In bloom (1994-97)

in-bloom3

In bloom

In bloom var grungesveit ættuð úr Breiðholtinu og starfaði um tíma í Bandaríkjunum, ein plata leit dagsins ljós.

Sveitin var stofnuð haustið 1993 og voru upphaflegu meðlimir hennar Sigurjón Brink trommuleikari, Sigurgeir Þórðarson söngvari, Albert S. Guðjónsson bassaleikari, Úlfar Jacobsen gítarleikari og Hörður Þór Torfason gítarleikari. Nafn sveitarinnar kemur úr lagatitli með hljómsveitinni Nirvana sem þá hafði nokkru áður gefið út plötuna Nevermind.

Fyrst um sinn fór fremur lítið fyrir sveitinni en lög með henni fóru síðan að koma út á safnplötum eins og Ýkt böst (1994), Popp(f)árið ´95 (1995), Pottþétt 1 (1995) og Pottþétt 4 (1996). Síðar kom einnig út lag með sveitinni á safnplötunni Icelandic rock favourites (2000).

In bloom fór til Los Angeles í stutta ferð, tók upp efni og gerði myndband auk þess að spila þar á fáeinum tónleikum. Sveitin hélt áfram að taka upp tónlist í Grjótnámunni sem að mestu leyti var eftir Sigurjón trommara og um vorið 1996 kom út plata samnefnd henni, gefin út af Spor. Um það leyti hætti Sigurjón í sveitinni og tók Jóhann Rafnsson sæti hans. Platan vakti nokkra athygli og fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu en fleiri virðast ekki hafa birst. Platan var tileinkuð minningu Bjarka Friðrikssonar og Halldórs Ásmundssonar.

in-bloom1996

In bloom 1996

Um haustið 1996 fór In bloom aftur til Bandaríkjanna og eftir það heyrðist ekki mikið frá henni, hún starfaði þar um tíma og mun hafa átt lag í sjónvarpsmynd þar vestra.

Sveitin starfaði eitthvað áfram eftir að þeir félagar komu heim og var enn starfandi haustið 1997, hvenær In bloom hætti liggur þó ekki alveg fyrir. Artificial flavors var síðar stofnuð upp úr In bloom en starfaði ekki lengi.

Efni á plötum