Tolli Morthens (1953-)

Tolli (Þorlákur Kristinsson)

Myndlistamaðurinn Tolli Morthens (Þorlákur Kristinsson) er með þekktari listamönnum samtímans hérlendis en áður en myndlistin kom til sögunnar fyrir alvöru var hann þekktur baráttumaður fyrir réttindum farandverkamanna og notaði þá tónlist m.a. til að tjá skoðanir sínar, m.a. í félagi við bróður sinn, Bubba Morthens.

Þorlákur (Hilmar) Kristinsson Morthens fæddist í Reykjavík 1953 og ólst upp í Vogahverfinu sem þá var að byggjast upp en sumrunum eyddi hann gjarnan uppi í Kjós þar sem fjölskyldan var með sumarhús. Tolli var af listafólki kominn, faðir hans, Kristinn Mortens var listmálari og móðir hans fékk einnig eitthvað við listina, bræður hans Bubbi og Bergþór áttu eftir að vera viðloðandi tónlist og sjálfur fékk hann ungur áhuga á teiknun og málun sem hann lagði til hliðar á unglingsárum – í bili.

Þegar Tolli var u.þ.b. fimmtán ára kenndi Bubbi yngri bróðir hans honum á gítar og þá fór hann að reyna fyrir sér með efni eftir Woody Guthrie, Bob Dylan og fleiri þjóðlagatónlistamenn. Tolli gerðist farandverkamaður 1971 og vann þá við fiskvinnslu og fleiri störf víða um land, fyrst á Norðfirði en síðar á stöðum eins og Eskifirði, Grindavík, Höfn í Hornafirði, Keflavík og Vestmannaeyjum.

Um miðjan áttunda áratuginn var Tolli farinn að semja tónlist sjálfur og 1976 eða 77 hóf hann að flytja efni sitt opinberlega ásamt Bubba bróður sínum á samkomum tengdum launa- og aðbúnaðarbaráttu farandverkamanna en Tolli var framarlega í réttindamáum þeirra og reyndar í forsvari um tíma og vakti þar verulega athygli. Hann kom einnig fram með tónlist sína t.d. á kosningafundum K-listans (Kommúnistaflokksins) sumarið 1978 og samkomum Rauðsokka, sem hann studdi. Þeir bræður voru síðan ásamt fleirum í Gúanóbandinu svokallaða veturinn 1979-80 en þaðan er hugtakið gúanórokk komið, sem framan af var notað um tónlist Bubba þegar hann sló í gegn 1980. Þess má svo geta að Tolli lék og söng í uppfærslu á söngleiknum Skeifu Ingibjargar sem Kamarorghestar [Jónasar Vest] settu á svið haustið 1978.

Textar eftir Tolla komu nokkuð við sögu á plötum Bubba framan af, hann samdi t.a.m. aukaerindið við lagið Sigurður er sjómaður sem Utangarðsmenn Bubba gáfu út á plötunni Geislavirkir (1980) en þar rokkaði sveitin upp lag Jónatans Ólafssonar, Laus og liðugur við texta Núma Þorbergs. Hann samdi einnig textann við lagið Kyrrlátt kvöld á sömu plötu en bæði þessi lög eru minnisvarðar um tónlistarsprenginguna sem kom með Bubba á sínum tíma og eru löngu orðin klassík. Þá samdi Tolli texta við lög eins og MB. Rosinn, Heróín, Bústaðir og Þú hefur valið á plötum Bubba.

Tolli var um tíma á sjónum 1980 og var því sjálfur lítið áberandi í tónlistinni um það leyti, hann annaðist þó skipulagningu og var í forsvari fyrir tónleika sem báru yfirskriftina Rokk gegn her (um haustið 1980), hann var einnig hvatamaður að sams konar verkefni 1983, þá voru það tónleikarnir Rokk gegn kreppu og atvinnuleysi.

