miklu víðar en um verslunarmannahelgina var sveitin á Rokkhátíð í Húnaveri ásamt fjölda annarra sveita, svipað var uppi á teningnum að verslunarmannahelginni lokinni. Lögin tvö hlutu bæði góðar viðtökur og komust á Pepsi listann svokallaða, Ábyggilega var þar t.d. á toppnum um tíma og Brostið hjarta fór efst í annað sætið.

Sálin hans Jóns míns 1991

Haustið fór í spilamennsku víða um landið þar sem nýtt efni af væntanlegri plötu var prufukeyrt þannig að aðdáendur sveitarinnar voru farnir að kannast við óútkomin lögin, samhliða þeim túr var unnið að því að klára plötuna sem svo kom út á haustdögum og bar nafn sveitarinnar en er stundum kölluð „rauða platan“. Skífan var tólf laga og þar kenndi ýmissa grasa enda komu nú Jens saxófónleikari og Friðrik bassaleikari sterkir inn, Jens sem lagahöfundur tveggja laga og Friðrik höfundur þriggja texta. Áður hafði fyrsta lag plötunnar, Færðu mér frið komið út á safnplötunni Forskot á sæluna og var því farið að heyrast og sjást í útvarpi og á Pepsilistanum þar sem það náði toppsætinu í þriðju viku, auk þess sem Sálverjar fluttu lagið í þætti Hemma Gunn í sjónvarpinu. Láttu mig vera, Ekkert breytir því og Tár eru tár bættust svo á Pepsilistann og Íslenska listann. Þá fór platan í toppsæti plötusölulistans í annarri viku og var þar lengst af jólavertíðarinnar enda seldist hún í yfir 10.000 eintökum, hún fékk ágæta dóma í Vikunni og mjög góða í DV, Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Í áramótauppgjöri Æskunnar var allt eins og vænta mætti, þar var sveitin í efstu sætunum sem vinsælasta hljómsveitin, platan, söngvarinn og hljóðfæraleikarinn (Guðmundur).

Sálin spilaði mikið í jólavertíðinni  og m.a. á tónleikum á Púlsinum við Vitastíg rétt fyrir jól sem voru sendir út í beint á Rás 2 og hljóðritaðir einnig með útgáfu í huga síðar, sveitin lokaði svo árinu með áramótadansleik á Nillabar og fór svo í frí. Fríið var þó ekki nema um þrjár vikur því að síðari hluta janúar mánaðar 1992 voru þeir félagar komnir á fullan skrið aftur og fóru þá einnig í stuttan Skandinavíutúr en Where‘s my destiny? var þá að koma út þar í febrúar.

Þessar meiktilraunir sveitarinnar leiddu til kunningsskaps við Pétur Kristjánsson (Pelican, Paradís, Start o.fl.) sem einn eigenda PS músík ásamt Steinari Berg og fleirum vann að útflutningi að íslenskri tónlist. Þegar nær dró vori hóf Pétur að koma fram með sveitinni á böllum enda hafði sveitin þá hljóðritað lag sem byggt var á frægum frösum hans og söng Pétur sjálfur viðlagið í ópusnum sem hlotið hafði nafnið Krókurinn. Tvö önnur lög voru hljóðrituð um sama leyti, Hjá þér og Sódóma en síðarnefnda lagið var notað í kvikmyndinni Sódóma Reykjavík sem frumsýnd var um sumarið. Lögin þrjú ásamt þeim átta lögum sveitarinnar sem áður höfðu aðeins komið út á safnplötum (endurunnin að hluta), komu svo út í maí á breiðskífunni Garg sem þá um leið var eins konar safnplata, þetta var í fyrsta sinn sem plata með sveitinni kom ekki út á vínyl. Síðar um sumarið kom svo út myndbandsspóla með öllum helstu lögum sveitarinnar og aukaefni, undir nafninu Garg einnig.

Á veggspjaldi Æskunnar 1991

Árleg yfirreið Sálarinnar um landið hófst í lok maí en frá áramótum hafði sveitin verið mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og á skólaböllum, þetta sumar lék sveitin á óvenju mörgum stórtónleikum ásamt öðrum slíkum og hér má nefna stórtónleika í Þjóðleikhúsinu tengda alnæmissamtökunum og svo tónleika Listahátíðar í Reykjavík – Listapopp / Bíórokk ´92 í troðfullri Laugardalshöllinni en þeir tónleikar voru jafnframt kvikmyndir í því skyni að nota í kvikmyndinni Stuttur frakki sem þá var verið að vinna að. Íslensk tónlist var áberandi í kvikmyndum um þetta leyti, Sódóma er hér nefnd að ofan en einnig átti Sálin lag á plötu sem kom út með tónlistinni úr kvikmyndinni Veggfóður og birtist hún reyndar í myndinni einnig. Pétur „Krókur“ Kristjánsson fór víða með sveitinni í sumartúrnum og féll vel í hópinn þó svo að tíu til tuttugu ára aldursbil væri milli hans og Sálarliða, hann lét sig ekki muna um að syngja Krókinn á dansleikjum á Hlöðum og Njálsbúð (þaðan sem Rás 2 sendi beint út) og víðar þetta sumar heldur tók hann einnig gamla slagara eins og Wældarann og Later on (Wild thing og Seinna meir) með Sálinni. Sveitin tók sér stutt frí frá ballspilamennskunni á Íslandi og lék um viku skeið fyrir Íslendinga á Mallorca um miðjan júlí og svo var sveitin ásamt Todmobile stærsta nafnið á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina.

Nýju lögin þrjú slógu öll í gegn um sumarið, skoruðu hátt á vinsældalistum og Gargið varð söluhæsta íslenska plata sumarsins þrátt fyrir að aðeins væru þrjú ný lög á henni en kosturinn var líka sá að nú voru öll fyrri safnplötulögin komin á einn stað. Útgefandinn hafði ekki búist við slíkri sölu á plötunni og seldist fyrsta upplagið fljótlega upp þannig að nokkuð bið varð á að nýtt upplag bærist til landsins og kom það niður á sölunni, hún hafði samt sem áður selst í um 7500 eintökum um haustið. Platan fékk ágæta dóma í DV, Degi og Pressunni.

Í september lék Sálin hans Jóns míns ásamt öðrum vinsælustu hljómsveitum landsins á risatónleikum Vífilfells sem þá hélt upp á 50 ára afmæli sitt, en lenti í leiðinlegu atviki tengt því. Þar vildi Sálin vera framarlega í röðinni þar sem sveitin átti síðar um kvöldið að spila á balli á Akranesi, Vífilfellsmenn tók það hins vegar ekki í mál enda voru þeir aðal styrktaraðilar sveitarinnar og höfðu hana síðasta á prógramminu – Sálin átti svo að fljúga með þyrlu upp á Skaga. Upphitunarsveit Sálarinnar, Jet Black Joe sem einnig spilaði (snemma) á tónleikunum átti svo að fara upp á Skaga og spila þar til Sálin kæmi á staðinn. Þegar tónleikunum lauk löngu síðar en áætlað var og ekki reyndist unnt að fljúga þyrlunni vegna sviptivinda, þurfti Sálin að keyra upp á Akranes og var þangað mætt korter í þrjú um nóttina, þar var allt orðið brjálað því Jet Black Joe hafði aldrei mætt heldur farið á djammið í miðbæ Reykjavíkur.

Sem fyrr segir höfðu þeir Guðmundur og Stefán verið aðal laga- og textahöfundar Sálarinnar en Jens og Friðrik höfðu einnig verið að koma inn sem slíkir, og reyndar hafði Friðrik samið textann við Hjá þér á Garginu. Þegar hér var komið sögu var komin nokkuð föst mynd á sveitina og aðrir meðlimir hennar gerðu orðið kröfu um að fá að koma meira að laga- og textasmíðunum. Nokkur núningar og pirringur var því innan sveitarinnar þannig að snemma árs 1992 hafði verið ákveðið á krísufundi að þeir félagar myndi allir vinna saman að næstu plötu, sem undirbúningur hófst þá þegar aíð  og unnið var um sumarið að lagasmíðum og útsetningum samhliða öðrum verkefnum. Sú plata var svo hljóðrituð og hljóðblönduð af Eric Zobler um haustið á aðeins tveimur vikum og varð fyrir vikið hrárri og frábrugðin fyrri afurðum sveitarinnar. Sveitin var skrifuð í sameiningu fyrir öllum lögunum, Stefán og Friðrik sömdu flesta textana en Guðmundur tvo og Birgir einn texta. Þeir Sálar-liðar fóru reyndar nýjar leiðir við textasmíðarnar því flestir þeirra voru grófari en áður og höfðu kynferðislegan undirtón, tónlistin var ennfremur mun rokkaðri og hrárri en áður. Þá söng Jens saxófónleikari eitt laganna en Stefán hafði fram að þessu einokað frontsönginn.

