Sykurmolarnir (1986-92)

Sykurmolarnir

Hljómsveitin Sykurmolarnir á sér merkilega sögu og marka að mörgu leyti tímamót í íslenskri tónlist, sveitin varð t.a.m. fyrst íslenskra hljómsveita til að öðlast alþjóðlega frægð og viðurkenningu, hún markar upphaf ferils Bjarkar Guðmundsdóttur sem stórstjörnu í tónlist, hún varð fyrst íslenskra hljómsveita til að selja yfir milljón eintök af plötu, var og er e.t.v. enn sú íslenska sveit sem hefur spilað fyrir flest fólk á tónleikum, kom lögum á breska vinsældalistann og nokkrum slíkum á topp breska óháða listans og bandaríska Billboard listans, er líklega sú íslenska sveit sem flestar ólöglegar útgáfur hafa verið gefnar út af og þannig mætti áfram telja. En þrátt fyrir það var sveitin aldrei mjög stórt nafn í heimalandinu Íslandi og var nánast alla tíð meðan hún starfaði litin hálfgerðu hornauga og töluð niður.

Sykurmolarnir áttu sér heillanga forsögu, sveitin var stofnuð í raun upp úr annarri sveit og átti sér enn lengri aðdraganda og rætur í pönkinu og nýbylgjunni. Hið svonefnda pönktímabil var hér á landi afar stutt en gróskumikið, það hafði þegar náð hápunkti sínum þegar kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd um páskana 1982 en þar voru hljómsveitir eins og Purrkur Pillnikk sem síðar átti þrjá fulltrúa í Sykurmolunum, Þeyr og Tappi tíkarrass sem Molarnir gátu einnig rakið rætur til. Það var svo sumarið 1983 þegar heldur var að fjara undan pönkinu og nýbylgjunni að dagskrárgerðarmennirnir Ásmundur Jónsson og Guðni Rúnar Agnarsson sem þá höfðu annast útvarpsþáttinn Áfanga í Ríkisútvarpinu í um átta ár og kynnt áhugafólki nýja og framsækna tónlist, fengu þær fréttir að leggja ætti þáttinn niður síðsumars. Þeir félagar ákváðu þá að helga síðasta þættinum lifandi tónlist og kölluðu til sín nokkra tónlistarmenn sem þeim þótti hafa skarað fram úr í nýbylgjunni, til að skapa eitthvað skemmtilegt. Í þættinum komu fram ýmsir aðrir tónlistarmenn en þarna varð til nafnlaus hljómsveit sem kynnt var í þættinum sem hljómsveitin „Gott kvöld“ og innihélt þau Einar Örn Benediktsson söngvara Purrks Pillnikk, Björk Guðmundsdóttur söngkonu Tappa tíkarrass, Sigtrygg Baldursson trommuleikara og Guðlaug Kristin Óttarsson gítarleikara úr Þey og Birgi Mogensen bassaleikara Spilafífla sem öll höfðu komið við sögu Rokks í Reykjavík, auk Einars Melax hljómborðsleikara úr Fan Houtens kókó sem kom úr annarri átt, Medúsa hópnum sem hafði verið stofnaður innan Fjölbrautaskólans í Breiðholti sem þá var nýstofnaður og mjög skapandi. Félaga hans úr Fan Houtens kókó (og Medúsa), Þór Eldon gítarleikara var einnig boðið í sveitina en hann átti ekki heimangengt og sá síðasti sem fékk boð um að ganga í sveit Áfangaþáttarins, Árni Kristjánsson gítarleikari Vonbrigða (sem einnig var í Rokk í Reykjavík) hafði ekki áhuga á verkefninu.

Sykurmolarnir 1987

Áfangaþátturinn fór í loftið og gekk vel, sveitin small saman – svo vel reyndar að hópurinn ákvað að spila á einum tónleikum í kjölfarið enda voru Þeysarar og Purrkurinn þá nýhættir og Tappinn í andaslitrunum, þeir tónleikar báru yfirskriftina Við krefjumst framtíðar og voru hluti af Friðarhátíð í Reykjavík og meðal annarra sveita kom þar fram breska hljómsveitin Crass. Á þeim tónleikum lék sveitin undir nafninu Kukl sem ku vera komið frá Björk en nafnið átti e.t.v. prýðilega við því tónlist sveitarinnar var dökkt, þungt, tormelt og tilraunakennt nýbylgjurokk. Kuklið með þau Einar Örn, Friðrik, Sigtrygg, Björk, Einar Melax, Guðlaug Óttar og Birgi innanborðs starfaði í tæplega þrjú ár og spilaði mun meira erlendis en hér heima, sendi frá sér tvær breiðskífur auk smáskífna og kassettu en samhliða því var Einar Örn í námi úti í London, aflaði sambanda og fléttaði tengslanet sem síðar átti eftir að skila sér og m.a. kynntist hann Derek Birkett bassaleikara Flux of pink indian sem síðar átti eftir að stofna útgáfufyrirtækið One little indian. Þessi tengsl Einars við m.a. hljómsveitina Crass og óháðu tónlistarsenuna í Bretlandi áttu eftir að skila Kuklinu útgáfusamningi við Crass-plötuútgáfuna, hér heima sá Sigtryggur um að bóka sveitina víða um Evrópu (ásamt Ásmundi Áfanga-manni sem rak Grammið ásamt fleirum) og skólaðist vel í þeim efnum enda átti það eftir að skila sér fyrir Sykurmolana (og íslenska tónlistarútrás síðar). Kukl átti aldrei almennilega upp á pallborðið hjá Íslendingum sem tóku gleðipoppinu fegins hendi um þetta leyti og var tónlistarsenan hér á landi að taka á sig nokkuð afgerandi skýrt markaðar andstæður, annars vegar léttpoppuð vinsældatónlist þar sem ballmarkaðurinn var allsráðandi og hins vegar síðpönkið og tilraunakennd nýbylgjan – öllu minna áberandi sena þar sem tónleikahald var í fyrirrúmi og var Kuklið (og síðar Sykurmolarnir) hluti þeirrar kreðsu. Kuklið varð reyndar mun stærra nafn erlendis heldur en Íslendingar gerðu sér almennt grein fyrir og sveitin spilaði m.a.s. á Hróarskeldu fyrst allra íslenskra sveita – og síðar þegar Sykurmolarnir höfðu öðlast alþjóðlega frægð reyndu aðilar erlendis að selja Kukl-plöturnar sem Sykurmola-efni og þurfti sveitin að standa í stappi vegna þess um tíma.

Kukl varð sterkur vinahópur þótt spenna væri stundum innan hópsins og nátengdur sveitinni var fyrrnefndur Medúsa-hópur úr FB sem Einar Melax var hluti af sem fyrr segir, Þór Eldon félagi hans úr Medúsahópnum var þá sambýlismaður Bjarkar og einnig var þriðji Medúsu-liðinn ungskáldið Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) viðloðandi hópinn. Snemma sumars 1986 sprakk Kuklið þegar tilraunir með segulbönd og tónlist fór út um þúfur en sú sprenging varð þó ekki alvarlegri en svo að menn voru áfram tilbúnir að starfa áfram að tónlist. Um það leyti hafði hugmyndin um útgáfufyrirtækið Smekkleysu komið upp á yfirborðið, fyrst hjá Einari Erni og Þór og var það batterí sett á laggirnar um svipað leyti og Sykurmolarnir urðu til, Smekkleysu var ætlað eins og nafnið bendir til, að hampa hvers kyns smekkleysu og gefa út smekklaust efni af ýmsu tagi og er saga útgáfufyrirtækisins samofið sögu Sykurmolana.