Tolli á níunda áratug síðustu aldar

Fljótlega eftir að Tolli hætti á sjónum urðu straumhvörf í lífi hans og hann ákvað að mennta sig í myndlist en hann hafði eins og kemur fram hér að framan teiknað og málað sem barn, og þótt efnilegur. Næstu árin heyrðist því lítið sem ekkert frá honum á opinberum vettvangi en um vorið 1983 bárust þær fréttir að plata væri væntanleg þá síðsumars með honum og hljómsveit sem kallaðist Ikarus og var sérstaklega sett saman fyrir það verkefni. Sú sveit var skipuð auk Tolla stórum nöfnum úr pönk- og nýbylgjugeiranum sem þá hafði að mestu hjaðnað, þeim Braga Ólafssyni úr Purrki Pillnikk, Kormáki Geirharðssyni úr Q4U, Bergþóri Morthens bróður Tolla og sjálfum Magnúsi Þór Jónssyni, Megasi sem hafði þá ekki komið fram opinberlega í nokkur ár.

Platan var útskriftarverkefni Tolla út Myndlista- og handíðaskólanum og bar heitið The boys from Chicago, sem var sneið til kapítalismans en titillinn var bein skírskotun til Miltons Friedman og hagfræðinganna í kringum hann sem komu úr Chicago háskóla.

Platan, sem segja má að sé sólóplata Tolla, hafði verið tekin upp í Grettisgati eftir fárra daga æfingaferli en lögin voru flest eftir Tolla, samin á farandverkamannaárunum. Stórsmell plötunnar átti þó Megas, Krókódílamanninn sem fyrir löngu hefur skipað sér sess meðal hans bestu. Á plötunni var einnig að finna lagið Kyrrlátt kvöld við fjörðinn, textann sem áður hafði komið út á plötu Utangarðsmanna en að þessu sinni við lag Tolla. Tolli og Megas önnuðust sönginn en þeir höfðu kynnst í myndlistaskólanum þar sem Megas var einnig við nám. Platan hlaut almennt mjög góðar viðtökur, mjög góða í DV, Æskunni og Poppbók Jens Guðmundssonar, og góða í Helgarpóstinum, Samúel og Þjóðviljanum. Grammið gaf plötuna út. Þess má geta að Kristinn Morthens, faðir Tolla kemur lítillega við sögu á plötunni.

Tolli Morthens

Þarna um sumarið var mikið að gera hjá Tolla og Ikarus í tónlistinni, sveitin fór á fullt að kynna plötuna og lék töluvert opinberlega, enda vakti endurkoma Megasar töluvert mikla athygli. Þetta sumar lék Tolli einnig í kvikmyndinni Skilaboð til Söndru.

Samtímis öllum þessum verkefnum fóru þeir Ikarus-félagar strax aftur í hljóðver og tóku nú upp aðra plötu en á allt öðrum forsendum, um var að ræða samvinnuverkefni í þetta sinnið en ekki sólóverkefni Tolla, og því lögðu allir í púkkið.

Upptökurnar urðu að ganga hratt fyrir sig því um haustið fór Tolli til framhaldsnáms í Vestur-Berlín og þar með var hann ekkert viðloðandi kynningu á plötunni sem kom út vorið 1984, undir merkjum Grammsins einnig. Það má því segja að tónlistarferill hans hafi endað með nokkuð snubbóttum hætti.

Tolli hefur því lítið flutt tónlist opinberlega síðan sumarið 1983 þótt það hafi þó vissulega gerst. Ein af fáu tónlistartengingum Tolla hin síðari ár er plötuumslagið á plötu Bubba Morthens, Von (1992), sem hann málaði.

En við þessi tímamót tók við myndlistarferill Tolla sem ekki verður séð fyrir endann á. Hann lauk námi í Vestur-Þýskalandi 1985 og hefur síðan skapað sér stórt nafn í listaheiminum hér heima og er án nokkurs vafa eitt af þekktustu og stærstu nöfnum samtímans í myndlist hér á landi, hann hefur haldið fjölda myndlistasýninga hér heima og erlendis.

Tolli hefur einnig sent frá sér nokkrar bækur, tengdar myndlistinni og öðrum hugðarefnum.

Efni á plötum