Afmælisbörn 16. ágúst 2016

Rútur Hannesson

Rútur Hannesson

Þrjú afmælisbörn eru á skrá í dag:

Sigurður (Pétur) Bragason baritónsöngvari er sextíu tveggja ára. Sigurður nam söng og tónfræði frá Tónlistarskólanum í Reykjavík en stundaði síðan framhaldsnám á Ítalíu og Þýskalandi. Hann hefur sungið ýmis óperuhlutverk heima og erlendis, gefið út sjö plötur með söng sínum, auk þess að stýra nokkrum kórum s.s. Kór Kvennaskólans, Kammerkór Reykjavíkur og Árnesingakórnum. Sigurður var formaður Félags íslenskra söngvara um tíma og gegndi stöðu bæjarlistamanns Kópavogs 1989.

Ólafur Þórðarson (Óli í Ríó tríó) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 2011. Ólafur fæddist á Akureyri 1949 en flutti ungur í Kópvoginn þar sem hann starfaði í nokkrum þjóðlagatríóum áður en Ríó tríó kom til sögunnar. Sú sveit starfaði í áratugi og gaf út tugi hljómplatna en einnig gaf Ólafur út tvær sólóplötur. Hann starfrækti umboðsskrifstofuna 1000 þjalir um tíma en undir það síðasta starfaði hann með South river band sem hefur gefið út nokkrar plötur.

Rútur Hannesson harmonikkuleikari átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést 1984. Rútur (f. 1920) lék með fjölmörgum hljómsveitum hér á árum áður en starfrækti einnig sjálfur sveitir, hann kom oft einn fram með nikkuna og lék á sveitaböllum. Rútur starfaði ennfremur sem organisti í Hafnarfirði um árabil, kom að stofnun Lúðrasveitar Hafnafjarðar og kom að tónlistarlífinu í bænum með margs konar hætti.