Sykurmolarnir vorið 1988

Um sumarið 1986 hófu þeir Einar Örn og Sigtryggur trommuleikari að huga að stofnun nýrrar sveitar sem myndi spila einmitt „smekklausa“ tónlist í anda Smekkleysu, grípandi popp þar sem í raun væri verið að gera grín að poppheiminum enda átti tónlistin að vera fjarri þunglamalegu nýbylgjurokkinu sem Kuklið framreiddi. Fyrst voru uppi hugmyndir um að hafa tvo bassaleikara í sveitinni, Birgi og Braga Ólafsson sem hafði verið í Purrkinum (og var reyndar einnig meðal gesta í fyrrgreindum Áfanga-þætti þó ekki væri það með Gott kvöld / Kukli). Úr þeim ráðagerðum varð þó ekki en brandarinn Sykurmolarnir var svo formlega stofnaður um sumarið og innihélt þau Einar Örn og Björk söngvara, Sigtrygg trommuleikara og Einar Melax hljómborðsleikara öll úr Kuklinu, Þór Eldon gítarleikara og svo Braga bassaleikara og Friðrik Erlingsson gítarleikara (úr Purrkinum einnig) – sjö manna flippsveit sem átti heldur betur eftir að verða meira en brandari.

Sykurmolarnir komu fyrst fram í júlí á N‘art hátíðinni sem haldin var í stóru tjaldi við Norræna húsið í Vatnsmýrinni (þar sem sveitin kom reyndar fram undir nafninu Þukl) og svo aftur undir lok mánaðarins á styrktartónleikum fyrir Kvennaathvarfið, það var svo í lok ágúst sem Sykurmolarnir komu fyrst fram undir því nafni en sveitin lék þá ásamt Langa Sela og skuggunum á Roxzý. Í millitíðinni hafði verið haldið upp á 200 ára afmæli Reykjavíkur-borgar og hafði sveitin þá hljóðritað sitt fyrsta lag – Að reykja vík I-III, sem var þeirra framlag til afmælisins, en Ríkisútvarpið (sem þá mátti eitt ennþá reka útvarp) neitaði að spila það enda var í því snúið út úr ljóði Davíðs Oddssonar þáverandi borgarstjóra, Við Reykjavíkurtjörn sem hafði notið mikilla vinsælda sumarið 1985.

Nokkur samgangur var milli Sykurmolanna og Stuðmanna fyrstu mánuðina en Einar Örn starfaði um það leyti sem framkvæmdastjóri Stuðmanna, hann bjó þá ennþá úti í Bretlandi og voru verkefni hans fyrir Stuðmenn fyrst og fremst fyrir útrásararm sveitarinnar – Strax sem þá hafði verið settur á laggirnar, þessi samgangur varð til þess að Sykurmolunum bauðst að leika á Stuðmannatónleikum í Laugardalshöllinni um haustið sem reyndar misheppnuðust vegna lélegrar mætingar, Stuðmenn gátu því ekki gert upp við Molana en buðu þeim þess í stað hljóðverstíma í Grettisgati sem var í eigu þeirra. Sykurmolarnir sem strax þarna höfðu samið fjölmörg lög nýttu tækifærið vel og tóku upp tólf til fjórtán lög, sem munu hafa verið allt frá því að vera demó eða grunnar og upp í tilbúið efni. Í kjölfarið var ákveðið að gefa út tveggja laga smáskífu með þeim lögum sem lengst voru komin í vinnslu, Ammæli / Köttur, og til að fjármagna prentun kynningarveggspjalda og plötuumslags var leitað til heildverslunarinnar G. Kvaran sem flutti inn Dansukker sykur, sem var auðsótt mál. Af einhverri ástæðu fékk sveitin sendan kassa af molasykri frá heildsölunni sem Einar Örn kastaði út í sal til áhorfenda á tónleikum um haustið en það var ekki gert aftur enda skiluðu molarnir sér beint í andlit Molanna þar sem þeir stóðu á sviðinu. Hin nýstofnaða útgáfa Smekkleysa gaf herlegheitin að sjálfsögðu út (í nóvember) og var útgáfan að mestu fjármögnuð með sölu á „smekklausum“ póstkortum af leiðtogum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbastjov en leiðtogafundurinn svokallaði hafði einmitt farið fram um haustið í Höfða. Þess má geta að samskipti Sykurmolanna og Stuðmanna spilltust verulega þegar Smekkleysa ætlaði að veita Jakobi Frímanni Magnússyni Smekkleysuverðlaun en hann neitaði að taka við þeim.

Sykurmolarnir á forsíðu Þjóðlífs

Um þetta leyti um haustið 1986 urðu fyrstu mannabreytingar í Sykurmolunum þegar Einar Melax hljómborðsleikari hætti í sveitinni og var hún hljómborðsleikaralaus um tíma, þannig var hún skipuð þegar smáskífan kom út fyrir jólin. Upplagið sem upphaflega átti að vera 500 eintök var meira og minna gallað, platan hafði verið pressuð hér heima í plötupressunni Alfa, og var aðeins um helmingur upplagsins not- og söluhæfur. Restin var pressuð síðar upp í það magn tómra umslaga sem þurfti þannig að til eru tvenns konar pressur af smáskífunni þótt umslögin séu öll úr sömu prentun en þess má geta að Friðrik gítarleikari sem starfaði á þessum tíma sem auglýsingateiknari teiknaði umslagið og hafði reyndar einnig teiknað Smekkleysu-póstkortið fræga – það þarf varla að taka fram að skífan selst í dag dýrum dómum, fyrir tugir þúsunda. Smáskífan sem bar nafnið Einn mol‘á mann fékk góða dóma í Þjóðviljanum, DV og tímaritinu Samúel (sem talaði um Ammæli sem lag ársins) en að öðru leyti hlaut hún ekki mikla athygli enda þurfti hún þarna um haustið að keppa um vinsældir við lög eins og Serbann með Bubba Morthens og Þórð með Sverri Stormsker. Það vakti þó nokkra athygli þegar Sykurmolarnir komu fram í sjónvarpsþætti fyrir jólin þar sem Einar Örn söng í gegnum síma frá Bretlandi en að öðru leyti kom sveitin lítið fram um veturinn enda var Einar Örn búsettur erlendis.

Um haustið hafði Friðrik Þór Friðriksson fengið sveitina til að vinna tónlist fyrir kvikmyndina Skytturnar sem hann var þá að gera, og hljóðrituðu Sykurmolarnir fjölmörg lög fyrir það verkefni, þegar til kom notaði Friðrik einungis eitt lag í myndinni og voru Molarnir að vonum ósáttir við það. Fjögurra laga plata tengt því verkefni leit svo dagsins ljós á nýju ári (1987) þar sem aðallagið var Skyttan með Bubba Morthens og MX21 en lagið Drekinn var þar með Sykurmolunum auk tveggja uppfyllingarlaga með sveitinni, Friðrik gerði í staðinn myndband fyrir Sykurmolana við lagið Ammæli.