Unnið að myndbandi við Krókinn

Þarna um haustið var nokkuð ljóst að Birgir trommari myndi hætta í Sálinni þegar búið væri að fylgja nýju plötunni eftir, hann rakst fremur illa í bandinu – reyndar ekki ólíkt Magnúsi fyrri trommara en báðir komu þeir úr annars konar tónlistarumhverfi en hinir, höfðu verið viðloðandi pönkbylgjuna nokkrum árum fyrr og voru ekki beinlínis menn sveitaballanna, hann kláraði þó verkefnið með félögum sínum. Um það leyti var líka ljóst að Atli myndi yfirgefa sveitina en hann var þá á leið til Bandaríkjanna til að nema kvikmyndatónlist, platan – Þessi þungu högg kom út í nóvember og þar með hafði sveitin sent frá sér sína þriðju plötu á innan við ári.

Þessi þungu högg er af mörgum talin besta plata Sálarinnar þótt hún væri aðdáendum ekki eins móttækileg og seldist lakar en aðrar plötur sveitarinnar, þó betur en meðlimir hennar áttu von á því hún fór í um 7500 eintökum, fyrstu þrjú þúsund eintökunum af plötunni fylgdi bæklingur í u.þ.b. A4 stærð prentaður á vandaðan og þykkan pappír og er í dag eftirsóttur safngripur. Hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, Degi, Pressunni og tímaritinu Samúel en slakari í Vikunni og DV sem birti sína gagnrýni undir fyrirsögninni „Þung klámhögg“. Lesendur Æskunnar breyttu lítið sem ekkert af vananum og í vinsældakjöri blaðsins var Sálin hans Jóns míns kjörin sú vinsælda og Stefán bæði söngvari og poppstjarna ársins 1992. Aðeins tvö plötunnar náðu reyndar vinsældum, Ég þekki þig og Holdið og andinn en stöku sinnum heyrðust önnur lög hennar leikin í útvarpi, þá einna helst Líkamar en almennt þótti aðdáendum sveitarinnar tónlistin helst til tormelt og er platan mjög sér á báti í katalóg sveitarinnar hvað tónlist, útsetningar, lagasmíðar og texta varðar. Þótt fólki fyndist þetta hliðarskref óæskilegt var það þó til að hreinsa út pirring sem hafði safnast upp innan sveitarinnar og eftir á gerði það sveitinni gott þótt lægi við að mórallinn riði henni að fullu þarna um veturinn.

Í upphafi árs 1993 fór sveitin í kveðjutúr fyrir langa pásu og áttu aðdáendur allt eins von á því að sveitin kæmi ekki aftur saman enda var þarna grimmt auglýst að nú færi hver að verða síðastur að sjá hana á balli, sem var auðvitað fínasta sölutrikk því troðfullt var hvar sem hún spilaði. Hitt var ljóst að enginn vissi hversu langt fríið yrði og Stefán sagði í blaðaviðtali að það yrði að minnsta kosti það langt að það sæi ekki fyrir endann á því. Síðasta ball sveitarinnar var í Njálsbúð á öðrum í páskum og segir sagan að þá hafi sumir meðlimir sveitarinnar varla talast við. Um það leyti var kvikmyndin Stuttur frakki frumsýnd og þar birtist sveitin á Bíórokktónleikunum en einnig komu tvö lög út á plötu með tónlistinni úr kvikmyndinni, Salt í sárið – live-útgáfa og Gríma sem skreið þarna inn á vinsældalista um vorið 1993.

Sálar-liðar fóru hverjir í sína áttina, Atli trompet- og hljómborðsleikari var farinn vestur um haf sem fyrr segir og ekki liðu margir dagar þar til Birgir trommuleikari birtist í hljómsveitinni Silfurtónum og lýsti sú sveit yfir að hún myndi herja á sveitaböllin um sumarið en þar voru þá einmitt Friðrik bassaleikari og Stefán söngvari með nýja sveit, Pláhnetuna, og Guðmundur gítarleikari með endurreistri Pelican ásamt Pétri Kristjánssyni. Það varð því hörð samkeppni Sálverja á sveitaballamarkaðnum um sumarið – framan af, því Pelican floppaði og Silfurtónar sáust hvergi. Jens saxófónleikari stóð hins vegar utan við öll sveitaböll og var mestmegnis í session spilamennsku.

Sálin 1992

Sálin þagði nú og aðrar hljómsveitir tóku við keflinu, meðlimir sveitarinnar sinntu ýmsum og ólíkum verkefnum og er helst að nefna að Stefán sendi frá sér sólóplötu, Friðrik fór í hljóðvinnslunám til Bretlands, Guðmundur lék með Bong um tíma og þannig leið tíminn án þess að nokkuð gerðist nema að Krókurinn kom út í endurhljóðblandaðri útgáfu Mána Svavarssonar á Reif-safnplötu haustið 1994.

Vorið 1995 kviknaði sá orðrómur að Sálin væri að byrja aftur og þegar Stefán var inntur eftir því sagði hann að þreifingar væru í gangi enda hefði utanaðkomandi pressa verið nokkur allt frá því að sveitin fór í pásu. Fljótlega varð svo gert opinbert að sveitin myndi senda frá sér plötu og strax síðasta vetrardag fengu landsmenn forsmekkinn að því sem koma skyldi þegar sveitin birtist í þætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali hjá Hemma Gunn. Hópurinn kom óbreyttur til starfa nema að því leyti að Birgi trommara var hvergi að sjá, sæti hans hafði Tómas Jóhannesson tekið en hann hafði þá leikið með sveitum eins og Sigtryggi dyraverði og Tríói Jóns Leifssonar.

Sálin ætlaði sér stóra hluti um sumarið og strax í maí var gengið frá því að sveitin yrði á stóra sviðinu í Eyjum um verslunarmannahelgina, um það leyti fór fyrsta lagið í spilun, Netfanginn og af þeirri lagasmíð var ljóst að sveitin hefði snúið aftur í Sálarpoppið sem hún var þekktust fyrir. Sálin var bókuð frá og með lok maí og fram á haust og svo var talið í og spilað linnulítið um sumarið, fyrst í Reykjavík og Akureyri og svo tóku sveitaböllin við, Borg í Grímsnesi, Stapinn, Festi, Miðgarður, Lýsuhóll, Ýdalir og svo koll af kolli. Sumarið 1995 mun hafa verið síðasta sumarið sem sveitin lék cover lag á dansleik – eftir það voru einungis frumsamin lög á prógramminu og þá má segja að Sálin hafi í raun verið orðin tónleikasveit fremur en ballsveit.

Platan kom út í júní og bar heitið Sól um nótt, á henni var að finna tíu lagasmíðar Guðmundar við texta Stefáns og Friðriks. Hún hlaut þokkalegar viðtökur kaupenda og gagnrýnenda, t.a.m. góða dóma í Degi og þokkalega í DV. Um það leyti sem skífan kom út birtist Fannfergi hugans á Íslenska listanum og litlu síðar Villidýr – það lag kom svo út endurhljóðblandað síðla sumars á safnplötunni Reif í budduna. Lagið Eitt og eitt læddi sér svo inn á listann um haustið. Aldrei hafði annað staðið til en að starfa bara fram á haustið enda fór Atli til Ameríku þar sem hann var enn við nám, hinir tóku þó eitt og eitt ball fram yfir áramót 1995-96 en tóku jafnframt við að sinna öðrum hugðarefnum, Guðmundur og Jens gáfu t.d. úr plötu undir nafninu Zebra strax um haustið en Guðmundur fluttist svo til Bretlands eftir áramótin og um svipað leyti fór Stefán að vinna að sólóefni og þess á milli með Milljónamæringunum og nýrri sveit, Spooky boogie sem Tómas trommuleikari var einnig í.

Sálin birtist nokkuð að óvörum um sumarið 1996 og lék á nokkrum stórum dansleikjum um verslunarmannahelgina og helgina eftir, m.a. í Miðgarði, Sjallanum Akureyri og Hótel Selfossi áður en sveitin hvarf aftur, um það leyti var opnuð vefsíða í nafni Sálarinnar en hún var þá meðal þeirra fyrstu er það gerðu hérlendis. Í desember kom sveitin aftur saman og tók nokkra dansleiki um jól og áramót meðan Guðmundur og Atli voru á landinu án þess þó að senda frá sér nýtt efni og að þeirri törn lokinni lagðist sveitin aftur í kör um tíma.

