Ikarus (1983-84)

ikarus

Ikarus

Hljómsveitin Ikarus (Íkarus) varð til upp úr sólóverkefni Tolla Morthens (Þorláks Kristinssonar) og vakti feikimikla athygli á sínum tíma fyrir beinskeitta ádeilutexta.

Upphafið að stofnun sveitarinnar má rekja til þess að sumarið 1983 var Tolli að vinna að sólóefni fyrir plötu sem til stóð að Grammið gæfi út, efni sem hafði verið samið á þeim tíma sem hann var farandverkamaður en Tolli var um þetta leyti að ljúka námi við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

Megas kom þá til sögunnar og í kjölfarið voru þeir Bragi Ólafsson bassaleikari, Bergþór Morthens gítarleikari (bróðir Tolla) og Kormákur Geirharðsson trommuleikari kallaðir til og hljómsveitin Ikarus stofnuð. Sveitin æfði í viku eða tíu daga og svo var farið í hljóðverið Grettisgat þar sem efnið var fest á band.

Nafnið Ikarus kom þannig til að Strætisvagnar Reykjavíkur höfðu nokkru áður fest kaup á nokkrum ungverskum strætisvögnum með þessu nafni en gæði þeirra voru umdeild. Síðar tengdu þeir félagar einnig söguna af Ikarusi í grísku goðafræðinni við sveitina.

Ikarus vann plötuna með þeim Tolla og Megasi, og hún kom út um haustið undir nafninu The boys from Chicago og voru Tolli & Ikarus titlaðir fyrir henni, Megas var einn hljómsveitarmeðlima en það var í fyrsta skipti sem hann var í hljómsveit.

Lög plötunnar voru tuttugu og eitt að tölu og þótti mörgum nóg um, enda höfðu gagnrýnendur orð á því að hún væri of löng og fyrir vikið týndust mörg laganna. Fyrri hliðin á plötunni var órafmögnuð en sú síðari öllu rokkaðri.

ikarus2

Ikarus ásamt fylgdarliði

Textarnir voru rammpólitískir og nokkuð harðorðari en menn áttu að venjast en þóttu vel yfir meðallagi. Megas átti fjögur laganna og Krókódílamaðurinn birtist þarna í fyrsta skipti útgefið á plötu. Lag og texti Tolla, Kyrrlátt kvöld við fjörðinn vakti einnig athygli en Bubbi Morthens bróðir hans og hljómsveitin Utangarðsmenn höfðu áður flutt textann við annað lag á plötunni Geislavirkir (1980) en síðarnefnda lagasmíðin hefur komið út í ótal útgáfum síðan.

Platan hlaut góðar viðtökur gagnrýnenda, hún fékk t.d. góða dóma í tímaritinu Samúel, í Helgarpóstinum og Þjóðviljanum og enn betri í DV, Poppbók Jens Guðmundssonar og Æskunni (sem Jens skrifaði reyndar einnig fyrir).

Í kjölfar útgáfu plötunnar fór sveitin á flug og lék nokkuð á tónleikum en Megas var þá að koma fram opinberlega í fyrsta skipti eftir fimm ára sjálfskipaða útlegð. Ikarus lék t.a.m. á frægum tónleikum sem báru yfirskriftina Við krefjumst framtíðar en breska sveitin Crass var aðalnúmerið á þeim tónleikum. Það kvöld lék Ikarus í fyrsta sinn opinberlega lagið Svo skal böl bæta sem Megas samdi og söng.

The boys from Chicago var ekki fyrr komin út en þeir Ikarus-liðar voru aftur komnir í hljóðver og tóku þá upp plötu sem hljómsveit, þar sem hver og einn lagði lög og texta í púkkið. Þeir félagar sungu allir sín lög og var platan mun meira samvinnuverkefni en sú fyrri hafði verið.

Nýja platan sem hlaut titilinn Rás 5-20 kom út vorið 1984 og var tíu laga. Rás 5-20 var létt skot á hljómplötuútgáfuna Spor sem hafði þá hrundið af stað seríu af safnplötum sem hétu Rás 3 og Rás 4. Rás 5-20 kom í veg fyrir að fleiri plötur kæmu út í þeirri útgáfuröð.

Hún hlaut eins og sú fyrri góða dóma t.d. í NT, Þjóðviljanum og DV, þokkalega dóma í Morgunblaðinu og tímaritinu Samúel en mjög slaka í Helgarpóstinum. Fyrrnefnt lag, Svo skal böl bæta hefur einna lengst lifað af plötunni en það er auðvitað löngu síðan orðið sígilt í meðförum Megasar og Ikarusar.

Með útgáfu Rásar 5-20 lauk sögu Ikarusar, plötunni var ekkert fylgt eftir með tónleikahaldi þar sem Tolli var í framhaldsnámi í myndlistinni í Vestur Þýskalandi og Kormákur einnig erlendis.

Lög af plötunum hafa hins vegar komið út á safnplötum eins og Geyser (1987) og safnplötum Megasar.

Efni á plötum