Um það leyti sem Ammæli-smáskífan kom út var gert opinbert að breska útgáfufyrirtækið One little indian sem Derek Birkett hafði þá stofnað myndi gefa út breiðskífu með Sykurmolunum (eða The Sugarcubes eins og sveitin var nú kölluð á ensku) sem þá þegar hafði fengið titilinn Life‘s too good en sá frasi mun vera kominn frá Medúsa-skáldinu Jóhamri, Derek hafði heyrt upptökur sveitarinnar úr Grettisgati og litist svo vel á efnið að hann var tilbúinn að gefa það út. Þar með var boltinn heldur betur farinn að rúlla án þess að nokkur gerði sér grein fyrir því.

Upphafleg plön One little indian var að breiðskífan kæmi út í febrúar 1987 en það var auðvitað allt of skammur fyrirvari og í hönd fór tími þar sem hinir og þessir lögðust yfir upptökugrunnana og gerðu það sem þurfti að gera – sem var þó heilmikið, lítið budget var til staðar hjá nýstofnuðu fyrirtækinu og því unnu menn þessa vinnu fyrir lítið eða ekkert en síðar þegar allt fór af stað og hagnaður varð af útgáfunni komu ýmsir bakreikningar frá þessum sömu aðilum.

Á forsíðu Melody maker

Sykurmolarnir hituðu í febrúar upp fyrir bandarísku sveitina The Smithereens á tónleikum í Íslensku óperunni en eftir þá tónleika hætti Friðrik gítarleikari í sveitinni til að einbeita sér að ritstörfum, til að taka sæti hans hafði sveitin samband við gítarleikarana Árna Kristjánsson (úr Vonbrigðum, sem hafði verið í upphaflegu Áfanga-plönunum) og Kristinn Árnason en hvorugur þeirra hafði áhuga á verkefninu, Kristinn kom þó eitthvað fram með sveitinni. Einar Örn flutti heim sumarið 1987 og var þá alkominn til Íslands og bjó reyndar upp á Akranesi þar sem hann fékkst við kennslu í fjölbrautaskólanum veturinn eftir. Sveitin spilaði ekki mikið á þessum tíma enda var þá verið að vinna af fullum krafti að útgáfumálum hennar í Bretlandi, en á þeim tónleikum sem sveitin lék á hér heima var yfirleitt nokkuð sami áhorfendakjarninn sem mætti, talað var um 200 manna dyggan aðdáendahóp sem fylgdi sveitinni og sá kjarni varð aldrei mikið stærri og sýnir kannski stöðu sveitarinnar á Íslandi, þá hampaði fjölmiðlafólk sveitinni framan af lítið sem ekkert og dró fremur úr fréttum af henni fremur en hitt fyrr en velgengnin bankaði á dyrnar, Árni Matthíasson hjá Morgunblaðinu var hins vegar með á nótunum og bakkaði Sykurmolana alla tíð upp. Hluti af skýringunni má hafa verið að í gegnum tíðina höfðu meiktilraunir íslenskra tónlistarmanna erlendis yfirleitt mistekist og fjölmiðlafólk vildi ekki brenna sig á því eina ferðina enn að flytja fréttir af einhverju sem lítill fótur væri fyrir – sama hugsun var í gangi hjá Sykurmolunum sjálfum, meðlimir sveitarinnar töluðu sjálfir alltaf varlega um frama og frægð og drógu fremur úr en ekki.

Í ágúst 1987 kom svo smáskífan Birthday (Ammæli) á markað í Bretlandi sem forsmekkur að breiðskífunni, stóru fréttirnar komu svo í lok mánaðarins þegar skífan var valin „Smáskífa vikunnar“ samtímis hjá Melody Maker og New Musical Express, tveimur stærstu popptímaritum Bretlands með tilheyrandi athygli sem því fylgdi enda var sveitin á forsíðum beggja blaðanna síðar um haustið. Þetta voru stórfréttir í poppheiminum, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig í Bretlandi enda hvorki á hverjum degi sem sama smáskífan fengi slíka athygli á sama tíma í popptímaritunum né heldur  að sveit frá Íslandi skyldi fá hana – og um leið markaði þetta upphaf frægðarferils sveitarinnar og ekki síður Bjarkar og kom henni á kortið. Smáskífan fór á topp óháða smáskífulistans ytra sem vakti ekki mikla athygli hér heima enda miðuðu fjölmiðlar hér heima við almenna vinsældalistann þar sem lagið náði reyndar best í 47. sæti í október. Þess má geta að Birthday var ein fyrsta smáskífan sem gefin var út á geisladiskaformi í Bretlandi en 7 og 12 tommu vínylformið hafði þá verið allsráðandi um árabil. Alls kom skífan út átta sinnum og í margs konar útgáfum enda var sveitin alltaf dugleg að gera endurhljóðblandanir af smáskífum sínum. Þegar mönnum var ljóst hversu svakalegt start sveitin var að fá í Bretlandi var útgáfu breiðskífunnar frestað enn og aftur en nú til að fínpússa hlutina.

Eins og vænta mátti urðu Sykurmolarnir að bregðast fljótt við þessari miklu og skjótu athygli og fóru til Bretlands í október enda var óskað eftir viðtölum við sveitina og einkum söngkonuna Björk en fjölmiðlar voru fljótir að draga hana út fyrir sviga. Molarnir voru þó samstíga í því að hér væri á ferð hljómsveit en ekki söngkonan Björk með undirleikara og því kom yfirleitt aldrei til greina t.d. að forsíðu- og viðtalsmyndir væru af henni einni heldur hljómsveitinni allri. Einnig gættu þau þess að dreifa viðtölum á alla meðlimi sveitarinnar gagngert til að koma í veg fyrir slíkt sem og til að dreifa álaginu og athyglinni sem sveitin fékk óneitanlega í Bretlandi þar sem einkum gula pressan getur verið erfið í umgengni. Sykurmolarnir (og Derek hjá One little indian) gerðu ýmislegt til að pirra bresku fjölmiðlapressuna, áttuðu sig snemma á hvernig þeir störfuðu og sneru út úr spurningum þeirra, svöruðu út í hött með alls kyns bulli, öttu þeim saman og léku sér að þeim reyndar með þeim afleiðingum að síðar tætti pressan þau í sig.

Hlutirnir gerðust mjög hratt um haustið. Um þetta leyti höfðu Björk og Þór gítarleikari slitið samvistum en þau létu það ekki hafa áhrif á samstarf þeirra í hljómsveitinni. Hér heima komu Sykurmolarnir fram á tónleikum í Hollywood og framhaldsskólatónleikum í Tívolí í Hveragerði, í Hollywood kom Sjón fram í fyrsta sinn með sveitinni opinberlega undir aukasjálfinu Johnny Triumph og flutti slagarann Luftgítar en lagið höfðu þau hljóðritað í London í október.