Sálin hans Jóns míns 1995

Um vorið 1997 kom Sálin enn og aftur fram á sjónarsviðið og þá þegar hafði verið gengið frá því að hún myndi leika á stóra sviðinu á Þjóðhátíð um verslunarmannahelgina ásamt fleirum. Sveitin spilaði þó takmarkað og fór ekki af stað fyrr en um mánaðamótin júní – júlí en spilaði þá fram í september, Atli kom ekki inn í hópinn fyrr en í annarri viku júlímánaðar en að öðru leyti var sveitin skipuð sama mannskap og undanfarið. Þrjú ný lög litu dagsins ljós þetta sumar á safnplötunni Bandalög 7, Englar, Of góð og Undir sólinni, og naut fyrst talda lagið mestra vinsælda af þeim og fór efst í sjötta sæti Íslenska listans, þar sem það sat reyndar í þrjár vikur. Jóhann Hjörleifsson lék á trommur í tveimur laganna, engin plata var þó í vinnslu og lögin voru gefin út fyrst og fremst svo aðdáendur sveitarinnar gleymdu henni ekki.

Sálin starfaði nú orðið öðruvísi en áður, sveitin kom saman einu sinni til tvisvar á ári og tók þá tarnir í spilamennsku ólíkt því þegar þeir spiluðu flestar helgar heilu árin og fengu þannig svolítið nóg af hverjum öðrum. Þetta fyrirkomulag hentaði því bæði þeim sjálfum betur og aðdáendum, að hvíla sig á hverjum öðrum á milli og hvíla þá markaðinn um leið en þá gátu þeir jafnframt sinnt öðrum verkefnum. Sveitin tók eina stutta yfirferð í kringum jól og áramót 1997 á nokkrum vel völdum stöðum, og nýtti jafnframt tímann til að hljóðrita efni sem ætlað var til útgáfu næsta ár en þá átti sveitin tíu ára afmæli, blásið skyldi í lúðra með tveimur lögum um sumarið og breiðskífu fyrir jólin.

Afmælisdagskráin hófst í byrjun júní 1998 og svo var spilað af fullum krafti allt sumarið og fram undir miðjan september en það var þá fyrsti stóri sumartúrinn síðan 1995, Sálin ásamt Greifunum var aðalsveitin á Halló Akureyri um verslunarmannhelgina. Tvö lög komu út á safnplötunni Bandalög 8, lagið Lestin er að fara sem naut nokkurra vinsælda og svo stórsmellurinn Orginal þar sem Guðmundur gítarleikari söng aðalröddina. Tómas spilaði inn trommurnar í báðum lögunum en þegar Sálin taldi inn í sumartúrinn var Jóhann orðinn trommuleikari sveitarinnar.

Um haustið fór lagið Svartir fingur í útvarpsspilun en það var forsmekkurinn að því sem koma skyldi út í tilefni af tíu ára afmæli sveitarinnar, þetta var fyrsta lagið af þremur nýjum á tvöföldu safnplötunni Gullna hliðinu, hin lögin tvö voru Stjörnur og Allt eða ekkert en auk þeirra voru lögin tvö sem komu út um sumarið. Að öðru leyti hafði Gullna hliðið að geyma þverskurð af því sem Sálin hafði afrekað á tíu ára ferli sínum – alls þrjátíu laga safn. Í veglegum bæklingi plötunnar er saga sveitarinnar rakin nokkuð ítarlega en þar stóð jafnframt að ekki væri reiknað með að Sálin myndi starfa árið 1999, sveitin lék á nokkrum dansleikjum og tónleikum um það leyti sem platan kom út. Platan seldist mjög vel og fékk þokkalega dóma í tímaritinu Fókusi og góða í Degi, sveitin hlaut einnig titilinn Bestir á balli á Hlustendaverðlaunum FM 957.

Sálin hans Jóns míns

Atli sagði nú endanlega skilið við Sálina hans Jóns míns en hann var nú alveg sestur að í Bandaríkjunum og var orðinn þreyttur á sífelldum ferðalögum, Guðmundur hafði einnig verið búsettur erlendis (í London) en um vorið 1999 kom hann heim fyrir fullt og allt. Það var í raun lítið því til fyrirstöðu að ræsa Sálarvélina á nýjan leik þrátt fyrir að hafa ekki ætlað að gera það og svo fór að sveitin var bókuð á Akureyri um verslunarmannahelgina en spilaði að öðru leyti lítið fyrri part sumars, þeir félagar spiluðu þó á stórtónleikum FM 957 í Laugardalshöll í júní þar sem fjöldi sveita kom fram, þar af nokkrar erlendar eins og Garbage og Republica.

Hins vegar vann Sálin að því ljóst og leynt um sumarið að undirbúa tónleika þar sem sveitin ætlaði að leika órafmagnaðar útgáfur af lögum sínum, hugmyndin hafði komið upp þegar þeir komu fram á styrktartónleikum veturinn á undan og upphaflega ætluðu þeir félagar að vera einir á sviðinu en smám saman stækkaði verkefnið og endaði með því að fjöldinn allur af hljóðfæraleikurum kom fram með sveitinni á tvennum tónleikum í Loftkastalanum fimmtudagskvöldið 12. ágúst. Tónleikarnir voru hljóðritaðir og kvikmyndaðir og síðan gefnir út undir nafninu 12. ágúst ´99. Uppákoman þótti afar vel heppnuð enda voru flest laganna gjörólík upphaflegu útgáfunum og óhefðbundin að hljóðfæraleik einnig en þar nutu þeir fulltingis tónlistarmanna á borð við Ásgeir Óskarsson og fleiri á slagverk, Björgvin Gíslason á gítar og sítar, auk nokkurra blásara – þeirra á meðal var faðir Jens saxófónleikara, Hans Jensson. Ástvaldur Traustason fyrrum Sálar-liði lék á harmonikku og ung og efnileg söngkona Írafárs, Íris Kristinsdóttir söng lagið Orginal með sveitinni, sem sló í gegn. Þá voru tvö ný lög frumflutt, Ég er kominn og Okkar nótt sem einnig nutu mikilla vinsælda þegar platan, sem var ellefu laga kom út fyrir jólin 1999.

12. ágúst ´99 kom út um miðjan október og rauk strax í fyrstu viku upp í annað sæti Tónlistans yfir söluhæstu plöturnar, hún seldist gríðarlega vel og endaði sem söluhæsta plata ársins, sveitin hélt aukinheldur órafmagnaða útgáfutónleika í Bíóborginni (Austurbæ) og lék svo á nokkrum dansleikjum yfir jól og aldamót – en Okkar nótt var í toppsæti Íslenska listans yfir aldamótin. Platan hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í tímaritinu Sándi. Tveimur árum síðar var hún svo gefin á dvd-formi með all miklu aukaefni en sú útgáfa mun vera fyrsti alíslenski dvd-diskurinn.

Sálin kom sá og sigraði í ársuppgjöri FM 957 á nýju ári, með plötu ársins, söngvara ársins, hljómsveit ársins og lag ársins Okkar nótt, sem var svo einnig kjörið lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum en þar voru tónleikarnir þann 12. ágúst kjörinn tónlistarviðburður ársins.

Hér má segja að hafi orðið eins konar tímamót eða vendipunktur í sögu Sálarinnar, fram að þessu hafði sveitin verið leitandi og sent frá sér margar ólíkar plötur samhliða tíðum mannabreytingum og uppgjörum en með tilkomu Jóhanns trommuleikara er hægt að segja að sveitin hafi verið fullmótuð og fundið sinn fastmótaðan stíl – og þannig var hún skipuð þar til yfir lauk, Stefán söngvari, Guðmundur gítarleikari, Friðrik bassaleikari, Jens saxófón- og hljómborðsleikari og Jóhann trommuleikari. Á þessum tíma hafði sveitin verið starfandi í ellefu ár, þær kynslóðir sem ólust upp við Sálina var nú orðið fullorðið fólk og hafði fylgt sveitinni meðan hún þróaðist en nýjar kynslóðir ballgesta og aðdáenda voru jafnframt að koma fram sem þekkti öll lög sveitarinnar og virtist kunna vel við tónlistina. Það var því við hæfi að menn settust niður og ræddu málin eftir velgengnina og fljótlega kom Guðmundur með hugmynd um tveggja platna konsept verkefni sem hægt væri að byggja söngleik á án þess að lögin ein og sér misstu neitt. Þannig varð til verkefnið um Sól & Mána, sem nú tók við.

