Blúsbræður [2] (1987-88)

Blúsbræður (síðar Sálin hans Jóns míns)

Blúsbræður var hljómsveit sem sett var saman að frumkvæði Þorsteins J. Vilhjálmssonar útvarpsmanns sem kallaði saman nokkra unga tónlistarmenn til að leika tónlistina úr kvikmyndinni Blues brothers á skemmtistaðnum Evrópu við Borgartún haustið 1987.

Meðlimir sveitarinnar voru þeir Jón Ólafsson hljómborðsleikari sem var titlaður hljómsveitarstjóri, Guðmundur Jónsson gítarleikari, Birgir Bragason bassaleikari, Pétur Grétarsson trommuleikari, Hörður Bragason blásari og söngvararnir Stefán Hilmarsson og John Collins, Bandaríkjamaður sem hér starfaði. Einnig komu fram með sveitinni þeir Þorsteinn J. og Guðjón Reynisson, og bakraddasöngkonurnar Elín Ólafsdóttir og Arnhildur Guðmundsdóttir.

Sveitin mun ekki hafa borið nafn á þessari Evrópu-samkomu en í febrúar 1988, fáeinum vikum síðar endurtóku þeir félagar leikinn á skemmtistaðnum Lækjartunglinu án aðkomu Þorsteins J. en notuðu þá nafnið Blúsbræður, þá söng einnig með sveitinni einhver söngvari sem kallaður var Natan Olsen en það mun ekki hafa verið hans rétta nafn.

Ekki varð framhald á Blúsbræðrum en boltinn var hins vegar farinn að rúlla og snemma í mars hafði sveitin tekið upp nýtt nafn, Sálin hans Jóns míns, varð sú sveit öllu þekktari en Blúsbræður. En það er önnur saga.