Sykurmolarnir 1988

Sykurmolarnir fengu ekki aðeins athygli fjölmiðlafólks ytra heldur einnig stærri útgáfufyrirtækja sem öll sáu tækifæri í hljómsveitinni, og kepptust við að yfirbjóða hvert annað með samningstilboðum, og það án þess að sveitin hefði nokkuð leikið utan Íslands nema örlítið í október ferðinni þar sem hún hitaði upp fyrir aðra í fáeinum klúbbum í London. Derek hjá One little indian varð ljóst að verkefnið væri það stórt að hann gæti ekki sinnt því almennilega einn og hvatti sveitina til að taka tilboði frá Warner brothers sem kvað á um þrjár breiðskífur og listrænt frelsi, á fundi með fulltrúum WB kom hins vegar í ljós að útgáfufyrirtækið vildi Einar Örn úr sveitinni og við þær fregnir gekk sveitin af fundinum. Þeir hjá WB sáu strax að þeir hefðu gert stór mistök og sendu Molunum nýtt risatilboð sem sveitin ansaði engu, aðrar útgáfur sem höfðu dregið sig í hlé þegar WB kom að borðinu birtust nú aftur og Derek tilkynnti þeim sem og bresku fjölmiðlafólki að sveitin yrði með tónleika á Íslandi í lok október og þar sáu menn tækifærið til að líta sveitina augum á heimavelli og gefa þeim undir fótinn. Gallinn var hins vegar sá að Sykurmolarnir höfðu ekki ráðgert neina tónleika á þeim tíma en sveitin brást fljótt við, bókaði strax skemmtistaðinn Casablanca og þangað mætti hersing af erlendu útgáfu- og fjölmiðlafólk á Sykurmolatónleika. Íslenskir fjölmiðlamenn fengu jafnframt smjörþefinn af erlendu athyglinni, áttuðu sig líklega á að Molarnir væru á barmi heimsfrægðar en hristu hausinn yfir hrokanum þegar sveitin hafnaði hverju stórtilboði útgáfurisanna á fætur öðru, málið var hins vegar að meðlimir sveitarinnar vildu verða atvinnumenn í tónlistinni á eigin forsendum, fá að vera þau sjálf í sköpuninni. Íslendingar fylltu hins vegar Hard rock café þegar sveitin hélt tónleika þar skömmu síðar.

Næsta smáskífa kom út í nóvember, þar var á ferð lagið Cold sweat en það fór eins og Birthday á topp óháða listans í Bretlandi og í 56. sæti almenna smáskífulistans, og varð einungis til að styrkja og hvetja Sykurmolana í því sem sveitin var að gera enda jókst athyglin með hverri vikunni sem leið. Óskar Jónasson gerði myndband við lagið, það fékkst þó eitthvað lítið spilað í Bretlandi þar sem það var bannað á BBC vegna kynferðislegra tilvísana sem voru þó býsna léttvægar. Um svipað leyti komu út hér heima tvö lög með sveitinni á safnkassettunni Snarl II: veröldin er veimiltíta!, lögin Skalli (sem kom út á Life‘s too good breiðskífunni undir nafninu Sick for toys) og Mykjan (sem hét Cowboy þegar það kom út á Ameríku-útgáfu breiðskífunnar).

Þegar sveitin fór út til tónleikahalds í desember voru Molarnir mun betur undirbúnir en tveimur mánuðum fyrr þegar lætin voru að byrja, og í þeirri ferð lék sveitin á nokkrum tónleikum við góðar móttökur og undirtektir. Þegar þá var komið sögu höfðu þau samið við Derek og One little indian að sveitin myndi eignast helmings hlut í útgáfunni sem myndi gefa breiðskífuna út í Bretlandi og semja svo um útgáfu í öðrum löndum, stefnt var þó á að gefa út hjá stórfyrirtæki í Bandaríkjunum. Í kjölfarið var samið við nítján útgáfufyrirtæki í Evrópu og gengið til samninga við Elektra fyrir Bandaríkjamarkaðinn en á Íslandi var stofnað sér batterí utan um reksturinn og útgáfumálin gagnvart OLI hér heima. Undir lok árs 1986 kom svo út smáskífan Luftgítar í samstarfi við Johnny Triumph (Sjón) en hún kom svo út ytra snemma á nýju ári.

Birthday hafði ekki komist á vinsældalista útvarpstöðvanna hér heima (Bylgjan hafði tekið til starfa haustið 1986 og hélt út slíkum lista ásamt Rás 2) en Cold sweat (Coldsweat) náði sjöunda sætinu á lista Rásar 2 í janúar 1988 og Luftgítar fór hæst í níunda sæti sama lista. Birthday hafði hins vegar um áramótin verið kjörið lag ársins hjá Melody maker í Bretlandi og fór í kjölfarið aftur á topp óháða listans, Sykurmolarnir var kjörin efnilegasta hljómsveitin og Björk varð í þriðja sæti yfir söngkonur ársins á eftir Kate Bush og Annie Lennox í uppgjöri blaðsins.

Sykurmolarnir

Í upphafi árs 1988 gekk Einar Melax hljómborðsleikari til liðs við Sykurmolana á nýjan leik og kom þá í raun í stað gítarleikara en sveitin hafði haft á að skipa einum gítarleikara eftir að Friðrik hætti, hljómborði var því bætt við í staðinn fyrir gítar. Einar átti þó ekki eftir að starfa lengi með sveitinni því hann var hættur snemma um sumarið, höndlaði að líkindum illa athyglina og lætin í kringum Molana.

Snemma árs hafði blaðamaður á vegum bandaríska tónlistartímaritsins Rolling stone fengið augastað á Molunum sem átti eftir að hjálpa þeim töluvert á Ameríku-markaðnum en hróður sveitarinnar hafði þá ekki enn borist vestur um haf, hann kom hingað til lands, tók viðtöl og vann greinar um sveitina sem áttu síðan eftir að birtast í blaðinu um það leyti sem breiðskífan kom út í Bandaríkjunum. Samband hljómsveitarinnar við bresku pressuna fór hins vegar hríðversnandi enda höfðu Sykurmolarnir sem fyrr segir áttað sig smám saman á vinnubrögðum þeirrar stéttar og gerðu í því að etja þeim saman, hella þá blindfulla og svara þeim út í hött.

Breiðskífan Life‘s too good kom svo loks út um vorið 1988 hér á landi, í Bretlandi og víðar hvar um Evrópu og Bandaríkjunum og um svipað leyti kom smáskífan Deus út sem eins og aðrar smáskífur Molanna skoraði hátt á óháða listanum og komst hæst í 51. sæti almenna listans í Bretlandi. Nokkrar mismunandi útgáfur komu út af breiðskífunni, m.a. með mismunandi litum á plötuumslaginu og einnig var eitthvað misjafnt hvernig lagavalið var á henni eftir löndum, hún hlaut almennt ágæta dóma hér heima. Útgáfutónleikar Life‘s too good voru haldnir í Duus undir yfirskriftinni Kakan mín og jólin og strax í kjölfarið flaug sveitin út til Bretlands til tónleikahalds enda var fljúgandi sigling á sölu plötunnar þar, skífan fór beint í fjórtánda sæti sölulistans og seldist síðan í ríflega milljón eintökum fyrst íslenskra platna, á Íslandi seldust um 8000 eintök af henni á sínum tíma sem telst líklega í góðu meðallagi en síðan hefur annað eins selst af henni hér á landi. S.h. draumur fór utan með sveitinni og hitaði eitthvað upp fyrir hana en eftir Bretlands-túrinn héldu Sykurmolarnir til Þýskalands, Hollands og Danmerkur þar sem sveitin lék á Hróarskeldu, um það leyti var Einar Melax endanlega hættur.