Sveitin tók til við að semja og vinna nýtt efni og spilaði nokkuð þétt vorið og sumarið 2000, m.a. órafmagnað með aukamannskap á tónlistarhátíðinni Reykjavík music festival en einnig með Bylgjulestinni og á Þjóðhátíð í Eyjum ásamt fleirum. Fyrsta lagið í spilun í Sól & Mána verkefninu leit dagsins ljós í júní en það var lagið Sól ég hef sögu að segja þér sem kom svo út á safnplötunni Svona er sumarið ásamt Öll sem eitt, bæði lögin fóru nokkuð hátt á Íslenska listanum.

Sálin hans Jóns míns 2000

Sálin hélt áfram að leika á dansleikjum um haustið og platan kom út í október undir titlinum Annar máni en þetta var þá fyrsta hljóðversplata sveitarinnar síðan Sól um nótt kom út 1995. Eins og svo oft áður voru Guðmundur og Stefán í aðal hlutverki laga- og textasmíða en Jens og Friðrik komu þar einnig við sögu. Eins og við mátti búast seldist platan strax vel og fór rakleiðis upp í annað sæti Tónlistans þrátt fyrir að hafa þá aðeins verið þrjá daga í sölu, enda hafði jarðvegurinn verið vel undirbúinn með útgáfu forsmekkanna tveggja um sumarið. Á plötunni kvað meðvitað við nokkuð nýjan Sálarhljóm en það var sá hljómur sem átti eftir að verða nokkuð viðvarandi síðan, sá fastmótaði stíll sem nefndur var hér að ofan, hefðbundin saxófónhljóð Jens viku fyrir rafsaxi sem gekk undir nafninu „púkablístran“ innan sveitarinnar og gítarhljómur Guðmundar varð mýkri – áður hafði gítarmagnari hans lengi vel verið kallaður „vítisvélin“ en það átti varla við lengur. Í kjölfar útgáfu plötunnar birtist næsta lag á Íslenska listanum, Ekki nema von – enn einn stórsmellur sveitarinnar.

Annar máni hlaut nokkuð blendnar viðtökur gagnrýnenda enda vissu menn almennt ekki hvernig ætti að lesa í textana sem þóttu torræðir enda var enginn söngleikur enn kominn sem tengdi þá saman, hún hlaut þó þokkalega dóma í Morgunblaðinu þótt hún ylli gagnrýnandanum nokkrum vonbrigðum, en mjög góða í tímaritinu Fókusi.

Í lok árs 2000 hlaut sveitin þrenn verðlaun á Tónlistarverðlaunum fólksins, hátíð sem haldin í tengslum við styrktartónleika krabbameinssjúkra barna, lag ársins (Ekki nema von), plata ársins og tónleikasveit ársins. Þegar árslisti Íslenska listans var tekinn saman kom í ljós að Sálin átti fjögur lög af hundrað laga lista sem hlýtur að teljast gott, og í ársuppgjöri FM 957 átti sveitin besta lagið (Orginal – órafmagnað, sem reyndar kom út haustið 1999), plötu ársins og vefsíðu ársins.

Sálin hans Jóns míns fór rólega inn í nýtt ár 2001 eftir mikla ballkeyrslu um jól og áramót, sveitin spilaði á nokkrum skólaböllum en hafði hægt um sig að öðru leyti í bili þar til um vorið að hún fór á stjá, þá lék sveitin á Poppfrelsis tónleikum í Laugardalshöll til styrktar SÁÁ. Samnefnd safnplata, Poppfrelsi kom út í tengslum við það og á henni átti Sálin lagið Hinn eini sanni – fyrsta lagið í spilun af nýrri plötu sem var þá síðari hluti Sól & Mána tvennunnar. Það sama lag var svo á safnplötunni Svona er sumarið 2001 sem kom út síðar um sumarið en að auki lagið Ég var þar.

Sálin 2001

En sveitin fór á fullt ballskrið með spilamennsku um gjörvallt landið, m.a. í félagsheimilum eins og Árnesi, Festi og Ýdölum, og skemmtistöðum á borð við Gaukinn, Sjallann Akureyri, Broadway, Valaskjálf og Hótel Egilsbúð auk þess sem þeir félagar voru á Einni með öllu á Akureyri um verslunarmannahelgina – þá lék Sálin á styrktartónleikum ásamt fleirum fyrir Rafn Jónsson fyrsta trymbil sveitarinnar sem þá glímdi við erfið veikindi. Síðsumars hitaði sveitin upp fyrir Coldplay í Laugardalshöllinni og fljótlega eftir það fór hún í pásu rétt til að anda áður en breiðskífan kæmi út um haustið.

Platan, Logandi ljós leit dagsins ljós í október og þar með var áttunda breiðskífa Sálarinnar komin út (sé enska útgáfan af Hvar er draumurinn? meðtalin) en auk þess hafði sveitin þá sent frá sér tvær safnplötur, tónleikaplötu og eina smáskífu (á ensku) á þeim fjórtán árum sem sveitin hafði starfað – og reyndar ekki starfað alveg samfleytt. Skífan fór rakleiðis á topp Tónlistans (og fljótlega í gullsölu) og sveitin hélt útgáfutónleika í Loftkastalanum áður en jólatörnin hófst en um það leyti hafði verið gefið út að Sálin færi í langt frí eftir það enda hefði plötutvennan tekið nokkuð á hópinn og menn voru útkeyrðir eftir vinnuna.

Logandi ljós fékk heilt yfir betri viðtökur gagnrýnenda en Annar máni enda hafði heildarmyndin skýrst að nokkru leyti fyrir fólki en þó ekki þar sem enginn söngleikur utan um lögin hafði verið settur á svið eins og hugmyndin hafði gengið út á í upphafi. Skífan þótti mun léttari en sú fyrri enda endurspegla plöturnar tvær persónurnar Sól & Mána. Þá hafði sami mannskapur unnið að plötutvennunni með sveitinni og þar með var tryggt að hljóðmyndin myndi halda sér. Þess má geta að í titillaginu Logandi ljós má heyra Stefán söngvara blístra.

Platan fékk frábæra dóma í tímaritinu Sándi og þokkalega í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu en gagnrýnandi Fókuss var ekki jafn hrifinn. Lögin Syndir og Á nýjum stað urðu hvað vinsælust laga á plötunni. Síðarnefnda lagið var reyndar kjörið lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og myndbandið við það myndband ársins á Eddu-verðlaunahátíðinni og Hlustendaverðlaunum FM 957, Stefán hirti um leið verðlaunin sem söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og FM 957-verðlaununum en heimasíða sveitarinnar var aukinheldur kjörin sú besta hjá útvarpsstöðinni. Það má því segja að sveitin hafi loksins öðlast þá viðurkenningu á verðlaunahátíðum tengdri tónlist á Íslandi en til þessa hafði hún ekki riðið feitum hestum frá þeim enda ýmist í fríi eða að verðlaunahátíðir féllu niður þannig að sveitin fór á mis við þau.

Sálin fór að lokum í langþrátt frí í febrúar 2002 og hafði hægt um sig um tíma, um vorið komu reyndar út tvö órafmögnuð lög á safnplötunni Eldhúspartý FM 957: lævogönploggd, Sól ég hef sögu að segja þér og Ímyndunin ein en þeim var ekki fylgt eftir með spilamennsku. Um mitt sumar fór svo lagið Þú fullkomnar mig, sem var samið sérstaklega fyrir kvikmyndina Maður eins og ég, í spilun. Lagið varð strax eitt af vinsælustu lögum sveitarinnar og hefur sérstaklega verið vinsælt til flutnings í brúðkaupsveislum.

Þeir félagar höfðu ekki staðið aðgerðarlausir í fríinu því fyrir utan að vinna að nýju lagi og öðru nýju efni hafði Jens verið að vinna að sólóplötu (sem kom út um haustið 2002) og Guðmundur að skrifa handrit að söngleiknum Sól & Mána ásamt Karli Ágústi Úlfssyni, sem Borgarleikhúsið hafði þá ákveðið að setja á fjalirnar með Sálinni eftir áramótin 2002-03. Þá var jafnframt gert opinbert að Sálin myndi leika á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Bernharðs Wilkinson í Háskólabíói um haustið.