Þá voru góð ráð dýr, Margréti Örnólfsdóttur (sem þá var í Risaeðlunni) var boðið að ganga til liðs við Sykurmolana þegar sveitin kom heim eftir túrinn og lék hún með sveitinni hér heima á tónleikum í júní og fór svo með hópnum til Bandaríkjanna mánuði síðar þegar sveitin heimsótti þau í fyrsta sinn. Þá hafði greinin birst í Rolling stone og Molarnir voru því vel kynntir þegar komið var þangað, andrúmsloftið var með allt öðrum hætti hjá fjölmiðlafólki og sveitin var meðhöndluð eins og stórstjörnur af hálfu Elektra útgáfufirmanu. Hópurinn hafði þó ekki verið lengi í Ameríku þegar þau voru búin að fá nóg af Elektra-fólkinu sem fylgdi þeim um hvert fótmál, stjórnaði öllu og án þess að hafa nokkurt samráð við sveitina. Og svo fór að þegar Molarnir ákváðu að sleppa úr tónleikum vegna raddleysis Bjarkar létu þau útgáfufyrirtækið ekkert vita af því, uppi varð fótur og fit hjá Elektra en eftir það breyttist viðhorf og vinnubrögð útgáfunnar gagnvart hljómsveitinni til hins betra.

Í Bandaríkjunum haustið 1988

Þetta var langur og strangur túr enda var farið mjög víða um álfuna og reyndar urðu Þór og Margrét par vestra. Ekki voru Sykurmolarnir alltaf til fyrirmyndar og einkum var Einar Örn hrekkjóttur og ósvífinn, þannig mun hann hafa farið heldur fram úr sjálfum sér þegar hann óskaði áhorfendum til hamingju með Challenger slysið þegar sveitin lék í Houston en Challenger geimferjan hafði farist í geimskoti um einu og hálfi ári áður. Einari tókst að forða sér eftir tónleikana áður en lögreglan sem beið eftir honum næði til hans. Sem dæmi um hvernig sveitin lét aldrei að fáránlegum óskum fjölmiðlafólks má nefna að þegar tímaritið Rolling stone fór fram á að sveitin sæti fyrir í skíðafatnaði fyrir tískuþátt blaðsins var það auðsótt mál – ef þau fengju sjálf að ráða hvernig þau klæddust fatnaðinum s.s. buxur á höfðinu o.s.frv. Ekkert varð úr myndatökunni. Smáskífan Motorcrash kom út á meðan sveitin var í Ameríku-túrnum en sú skífa kom ekki út í Bretlandi, bara í nokkrum löndum Evrópu og svo í Bandaríkjunum, Óskar Jónasson hafði gert myndband við það lag eins og Coldsweat en þau Björk voru um það leyti orðin par.

Sykurmolarnir komu aftur heim til Íslands í september 1988 eftir að hafa lokað tónleikaferðinni á Ritz í New York þar sem fjöldinn allur af Íslendingum sá sveitina leika, þá hafði sveitin verið um fjóra mánuði í Bandaríkjunum og reyndar stöðugt á ferðinni erlendis síðan í maí. Sjón hafði komið fram með sveitinni í Washington og þrátt fyrir mikið álag var einnig mikið djammað að íslenskum sið í ferðinni. Sveitin hófst fljótlega handa við að vinna að næstu plötu í stúdíó Sýrlandi hér heima en það var þá nýtekið til starfa, áður hafði hópurinn byrjað að semja efnið á hana að einhverju leyti þannig að sveitin var ekki alveg á byrjunarreit, titillinn kom snemma á plötuna en hún hafði fengið nafnið Here today, tomorrow next week! – sem átti sér skírskotun í barnabókina The wind in the willows. Ekki gafst þó langur tími til að vinna að upptökunum því fyrir dyrum stóð nýr tónleikatúr í nóvember og desember, að þessu sinni um Evrópu – Bretland, Holland, Belgíu, Þýskaland, Sviss, Júgóslavíu, Frakkland og Spán. Hljómsveitirnar Ham og Risaeðlan fylgdu Sykurmolunum að einhverju leyti í þessum túr sem upphitunarbönd.

Nýtt ár, 1989 gekk í garð og sveitin hélt áfram vinnslu við nýju breiðskífuna þegar komið var heim út Evróputúrnum. Sykurmolarnir vildu vinna plötuna hraðar en Life‘s too good og hafa hljóminn hrárri, aðstæður voru þó erfiðar við upptökurnar því stöðugur gestagangur og skreppitúrar seinkuðu upptökum og þá gekk samstarfið við upptökumanninn Brian Pugsley ekki að óskum þó svo að sveitin væri að mestu sjálf við stjórnvölinn – það samstarf endaði reyndar með því að hann yfirgaf landið án þess að kveðja. Þá kom einnig í ljós að upptökurnar voru ekki nógu vel unnar svo mun lengri tíma tók að fá mynd á þær, margt nýstárlegt var gert í upptökunum og t.a.m. var Ólafur Gaukur Þórhallsson fenginn til að útsetja blásturshljóðfæri í laginu Tidal wave.

Upphaflegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir að nýja platan kæmi út í upphafi árs 1989 en augljóslega gekk það ekki eftir því upptökum lauk ekki fyrr en í apríl og þá átti eftir að hljóðblanda. Um það leyti stóð fyrir dyrum risatónleikatúr sveitarinnar um Evrópu, Sovétríkin og Bandaríkin svo erfitt yrði að halda uppi áætlunum í kringum plötuvinnsluna, að lokum var ákveðið að Pétur Gíslason sem upphaflega átti að vera sviðshljóðblandari Molanna í ferðinni myndi hljóðblanda plötuna í London og fljúga svo með afraksturinn um helgar til að leyfa hljómsveitinni að heyra og meta árangurinn.

Túrinn hófst reyndar hér heima á Íslandi með tvennum tónleikum í Tunglinu og einum á Akureyri og svo var lagt í hann fyrst um nokkur Evrópulönd og síðan Sovétríkin, þegar sveitin kom aftur heim í júní tók við nokkurra daga hlé og um miðjan mánuðinn héldu Molarnir aftur af stað en nú vestur um haf og reyndar án Margrétar hljómborðsleikara en hún var þá komin að barnsburði. Ameríkutúrinn var farinn ásamt bresku sveitunum PIL og New Order undir yfirskriftinni Monsters of alternative rock en innan Sykurmolanna gekk túrinn undir nafninu Hamster of rock. Sykurmolarnir fóru fram á að fá að hefja alla tónleika, sem var auðsótt mál og áður en sveitin sté á svið var leikin tónlist flutt af Hauki Morthens af segulbandi. Þar sem Margrétar naut ekki við fékk sveitin til liðs við sig afleysingahljómborðsleikara sem reyndar passaði illa inn í hópinn og að endingu voru öll hljómborð forrituð og leikin af playbacki sem stjórnað var í gegnum trommusett Sigtryggs. Túrnum lauk svo á risatónleikum í New York.