Sálin 2005

Þegar nær dró verslunarmannahelgi hóf Sálin ballspilamennsku og um þá stóru helgi var sveitin á Akureyri sem oft áður, í kjölfarið lék sveitin þar til æfingar fyrir stórtónleikana með sinfóníuhljómsveitinni hófust – þar var lagt upp með nýtt efni að mestu leyti, með örfáum gömlum lögum enda vildi sveitin takast á við nýja áskorun því þeir höfðu þá þegar haldið stóra tónleika (í Loftkastalanum 1999) með eldra efni. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson var fenginn til að útsetja efnið fyrir Melabandið. Upphaflega hafði verið gert ráð fyrir einum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands en þegar seldist upp á þá var bætt við aukatónleikum, það reyndist hins vegar ekki nóg því strax varð uppselt á þá einnig svo þriðju tónleikunum var bætt við. Og það var feikinóg að gera hjá sveitinni sem um þetta haust var að toppa alla fyrri toppa, því um sama leyti hófust æfingar fyrir söngleikinn um Sól & Mána sem yrði frumsýndur í janúar 2003. Leikstjóri var Hilmar Jónsson en það var enginn annar en Jón Ólafsson stofnandi hljómsveitarinnar sem titlaður var tónlistarstjóri sýningarinnar (og hljómborðsleikari) en hann var margreyndur í slíkum verkefnum, aðalhlutverkin í Sól & Mána voru í höndum Arnbjargar Hlífar Valsdóttur og Bergs Þórs Ingólfssonar.

Tónleikarnir í Háskólabíói með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir yfirskriftinni Sálin & Sinfó þóttust takast vel og fengu t.a.m. góða dóma í Morgunblaðinu og DV, þeir voru jafnframt hljóðritaðir og kvikmyndaðir með útgáfu síðar í huga.

Áramótapúðrið var varla sest þegar Leikfélag Reykjavíkur tók Sól & Mána til sýninga í Borgarleikhúsinu ásamt Íslenska dansflokknum og þar var Sálin jafnframt bundin á sviðinu með tónlist sína í sýningum fram í lok maí, Stykkið fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í DV og þegar plata með tónlistinni úr söngleiknum kom einnig út fékk hún prýðilega dóma í Morgunblaðinu enda hafði nú tónlistin fengið þá tengingu sem gagnrýnanda blaðsins hafði áður þótt skorta. Á plötunni var að finna eitt nýtt lag, Á einu augabragði sem ekki hafði verið á plötunum tveimur en aðalleikararnir Arnbjörg Hlíf og Bergur Þór syngja lagið á plötunni – að öðru leyti var stuðst við fyrri útgáfur laganna á Sól & Mána plötunni.

Sálin var ekkert að slaka á þrátt fyrir sýningar á söngleiknum en lék heilmikið á öldurhúsum borgarinnar og víðar fyrri hluta árs 2003. Tvö lög úr samstarfinu við Sinfó, Allt eins og það á að vera og Vatnið, komu út á safnplötunni Svona er sumarið 2003 um sumarið og nutu nokkurra vinsælda en þau lög hafa lifað hvað best frá tónleikunum í Háskólabíói. Sveitin spilaði nokkuð um sumarið og meðal annars á sameiginlegum dansleik Sálarinnar og SSSól í Árnesi en sveitaböllin voru þegar hér var komið sögu í andaslitrunum í þeirri mynd sem sveitirnar tvær höfðu starfað við um langt árabil, aðeins örfá slík böll voru nú haldin ár hvert og aðeins í stærstu húsum landsins. Um verslunarmannahelgina var sveitin á Þjóðhátíð í Eyjum og svo síðsumars á risatónleikum á Menningarnótt í Reykjavík við gríðarlegt fjölmenni.

Um haustið 2003 fagnaði Sálin hans Jóns míns fimmtán ára afmæli og hélt af því tilefni lágstemmda afmælistónleika á NASA sem voru hljóðritaðir og kvikmyndaðir og sýndir í sjónvarpi síðar, eitt lag frá þeim tónleikum – Gagntekinn var svo sett í útvarpsspilun og dreift frítt á tónlistarveitunni Tónlist.is en lagið var þar í svokallaðri viðhafnarútgáfu eða í upphaflegri útgáfu sem var töluvert kaflaskiptari en sú sem hafði komið út áður (á plötunni Sól um nótt).

Um það leyti bárust fregnir af því að aðdáendur sveitarinnar hefðu stofnað með sér félagsskap undir nafninu Gullna liðið – ekki var um eiginlegan aðdáendaklúbb meðlima á unglingsaldri sem skiptust á plakötum og þess háttar að ræða heldur miklu fremur fólk af þeirri kynslóð sem hafði fylgt sveitinni frá upphafi, fólk um og yfir þrítugt með áhuga á tónlist sveitarinnar í sögulegu samhengi. Klúbburinn var í ágætu sambandi og samstarfi við sveitina og nutu meðlimir hans ýmissa fríðinda svo sem forkaupsréttinda á miðum o.fl. Meðlimir klúbbsins urðu fljótlega á annað þúsund talsins.

Sálin og Gospelkór Reykjavíkur

Sálin tók sér stutt frí eftir afmælistónleikana og um það leyti kom út platan Sálin & Sinfó, afrakstur samstarfs sveitarinnar við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá haustinu 2002. Hún hlaut góðar viðtökur og prýðilegar viðtökur gagnrýnenda, fékk þannig mjög góða dóma í Morgunblaðinu og Félagstíðindum Starfsmannafélags ríkisstofnana, ágæta einnig í Fréttablaðinu og þokkalega í DV. Í kjölfarið hlaut sveitin tilnefningu á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokknum plata ársins og Stefán sem söngvari ársins, sem hann vann síðan. Einnig kom út tvöföld dvd-útgáfa af tónleikunum ásamt heimildarmynd og á þeirri útgáfu var jafnframt að finna 15 ára afmælistónleikana frá því fyrr um haustið. Sveitin lék á nokkrum tónleikum og dansleikjum um haustið og áramót áður en kominn var tími á pásu.

Hér lauk fjögurra ára ótrúlegu tímabili í sögu Sálarinnar hans Jóns míns þar sem sveitin hafði gengið í endurnýjun lífdaga með órafmögnuðum tónleikum í Lofkastalanum, plötutvennu og söngleik í framhaldi af því og tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands, allt meira og minna gefið út og varðveitt á geislaplötum og dvd –  sveitin hafði á því skeiði þróast og fundið fastmótaðan hljóm og mætti kalla það tímabil hápunktinn í sögu sveitarinnar, sögu sem fram að því hafði þó ekki verið nein smá saga. En þeim kafla í sögu sveitarinnar hafði verið lokað með útgáfu sinfónísku tónleikanna og því var orðið tímabært að fara í enn eitt fríið, hvíla sig hverjir frá öðrum af fenginni reynslu, hlaða batteríin og fá aftur hungrið.

Snemma árs 2004 var Stefán kjörinn söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum en á því ári sinntu menn ýmsum tilfallandi verkefnum og gaf Guðmundur út sína fyrstu sólóplötu um vorið. Á meðan Sálin var fjarri sviðsljósinu féllu tveir Sálarvinir frá með stuttu millibili, Rafn fyrsti trommari sveitarinnar í lok júní eftir margra ára baráttu við illvígan sjúkdóm og Pétur „Krókur“ Kristjánsson sem lést í byrjun september en þeir höfðu báðir verið á besta aldri, lítið eitt eldri en meðlimir Sálarinnar.

Fríið hjá Sálinni varð ekki langt fremur en oft áður og fyrr en varði var hungrið aftur komið til sögunnar, um haustið hljóðritaði sveitin nýtt lag, Tíminn og við en texti þess var að nokkru leyti innblásinn af fráfalli þeirra félaga, Rafns og Péturs. Í kjölfarið helltu þeir félagar sér af stað í þétta spilamennsku, bransinn var hér orðinn gjörbreyttur frá því að sveitin hóf störf, félagsheimilin á landsbyggðinni stóðu nú meira og minna ónotuð og spilamennska snerist að miklu eða öllu leyti um stóra veitinga- og skemmtistaði innan stærstu þéttbýliskjarnanna. Sálin spilaði því á nokkrum dansleikjum fram að áramótum og svo á tónleikum til styrktar krabbameinssjúkum börnum eftir áramót en sveitin hafði komið þar við sögu frá upphafi þeirra árið 1998, og lék svo á minningartónleikum um Pétur Kristjánsson. Um þetta leyti höfu borist fregnir af því að bresk/bandaríski dúettinn Fracasse hefði sent frá sér teknó-útgáfu (og tvær aðrar útgáfur) af laginu Þú fullkomnar mig, sungið af óperusöngkonunni Sigríði Ósk Kristjánsdóttur. Þær útgáfur náðu illa eyrum Íslendinga og vöktu litla athygli.