Eftir stutt frí hér heim síðsumars 1989 þar sem leikið var m.a. á Rykkrokk-tónleikunum og í Tunglinu (ásamt Ham) var aftur blásið til tónleikaferðar, nú var það stór Evróputúr sem hófst í Bretlandi. Ham fór með sveitinni utan en Smekkleysa hafði þá blásið til nokkurrar útrásarsóknar enda hafði útgáfan hagnast nokkuð á sölu Life‘s too good, sú útrás fólst m.a. í að koma nokkrum íslenskum sveitum, þ.á.m. Ham á framfæri erlendis m.a. með útgáfu safnplötu fyrir erlendan markað og svo með því að sveitirnar fylgdu Sykurmolunum að einhverju leyti í tónleikaferðum.

Sykurmolarnir 1989

Margrét náði að leika með sveitinni á nokkrum tónleikum í Bretlandi og í þeirri ferð kom upp uppákoma sem er þekkt innan sveitarinnar sem „ódæðið í Leeds“ en á skrautlegu djammi Sykurmolanna og Ham datt einhverjum í hug að kasta sjónvarpi út um glugga, svona til að prófa það – í anda alvöru rokklífernis. Eftir tónleika um Bretland og Írland lá leið sveitarinnar víða um álfuna, m.a. til Svíþjóðar, Spánar og Júgóslavíu en það mun hafa verið á hótelbar í Zagreb sem hugmyndin um hliðarhljómsveitina Jazzhljómsveit Konráðs Bé varð til milli Braga bassaleikara og Sigtryggs trommuleikara, sveitin varð ekki að veruleika fyrr en síðar en þarna má segja að hliðarsjálf Sigtryggs – Bogomil Font hafi orðið til. Þegar sveitin var í Stokkhólmi í Svíþjóð undir lok ferðarinnar sendu hún í einhverri djammgleði Derek hjá One little indian tilkynningu þess efnis að Bragi og Einar Örn væru komnir út úr skápnum og hefðu gift sig, sú saga dreifðist fljótlega út og varð langlíf, svo langlíf að löngu síðar þegar sveitin var stödd í Kanada birtust tveir blaðamenn frá hommablaði og vildu taka viðtal við hjónin. Sykurmolarnir komu loks aftur heim til Íslands rétt fyrir jólin 1989 eftir að hafa þá leikið á fjörutíu tónleikum á 75 dögum í fimmtán löndum.

Á meðan á tónleikaferðinni stóð hafði fyrsta smáskífan af nýju plötunni komið út, það var stórsmellurinn Regína (Regina) en sú skífa seldist í um 150 þúsund eintökum í Bandaríkjunum á fyrstu tíu dögunum enda komst lagið í annað sæti Billboard listans vestra. Lagið fór jafnframt á topp óháða listans í Bretlandi og fór hæst í 55. sæti almenna listans þar í landi. Lagið náði einnig nokkrum vinsældum hér á landi og komst hæst í þriðja sæti Íslenska listans og eins og vænta mátti var gert myndband við lagið sem vakti nokkra athygli. Önnur smáskífa kom einnig út um haustið, það var lagið Planet en það náði ekki sömu hæðum og Regina. Óskar Jónasson gerði myndbönd við bæði lögin og reyndar varð myndbandið við Planet kjörið besta myndband ársins hjá Ríkissjónvarpinu en fékkst þar ekki spilað á sama tíma því lagið var á ensku.

Breiðskífan leit dagsins ljós í október undir nafninu Here today, tomorrow next week! eins og fyrr er greint. Hún hlaut strax ágætar viðtökur í Bandaríkjunum, seldist í um 130 þúsund eintökum á fyrstu þremur dögunum og t.a.m. hlaut hún góða dóma í Rolling stone, hins vegar tættu bresku blaðamennirnir hana í sig reyndar rétt eins og sveitin hafði gert ráð fyrir bæði vegna þess að það var lenska þar í landi að önnur plata listamanna fengi neikvæða dóma og svo hafði samband Sykurmolanna við þarlenda blaðamenn ekki verið ýkja gott. Platan seldist samt sem áður í um 600 til 700 þúsundum eintaka í Bretlandi en hér á landi kom hún út undir íslenska heitinu Illur arfur. Hún hlaut ágæta dóma í DV og tímaritinu Þjóðlífi, og var svo kjörin plata ársins í sameiginlegu uppgjöri dagblaðanna hér heima.

Fríið hér heima stóð stutt og í febrúar 1990 hófst enn einn risatúrinn, að þessu sinni var það Ameríkutúr sem stóð í um einn og hálfan mánuð og spannaði á þriðja tug tónleika. Það gekk í heildina ágætlega þótt nokkuð þétt væri spilað í byrjun svo að Björk missti röddina þannig að aflýsa þurfti einhverjum konsertanna. Reyndar kom upp á á einum þeirra að Einar Örn fékk keðju í andlitið og hætti sveitin að spila í kjölfarið en að öðru leyti gekk allt vel. Eins og áður enduðu Sykurmolarnir í New York og þar tróð Megas upp með sveitinni en meðlimir sveitarinnar höfðu einmitt komið við sögu á plötum hans árin á undan.

Sykurmolarnir

Hljómsveitin kom aftur heim í mars og spilaði hér heima í nokkur skipti, m.a. í Tunglinu en áætlanir voru þá uppi um að fara til Asíu og Eyjaálfu til tónleikahalds og taka sér svo gott frí út árið enda var álagið farið að segja til sín eftir nánast þrotlausa spilamennsku, upptökur og ferðalög um heim allan frá því að sveitin sló í gegn haustið 1987.

Sveitin byrjaði að taka upp nokkra grunna fyrir nýja plötu sem og ábreiðu af gamla Carpenters laginu Top of the world sem átti reyndar ekki eftir að koma út fyrr en tveimur árum síðar sem B-hlið á smáskífu. Í lok apríl var svo haldið enn utan, fyrst til Japan og í kjölfarið til Ástralíu og Nýja Sjálands. Sem fyrr segir hafði álagið verið mikið á sveitinni og spenna var farin að myndast innan hópsins enda höfðu meðlimir sveitarinnar og annar innsti kjarni hennar verið mikið í samneyti hvert við annað og fólk farið að fá nóg hvert af öðru, aukinheldur hafði Here today, tomorrow next week! ekki gengið eins vel og væntingar höfðu verið um – því voru allir dauðfegnir að fá fríið sitt þegar sveitin kom aftur heim úr tónleikatúrnum um mánaðamótin maí – júní. Þar fyrir utan var farið að örla á tónlistarlegum ágreiningi innan sveitarinnar þar sem bar hæst að Björk söngkona vildi þróa tónlistina enn frekar, sækja á framsæknari mið í átt til dans- og housetónlistar sem þá var í þann mund að ryðja sér til rúms í Bretlandi  á meðan aðrir vildu fara varlegar í sakirnar. Ágreiningurinn risti þó ekki dýpra en svo hugmynd þeirra Braga og Sigtryggs frá því í Zagreb haustið á undan varðandi Jazzhljómsveit Konráðs Bé var hrint í framkvæmd en hana skipuðu Sykurmolarnir auk fleira tónlistarfólks á vegum Smekkleysu og lék gamla standarda með sínum hætti með því að leika helst á eitthvað annað hljóðfæri sem hverjum var tamt. Bogomil Font (Sigtryggur) varð söngvari hljómsveitar Konráðs Bé (Braga) og öðlaðist síðar sjálfstætt líf og um svipað leyti hóf Björk að koma fram með Tríói Guðmundar Ingólfssonar til að syngja gömul dægurlög í djassútsetningum en það samstarf hafði reyndar fyrst orðið til í útvarpsþætti þremur árum fyrr, samstarfið leiddi til plötunnar Gling gló sem kom út fyrir jólin 1990 og sló rækilega í gegn og bjargaði í raun Smekkleysu fjárhagslega því Here today, tomoorw next week! hafði ekki reynst útgáfunni sami happafengur og Life‘s too good.