Framan af árinu 2005 lék sveitin fremur lítið en var þó ekki í eiginlegu fríi heldur voru þeir félagar þá á kafi í vinnu við að semja og vinna efni á nýja breiðskífu sem áætlað var að kæmi út á árinu, í tengslum við þá vinnu sendu þeir frá sér nýtt lag, Aldrei liðið betur í febrúar en það kom svo út á safnplötunni Pottþétt 37 um vorið. Í júní hélt sveitin til Danmerkur og þar var skífan að mestu leyti hljóðrituð en það var í fyrsta sinn sem Sálin tók upp plötu erlendis, og á sama tíma fór þriðja lagið af væntanlegri plötu í spilun – Þú færð bros, það ásamt Aldrei liðið betur birtust á safnplötunni Svona er sumarið 2005. Sálin lék um verslunarmannahelgina á Einni með öllu og Neistaflugi og síðsumarið fór mestmegnis í spilamennsku eftir rólegan fyrri part sumars. Enn eitt lagið, Undir þínum áhrifum fór í spilun í september og í tilefni af því lék sveitin á tónleikum í beinni útsendingu á Rás 2.

Sálin hans Jóns míns

Skífan sjálf kom út í lok október og bar nafnið Undir þínum áhrifum og var nokkuð léttari en plöturnar á undan enda ekki unnin undir neinni forskrift. Hún seldist strax vel, fór í fyrstu viku á topp Tónlistans og var komin í gullsölu löngu fyrir jól, Skífan hlaut jafnframt ágæta dóma í Blaðinu, Fréttablaðinu, DV og Morgunblaðinu.

Ákveðið hafði verið að brjóta upp hefðbundið útgáfutónleikahald fyrir fyrirhugaða plötu með því að halda útgáfutónleika í Kaupmannahöfn en platan var einmitt hljóðrituð í Danmörku, í samstarfi við Icelandair var boðið upp á pakkaferðir á tónleikana sem voru haldnir á Vega í byrjun nóvember, uppselt var á tónleikana en um 1200 miðar voru seldir á þá.

Sálin fór í pásu fljótlega á árinu 2006 en um það leyti voru fjölmiðlar að gera upp árið 2005, þar kom m.a. í ljós að Undir þínum áhrifum var kjörin plata ársins á Hlustendaverðlaunum FM 957 en einnig reyndist lagið Aldrei liðið betur vera mest spilaða lag ársins á Tónlist.is, Undir þínum áhrifum var þar einnig ofarlega á lista.

Guðmundur nýtti fríið hjá Sálinni til að gefa út sólóplötu, Stefán vann dúettaplötu ásamt Eyjólfi Kristjánssyni en að öðru leyti fór lítið sem ekkert fyrir Sálverjum á tónlistarsviðinu fyrri part árs, um mitt sumar birtist sveitin enn eitt sinnið með nokkra tónleika og dansleiki fyrirhugaða í kringum verslunarmannahelgina og fram á haustið en þeirri törn átti að ljúka með stórtónleikum í Laugardalshöllinni með Gospelkór Reykjavíkur undir stjórn Óskars Einarssonar, sem yrðu hljóðritaðir og kvikmyndaðir. Þar var reyndar ætlunin að vinna með gamalt efni að mestu en einnig að frumflytja þar tvö ný lög, kappkostað var að velja lög úr ranni sveitarinnar sem rímuðu við hugmyndaheim og lífskoðanir gospelhluta hópsins – ekki vildu þó allir meðlimir kórsins taka þátt í verkefninu.

Uppselt var á tónleikana sem þóttu vel heppnaðir og þar flutti sveitin sem fyrr segir tvö ný lög, Handrit lífsins og Þú trúir því, sem Stefán söng ásamt Þóru Gísladóttur en lögin tvö og textar þeirra voru samin sérstaklega með þetta verkefni í huga. Sveitin naut fulltingis nokkurra aukahljóðfæraleikara – blásara og slagverksleikara en einnig lék Óskar kórstjórnandi á píanó, segja má að sveitin hafi á tónleikunum leitað aftur til upprunans því soul-hljómurinn (sem er nátengdur gospelsöngnum) hafði líklega aldrei verið meiri þarna síðan á upphafsmánuðum Sálarinnar. Plata með tónleikaupptökunum – Lifandi í Laugardalshöll, kom út í nóvember og var tvöföld, geisladiskur og dvd-diskur sem seldist strax vel og því var blásið til aukatónleika með kórnum í lok árs. Hún hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Fréttablaðinu, seldist í um tíu þúsund eintökum og hlaut tilnefningu í flokknum Plata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum og vann sama flokk á Hlustendaverðlaunum FM 957. Handrit lífsins naut mikilla vinsælda og var m.a. mest spilaða lagið á útvarpsstöðinni Bylgjunni árið 2006.

Venju samkvæmt lagðist Sálin að mestu í híði að aflokinni jóla- og áramótatörn en fljótlega eftir áramót birtust auglýsingar um sameiginlega tónleika Sálarinnar og Stuðmanna (ásamt gestasöngvurum og -hljóðfæraleikurum) sem haldnir skyldu í Cirkusbygningen í Kaupmannahöfn að kvöldi síðasta vetrardags í apríl, ásamt því að sveitirnar léku undir borðhaldi hjá um 800 manns en tilboðspakki tengt því var í samstarfi við Icelandair með flug og gistingu í anda þess brjálæðis sem síðar hefur verið kennt við árið 2007 – fyrir svokallað hrun. Tónleikana sem voru auðvitað ekkert annað en gott sveitaball, sóttu um 1100 manns sem mestmegnis voru Íslendingar sem skemmtu sér vel. Tónleikarnir voru teknir upp fyrir sjónvarp og sýndir á áramótunum á Stöð 2. Sveitin lék á fáeinum dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu eftir Kaupmannahafnar-ævintýrið en fór að því loknu í ótímabundið frí vorið 2007.

Sálin 2013

Í hönd fór lengsta pása Sálarinnar um árabil, utan þess að sveitin lék eins og venjulega í desember á árlegum tónleikum til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Tímann nýttu Sálverjar á ýmsan hátt, Guðmundur sendi frá sér sína þriðju plötu og Friðrik gaf út barnaplötuna Vökuland samhliða hljóðvinnslu sem Jens hefur jafnframt stundum einnig starfað við.

Strax í upphafi árs 2008 var ljóst að um tímamótaár væri að ræða í sögu Sálarinnar hans Jóns míns því sveitin ætti þá 20 ára starfsafmæli þó svo að hún hefði ekki starfað alveg samfleytt allan þann tíma. Af því tilefni blés sveitin til afmælistónleika í Laugardalshöll í mars 2008, samhliða því vann Jón Egill Bergþórsson heimildarmynd um sveitina en hann hafði aðeins starfað með henni þegar hann gerði mynd um gerð Þessa þungu hagga 1992. Á tónleikunum lék sveitin úrval þekktustu laga sinna og hafði sér til aðstoðar blásara, strengja- og ásláttarleikara, kór og fjölda söngvara að auki, en um 5000 manns mættu á þá.

Talið var í sumartúr sem var þó aðeins skugginn af fyrri túrum þar sem ekki var grundvöllur fyrir Njálsbúðar-, Miðgarðs- eða Ýdalaböllum, því var aðeins leikið á höfuðborgarsvæðinu og fáeinum stærri stöðum á landsbyggðinni eins og á Akranesi, Keflavík og Akureyri.