Þrátt fyrir að hvíla ætti Sykurmolanna fram að áramótum hlýddi sveitin kallinu þegar boð barst frá Tékkóslóvakíu um að leika á styrktartónleikum í Prag, þá lék sveitin einnig lítillega heima á Íslandi en menntamálaráðuneytið mun hafa beðið Molana að koma á tónleikum í tengslum við heimsókn Frakklandsforseta til landsins sem og menningarmálaráðherrans Jack Lang sem var yfirlýstur aðdáandi Sykurmolanna. Molarnir urðu við þeirri beiðni, héldu tónleika á Duus og þangað mættu svo ásamt Lang þau Svavar Gestsson menntamálaráðherra, Vigdís Finnbogadóttir forseti og Francois Mitterand Frakklandsforseti en fjölmiðlar gerðu sér heilmikinn mat úr því. Í framhaldi af því var komið á samstarfi Smekkleysu við Frakka og spiluðu Molarnir síðar í Frakklandi í tengslum við það samstarf.

Sykurmolarnir léku þannig ekki mikið opinberlega síðari hluta ársins 1990 en hófu hins vegar að semja og vinna þriðju breiðskífu sveitarinnar – reyndar án Bjarkar því hún var þá sjálf farin að huga að eigin tónlist enda hafði hún aðrar tónlistarlegar hugmyndir eins og fyrr er getið, hún var komin í samstarf við bresku danssveitina 808 State og var töluvert í London um haustið. Þegar hún heyrði afrakstur hinna Sykurmolanna var hún ekki alls kostar sátt enda var tónlist sveitarinnar á hraðri leið frá hennar eigin hugmyndum og má segja að þarna hafi verið farin að myndast sú gjá milli hennar og sveitarinnar sem ekki var hægt að brúa – hugmyndir hvors um sig voru það ólíkar. Þá hjálpaði ekki upp á móralinn að breska sveitin kom hingað til lands til tónleikahalds og fannst sumum meðlimum Molanna lítið til koma, og magnaðist pirringurinn samhliða því. Björk hafði á þeim tímapunkti afráðið að klára gerð Sykurmolaplötunnar og hætta í sveitinni að þeirri vinnu lokinni.

Sykurmolarnir héldu áfram að vinna að upptökum eftir áramótin 1991-92 og enn jókst sundurlyndið innan sveitarinnar þegar hópurinn gat ekki komið sér saman um upptökustjóra, að endingu var Paul Fox ráðinn til að stýra verkefninu og í kjölfarið var farið að vinna með þá grunna sem þegar voru komnir. Þeir Elektra-liðar voru ekki ánægðir með efnið sem þeir heyrðu frá sveitinni og vildi að þau byrjuðu upp á nýtt, og þegar Polydor útgáfan komst á snoðir um það buðust þeir til að taka yfir Bandaríkja-útgáfuna í stað Elektra en Elektra sá sig um hönd og bakkaði með sínar kröfur, og svo fór að sveitin fór til Bandaríkjanna um vorið og kláruðu upptökurnar. Þannig voru utanaðkomandi neikvæðir straumar einnig viðvarandi við aukna spennu innan Sykurmolanna og svo fór að Björk tilkynnti sveitinni að loknum upptökum og hljóðblöndun að hún myndi yfirgefa sveitina þegar búið væri að fylgja útgáfunni eftir, hún hefði hug á að taka þátt í þeirri vinnu en færi ekki í stóran tónleikatúr með sveitinni. Sú málamiðlun var gerð innan Molanna að farið yrði í stuttan túr í upphafi ársins 1992 þegar breiðskífan kæmi út en hún hafði þá hlotið titilinn Stick around for joy.

Sykurmolarnir á miðjuopnu Æskunnar

Fyrsta smáskífan af plötunni kom út hér heima á Íslandi á Þorláksmessu 1991 og um áramótin annars staðar í heiminum, það var lagið Hit og telst vera sú smáskífa Sykurmolanna sem fór hæst á breska vinsældalistanum en þar komst lagið í 17. sæti og á topp Billboard listans í Bandaríkjunum. Hér heima bar svo við að lagið fór á topp íslensku vinsældalistanna sem þá voru í gangi, Íslenska listans og Pepsi-lista FM 957 og virtist sem Íslendingar væru nú loks að meta Sykurmolana að verðleikum, og í ársuppgjöri Rásar 2 var lagið í öðru sæti þrátt fyrir að hafa komið út á Þorláksmessu.

Endalok Sykurmolanna voru framundan þótt almenningur og fjölmiðlar hefðu engan grun um það og sveitin fylgdi breiðskífunni minna eftir en ella vegna þess, þegar hún kom út í febrúar 1992. Íslenskir poppskríbentar voru sammála um að platan væri prýðileg og þannig fékk hún mjög góða dóma í Morgunblaðinu, Vikunni og Degi og ágæta í Æskunni. Skífan gekk einnig vel í Bretlandi til að byrja með, fékk miklu betri dóma en Here today, tomorrow next week! en missti fljótlega flugið í sölu enda var eftirfylgnin lítil. Meðlimir sveitarinnar skiptu með sér fjölmiðlaviðtölum eftir löndum og farið var í stutta tónleikaferð í mars sem hófst á Hótel Borg með eftirminnilegum tónleikum enda var lítil pressa á sveitinni vitandi að framundan væri ekki margra mánaða ferðalög, í kjölfarið var leikið á fáeinum tónleikum í Bretlandi, Þýskalandi, Hollandi, Belgíu og Frakklandi áður en flogið var vestur um haf og leikið á fjórtán tónleikum í Bandaríkjunum.

Næsta smáskífa, Walkabout var næst í röðinni en fór ekki mjög hátt á listum eða vinsældum en b-hliðarlagið, Top of the world upphaflega flutt af Carpenters systkinunum náði nokkrum vinsældum en það hafði verið hljóðritað nokkru áður sem fyrr er getið, reyndar gerðu Molarnir sitt til að vekja athygli á laginu m.a. með því að láta spyrjast út að Richard Carpenter hefði trompast þegar hann heyrði útgáfu sveitarinnar á því, enginn fótur var hins vegar fyrir því. Um sumarið 1992 fengu Sykurmolarnir ótal tilboð um tónleikahald um heim allan en öllu slíku var hafnað enda var sveitin þá tæknilega hætt þótt engin yfirlýsing hefði verið gefin út um það enda átti enn eftir að gefa út eina smáskífu – Vitamin sem svo kom út í júní. Hugsanlega hafa þó einhverjir hugsað sitt því Björk var komin á fullt í vinnu við sína fyrstu sólóplötu (aðra ef frumraun hennar frá 1977 er tekin með) og Bogomil Font fór mikinn með Milljónamæringunum þetta sumar. Það kom því nokkuð á óvart þegar spurðist út að sveitin færi í stóra tónleikaferð með írsku sveitinni U2 um Bandaríkin um haustið, reyndar kom það öðrum meðlimum Molanna í opna skjöldu þegar Björk gaf það út að hún vildi taka þennan túr en hin höfðu öll reiknað með að hún myndi vilja hafna tilboðinu. Ástæðan var líkast til sú að Björk vildi klára sögu sveitarinnar með reisn sem síðan varð raunin. Upphaflega var gert ráð fyrir þriggja mánaða reisu en fjárhagurinn leyfði það ekki og úr varð að sveitin fylgdi Írunum í einn og hálfan mánuð. Þrátt fyrir velgengni sveitarinnar og alla þá landkynningu sem hún hafði skapað voru þeir sem héldu utan um menningarsjóðina ekki tilbúnir að styrkja hana til fararinnar sem var gríðarlega kostnaðarsöm, og það þrátt fyrir að áætlað væri að tvöfaldur íbúafjöldi Íslands myndi líta sveitina augum í ferðinni. U2 kom hins vegar til móts við sveitina með kostnað og þegar íslensk stjórnvöld komust á snoðir um það tóku þau loks við sér og styrktu verkefnið einnig.

Þessi síðasti tónleikatúr Sykurmolanna hófst um miðjan október þar sem sveitin kom til liðs við U2 en nokkurt stress hafði verið undir lok undirbúningsins, annars vegar við fjármögnunina og hins vegar þar sem Björk kepptist við að klára upptökur á sólóplötu sinni. Allt gekk þó að óskum og túrinn gekk prýðilega, Molarnir léku á sautján tónleikum fyrir um 700 þúsund manns (sem var m.a.s. heldur ríflega en sá tvöfaldi íbúafjöldi Íslands sem miðað hafði verið við)  en sveitin lék aukinheldur á nokkrum sjálfstæðum tónleikum. Mikil gleði ríkti meðal Sykurmolanna sem léku á alls oddi á sviðinu og utan þess enda sáu menn fyrir sér túrinn sem skemmtun og svo langt frí á eftir. Á meðan sveitin túraði um Bandaríkin með U2 kom út myndbandsspóla hér heima undir merkjum Smekkleysu sem bar titilinn Á guðs vegum, á henni var að finna blandað efni frá ýmsum tímum og m.a. efni úr einkasöfnum.

Sykurmolarnir

Að Ameríkutúrnum loknum kom sveitin heim og um svipað leyti kom út plata með sveitinni sem hafði að geyma ýmsar endurhljóðblandanir á lögum sveitarinnar undir titlinum It‘s it, platan kom einnig út með aukaefni en sú útgáfa mun einungis hafa komið út í fimm þúsund eintaka upplagi. Og fyrir jólin 1992 kom einnig út bókin Sykurmolarnir, skráð af Árna Matthíassyni blaðamanni á Morgunblaðinu sem hafði verið einna ötullastur til að breiða út fagnaðarerindið um sveitina, hann hafði t.a.m. fylgt sveitinni að einhverju leyti í tónleikatúrnum fáeinum vikum fyrr. Það má því segja að Árni hafi fangað sögu Sykurmolanna frá upphafi og til enda og komið henni frá sér við síðasta lífsmark hennar því sveitin hélt sína síðustu tónleika rétt fyrir jólahátíðina, í Tunglinu að sjálfsögðu sem var eins konar heimavöllur Molanna. Þess má geta að þessi umfjöllun er að nokkru byggð á bók Árna.

Sykurmolarnir hættu við svo búið en þó án þess að nokkru sinni yrði gefin út yfirlýsing þess efnis. Björk fór á fullt í sólóferilinn, flutti til Bretlands og gaf út Debut um vorið 1993, Bogomil Font (Sigtryggur trommari) hélt sínu striki og sló í gegn með Marsbúa cha cha cha, Einar Örn fór að vinna með Hilmari Erni Hilmarssyni og fleiri tónlistarmönnum, Þór gítarleikari stofnaði Unun með Dr. Gunna, Margrét hljómborðsleikari sneri sér m.a. að kvikmyndatónlist og Bragi bassaleikari að ritstörfum. Þannig má segja að sveitin hafi horfið af sjónarsviðinu án þess að nokkur tæki eftir því þar sem meðlimir hennar voru áfram áberandi í tónlistinni (og víðar). Ýmsir voru þó til að hampa sveitinni áfram, gerðar hafa verið um hana heimildamyndir og henni hefur verið gerð góð skil í hvers kyns uppgjöri á tónlist hvort sem er í bókum eða uppgjörslistum. Í gegnum árin hafa alls kyns aukaútgáfur komið út af lögum og plötum sveitarinnar, margar auðvitað ólöglegar og óopinberar – m.a. tónleikaplötur, og þá eru óteljandi útgáfur af lögum hennar á safnplötum.

Sykurmolarnir eru án nokkurs vafa ein vinsælasta hljómsveit Íslands fyrr og síðar þó segja megi í þeirra tilfelli að enginn sé spámaður í sínu föðurlandi enda áttu Íslendingar alltaf erfitt með að samþykkja hana, sveitin var alla tíð jaðarsett hér á landi og auðvitað einnig víðast hvar annars staðar til að byrja með en vann sig inn á almenna markaðinn með tónlist sinni. Þeir eru þó ennþá fjölmargir sem vilja meina að Molarnir hafi verið ofmetnir, vinsældir sveitarinnar hreinar ýkjur fáeinna blaðamanna hérlendis og tónlistin „ömurleg“ – og Björk auðvitað líka! Og þessu vilja sumir enn halda fram þótt sveitin hafi selt á þriðju milljón eintaka af breiðskífum sínum, þá er ótalinn fjöldi seldra smáskífna, hundruð tónleika í Evrópu, Ameríku, Asíu og Ástralíu fyrir milljónir manna. Stærsta viðurkenningin sem sveitin hefur hlotið hérlendis er líklega heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna sem henni hlotnaðist árið 2014.

Og það er e.t.v. lýsandi fyrir stöðu Sykurmolanna hér á landi að þegar sveitin kom saman haustið 2006 í tilefni af tuttugu ára afmæli hennar og hélt tónleika í Laugardalshöll, að þá var ekki alveg uppselt á tónleikana en hins vegar komu um þúsund gestir erlendis frá til að líta sveitina augum.

Efni á plötum