Útgefandi Sálarinnar, Sena gaf út á árinu 2008 í tilefni afmælisins nokkra veglega safnkassa, mismunandi að stærð eftir hentugleika kaupandans – stærstu pakkarnir voru tveir og báru titilinn Vatnaskil 1988-2008 Kassi I og II. Sá fyrri innihélt fyrstu sex plötur sveitarinnar; Syngjandi sveittir, Hvar er draumurinn?, Sálin hans Jóns míns, Garg, Þessi þungu högg og Sól um nótt, og sá síðari plöturnar; 12. ágúst ´99, Annar máni, Logandi ljós, Sálin & Sinfó, Undir þínum áhrifum, Sálin og Gospel lifandi í Laugardalshöll og Arg, plötu með smáskífum sem þá höfðu aðeins komið út á safnplötum, alls sjö plötur. Arg kom aukinheldur út sem sjálfstæð eining og var í raun eins upp byggð og Garg sem kom út vorið 1992. Safnkassarnir tveir voru stærstu sinnar tegundar sem komið höfðu út hérlendis og sýnir stöðu sveitarinnar í íslenskri tónlist og tónlistarsögu – alls þrettán plötur, sem fengu frábæra dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu og mjög góða í DV. Einnig komu út „hefðbundnari“ safnplötur í þremur mismunandi útfærslum og stærðum, í fyrsta lagi þriggja platna safnplata með 45 af vinsælustu lögum sveitarinnar, öðru lagi dvd-plata með myndböndum og heimildarmynd Jóns Egils Bergþórssonar (sem var frumsýnd í Háskólabíói um haustið) og í þriðja lagi sjö platna safnplötupakki sem hafði að geyma blöndu laga, tónleikaútgáfur og dvd-disk en gríðarmikið lesefni fylgdi pakkanum – allar útgáfurnar komu út undir titlinum Hér er draumurinn. Þriggja plötu pakkinn seldist best og náði m.a. að komast upp í fimmta sæti Tónlistans um tíma í jólamánuðinum þrátt fyrir allt krepputal og svartsýni í samfélaginu í kjölfar bankahrunsins um haustið, og á áramótadansleik sveitarinnar á Broadway var ekki að sjá neinn bilbug á ballgestum.

Safnplötupakkarnir fengu eins og kassarnir frábæra dóma í DV, Frétta- og Morgunblaðinu enda mikill hvalreki fyrir aðdáendur sveitarinnar. Fjölmiðlar gerðu sér mat úr útgáfunni í máli og myndum og t.a.m. fylgdi sérstakt Sálarblað Fréttablaðinu um haustið. Þrjú ný lög (Gott að vera til, Það amar ekkert að (ég get svo svarið það) og Það er satt) litu dagsins ljós og voru í þriggja platna safnplötupakkanum, Gott að vera til, sem einnig hafði komið út á safnplötunni Pottþétt 47 um sumarið naut nokkurra vinsælda og hin lögin tvö tóku svo við um haustið, öll lögin fóru hátt á Lagalistanum. Um þetta leyti hafði sveitin fengið fjárstyrk úr Pokasjóði til að gefa út nótnabók með úrvali vinsælustu laga sveitarinnar, sem kom svo út síðar undir titlinum Hér er draumurinn og hafði að geyma 45 lög.

Sálin

Eftir nokkurra mánaða pásu birtust Sálverjar á nýjan leik um vorið 2009 endurnærðir og með nýtt lag í farteskinu, Kominn tími til, sem að sjálfsögðu skoraði hátt á Lagalistanum og svo um haustið lagið Réttu mér hjálparhönd. Sveitin hóf um vorið yfirreið á helstu dansstöðunum, lék m.a. á opnunarkvöldi nýs staðar í Kópavogi (Spot) og stöðum eins og Sjallanum á Akureyri, Valaskjálf á Egilsstöðum, Officera-klúbbnum í Keflavík og Njálsbúð, fyrsta ballinu þar um árabil – en einnig á stærri hátíðum eins og Lopapeysunni á Akranesi og svo á Einni með öllu á Akureyri og Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina. Sveitin lék einnig á minningartónleikum um Rúnar Júlíusson (sem lést síðla árs 2008) og fluttu þar lagið Tasko tostada sem var svo gefið út á plötu tengdri tónleikunum. Eftir nokkurra vikna frí um haustið fór sveitin á nýjan leik af stað fyrir jóla- og áramótavertíðina en hvarf af sjónarsviðinu um tíma fljótlega eftir áramótin.

Sálin var þó hvergi nærri í pásu í þetta sinn heldur að vinna við að semja og útsetja nýtt efni en þá hafði verið ákveðið að gefa út plötu um haustið 2010 ásamt Stórsveit Reykjavíkur þar sem Samúel Jón Samúelsson myndi annast brass-útsetningar, ekki væri um tónleika að ræða í þetta sinn heldur hljóðversverkefni, fyrsta hljóðversplata sveitarinnar síðan Undir þínum áhrifum kom út 2005. Sálin reri svo enn á dansleikjamið um páskana og svo tók hefðbundin sumarspilamennska við, mestmegnis á bæjarhátíðum eins og Húnavöku, Írskum dögum og Kótilettunni. Sveitin sendi frá sér eitt lag um sumarið af fyrirhugaðri plötu, Fyrir utan gluggann þinn.

Samstarfsplatan með stórsveitinni kom út um haustið undir heitinu Upp og niður stigann, hún hlaut góða dóma í Morgunblaðinu og Fréttatímanum en slakari í Fréttablaðinu og af einhverri ástæðu greip skífan ekki landsmenn eins auðveldlega og oftast áður. Í tilefni útgáfu plötunnar var blásið til stórra útgáfutónleika í Laugardalshöllinni með Stórsveit Reykjavíkur, þeir tónleikar voru tvískiptir með lögum af plötunni annars vegar en eldri lögum sveitarinnar hins vegar. Í kjölfarið tók svo við hefðbundin aðventu- og jólaspilatörn áður en sveitin lagðist til hvílu í enn eitt sinn, eins og vant var til að hvíla markaðinn og þá hverja á öðrum.

Að þessu sinni var pásan nokkuð lengri en oft áður og Sálin kom ekki fram á sjónarsviðið fyrr en í lok ágúst á 25 ára afmælistónleikum Bylgjunnar og á NASA á Menningarnótt. Og þar við sat í bili, sveitin kom reyndar fram á off venue viðburðum Iceland Airwaves í fyrsta sinn í október og svo í fáein skipti í kringum jól og áramót 2011 en sveitin var nú miklu minna áberandi en áður. Á nýju ári birtist hún í fáein skipti en um vorið 2012 höfðu þeir félagar hljóðritað þrjú lög sem þeir sendu frá sér í skömmtum, fyrst Hjartadrottningar, svo Dýrðardagur og Fetum nýja slóð. Aðeins meira lífsmark var með Sálinni um sumarið þar sem hún lék m.a. á Kótilettunni á Selfossi, Neistaflugi og Einni með öllu um verslunarmannahelgina og Bylgjutónleikum á Menningarnótt auk nokkurra dansleikja.

Um veturinn 2012-13 lék sveitin aðeins í nokkur skipti en þó nógu oft til að teljast ekki vera í fríi og um vorið hélt Sálin afmælistónleika í Vodafone höllinni í tilefni af aldarfjórðungs afmælis sveitarinnar í mars-mánuði 2013. Fjöldi gestasöngvara tók lagið með Sálinni á þeim tónleikum og þeirra á meðal var sonur Stefáns, Birgir Steinn sem einnig hefur haslað sér völl á tónlistarsviðinu síðan. Sveitin tók svo afmælisárið með trukki og spilaði heilmikið um sumarið þar sem hápunktarnir voru enn ein þjóðhátíðin í Eyjum um verslunarmannahelgina og Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt.

Og afmælisárinu var síður en svo lokið því aftur var blásið til svokallaðra viðhafnartónleika um haustið, í Eldborgarsal Hörpu að þessu sinni en þar var sveitin að leika í fyrsta sinn. Þegar miðasala hófst í september seldist upp á þá á sólarhring þannig að bæta þurfti við aukatónleikum, fljótlega seldust þeir upp líka en ekki var svigrúm fyrir þriðju tónleikana. Fjöldi gesta komu fram á þessum tónleikum sem fram fóru um miðjan nóvember þar sem sveitin lék blöndu gamals og nýs efnis, þess má geta að sveitin lét prenta fimmtíu auka eintök (númeruð) af veggspjaldi því sem auglýsti tónleikana sem þeir félagar árituðu og seldu til styrktar BUGL (Barna- og unglingageðdeild Landspítalans).

Um svipað leyti kom út þriðja platan sem flokka mætti undir safnplötuskífu með sveitinni en hún bar titilinn Glamr og hafði að geyma nýleg lög sem sveitin hafði sent frá sér á safnplötum síðustu misserin, svipað og Garg og Arg höfðu áður haft að geyma. Þótt platan hefði ekki að geyma neina stórsmelli eins og fyrirrennarar hennar fór hún beina leið á topp Tónlistans eftir tónleikahelgina en seldist reyndar ekki mikið eftir það. Sálin lék ekki mikið um veturinn sem nú gekk í hönd en þar bar þó helst til tíðinda að trommuleikari Sigur rósar, Orri Páll Dýrason tók lagið með sveitinni á Spot – Krókinn.

Sálin hans Jóns míns

Sumarið og haustið 2014 lék Sálin á fáeinum dansleikjum venju samkvæmt og svo á Þjóðhátíð í Eyjum um verslunarmannahelgina en hafði að öðru leyti afar hægt um sig svo margir aðdáendur sveitarinnar voru farnir að hugsa sem svo að það færi að styttast í endalok hennar. Lítið lífsmark var með sveitinni framan af árinu 2015 en þegar fréttist um vorið að sveitin myndi flytja þjóðhátíðarlag Vestmannaeyinga (Haltu fast í höndina á mér) átti fólk von á að hún yrði meira á ferðinni en svo varð ekki – Sálin lék á Kótilettunni á Selfossi snemma sumars og Lopapeysunni – írskum dögum á Akranesi og örfáum öðrum dansleikjum auk Þjóðhátíðar.

Og nú urðu pásurnar milli ballanna lengri, ekkert heyrðist til sveitarinnar frá því síðla sumars 2015 til vorsins 2016 þegar Sálin lék á árlegum dansleik í Hvíta húsinu á Selfossi og nokkrum vikum síðar var hún hluti af dagskrá þjóðhátíðardagsins í Reykjavík, örfá sérvalin verkefni fylgdu í kjölfarið um sumar og haust. Það sama var uppi á teningnum eftir áramótin 2016-17 og enn fækkaði þeim skiptum sem Sálin steig á svið, þeir félagar gleymdu þó ekki aðdáendum sínum og stofnuðu til afmælistónleika vorið 2018 en þá fagnaði sveitin 30 ára afmæli í Valshöllinni á Hlíðarenda, að þessu sinni fylgdi minni fjölmiðlaathygli og virðist sem atburðurinn hafi lítið verið auglýstur. Í júní bárust fregnir þess efnis að sveitin myndi halda tónleika í Eldborgarsal Hörpu í október og að það yrðu síðustu tónleikar sveitarinnar – lokatónleikar. Margir ypptu öxlum og sögðu Sálina oft hafa hætt (sem var reyndar ekki rétt) og alltaf byrjað aftur en að þessu sinni var yfirlýsing þess efni afdráttarlaus og ljóst að lokatónn Sálarinnar yrði sleginn um haustið.

Þegar upp var staðið höfðu þrennir lokatónleikar verið haldnir með fjölda auka mannskap, gospelkór, blásarasveit og síðast en ekki síst strengjasveit undir stjórn Atla Örvarssonar fyrrverandi Sálarliða. Lokalag sveitarinnar á lokakveðjutónleikunum var smellurinn Þú fullkomnar mig – með því lagi var sögu sveitarinnar lokið eftir 30 ára ævintýri þar sem farið hafði verið um víðan völl með hverjum stórsmellinum á fætur öðrum, áskoranir á borð við risastóra órafmagnaða tónleika, plötutvennuna og söngleikinn um Sól & Mána, samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Gospelkór Reykjavíkur og Stórsveit Reykjavíkur og plötuútgáfu tengt því, meiktilraunir erlendis, ótal metsöluplötur, mörg hundruð lagasmíðar, dansleikir og tónleikar sem skipta líklega þúsundum fremur en hundruðum.

Hvað olli því nákvæmlega að Sálin hætti störfum að lokum er erfitt að segja en þreyta og samstarfsörðugleikar innan sveitarinnar sem hafði ágerst með árunum átti væntanlega sinn þátt í því, og þrátt fyrir frábært samstarf þeirra Guðmundar og Stefáns sem laga- og textahöfundar sveitarinnar var spenna þeirra á milli enda ólíkar persónur, e.t.v. var um eins konar valdabaráttu að ræða en þeir voru einu meðlimir sveitarinnar sem störfuðu alla tíð með henni. Þeir félagar og fóstbræður voru sammála um að enda samstarfið á góðu nótunum með stórum tónleikum fremur en að „feida út“ í einhverjum pirringi – hætta með reisn sem sveitin gerði heldur betur.

Þegar litið er yfir sögu sveitarinnar sést að hún tók miklum breytingum og þróaðist hratt framan af enda voru mannabreytingar tíðar og menn óvissir um hvaða stefnu skyldi taka, tónlistin var soulkennd í byrjun sem þróaðist yfir í hreint popp áður en hliðarskref var tekið yfir í rokk og svo aftur í soulkennt popp. Frá og með 1999 hafði sveitin þróað með sér þann hljóm sem hún vildi hafa og má kannski skilgreina sem eins konar gáfumannapopp en þegar tónlistin er skoðuð í baksýnisspeglinum er það vissulega eldra efnið sem naut meiri vinsælda enda var það tónlistin sem kynslóðin sem fylgdi sveitinni ólst og óx upp með. Sálin byrjaði sem hrein sveitaballasveit og naut sem slík mikilla vinsælda og velgengni meðal kynslóða sem fylgdu henni á því tímabili, þegar sveitin eltist, sveitaböllin lögðust að mestu af og önnur tegund dansleikja (og tónleika) tók við hélt hún sínum klassa gagnvart gamla aðdáendahópnum en yngra fólkið tók við klassísku smellunum og gerðu þá að tónlist sinni – það er því ekki annað hægt að segja en að sveitin hafi notið virðingar og vinsælda á mjög breiðum vettvangi.

Mikil vinna lá að baki þessarar velgengni og ekki bara sú sem sneri beinlínis að tónlistinni, sveitin sá sjálf um bókanir og umboðsmennsku, hönnun og gerð auglýsinga og á seinni stigum sveitarinnar einnig um upptökustjórn, hljóðblöndun o.fl. Sálin var fljót að tileinka sér nýjungar á sviði tækni og má þar t.d. nefna opnun vefsíðu, útgáfu dvd-efnis og niðurhal tónlistar svo dæmi séu nefnd, og þannig má segja að þeir félagar hafi verið mjög meðvitaðir um þá hluti sem þyrftu að virka til að viðhalda vinsældum sínum, svo ekki sé minnst á þor og kjark til að takast á við nýjar og öðruvísi áskoranir.

Svo ótrúlegt sem það hljómar unnu Sálin og liðsmenn sveitarinnar afar sjaldan til verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum, skýringuna má að hluta til sjá í því að þau verðlaun voru fyrst veitt í upphafi árs 1994 þegar Sálin var í fríi og plata sveitarinnar frá 1995 var líklega einfaldlega ekki nægilega góð til að vinna til verðlauna enda hirti Björk flest verðlaun þess árs. Tímabilið frá og með órafmögnuðu tónleikaplötunni 12. ágúst ´99 og til og með plötunni sem þeir unnu með Gospelkór Reykjavíkur 2006 mun líklega teljast hápunktur þessa vinsælustu og virtustu poppsveitar íslenskrar tónlistarsögu en það dugði þó ekki nema til fimm verðlauna (tvisvar sinnum lag ársins, tónlistarviðburður ársins og Stefán tvisvar söngvari ársins), þess má þó geta að hátíðin féll niður 2001. Það hlýtur þó að teljast líklegt að sveitin eða í það minnsta tvíeykið Guðmundur og Stefán hljóti heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna í náinni framtíð.

Lög Sálarinnar hans Jóns míns hafa verið leikin í ótal brúðkaupum, afmælisveislum, jarðarförum og við annars konar mannamót í gegnum tíðina, söngvarar hafa jafnframt valið lög sveitarinnar til að syngja í söngkeppni framhaldsskólanna, Idol söngkeppninni og öðrum slíkum keppnum. Þá hafa mörg lög Sálarinnar ratað í kvikmyndir og komið út á plötum tengt því og þá er enn ótalið allt það magn safnplatna sem sveitin hefur átt lög á, eitt eða fleiri en við lauslega talningu eru þær að minnsta kosti á annað hundrað talsins. Útgefin lög Sálarinnar hans Jóns míns eru um hundrað og fimmtíu talsins sem hafa komið út á plötum sveitarinnar. Af þessari upptalningu og umfjöllun má glögglega sjá að sveitin á sér stað í þjóðarsálinni, þar sem hún hitti ítrekað á réttu blönduna hvaða litum sem hún var blönduð, hvort sem um var að ræða sálarpopp, rokk, söngleiki, gospel, sinfónískt popp, órafmagnað eða hvað sem er – allt varð það meira og minna að gulli.

Efni á plötum