Inga Jónasar (1926-2012)

inga-jonasar2

Inga Jónasar

Inga Jónasar tónlistarkona frá Suðureyri við Súgandafjörð var allt í senn, söngkona, trúbador og söngkennari, hún samdi ennfremur lög og texta og gaf út snældu með eigin lögum.

Inga Jónasar (Ingibjörg Jónasdóttir) fæddist 1926 á Siglufirði og var tónlist henni í blóð borin en faðir hennar var Jónas Sigurðsson harmonikkuleikari. Fjölskyldan fluttist til Suðureyrar við Súgandafjörð þegar Inga var um fimm ára aldur og þar átti hún eftir að búa mest alla ævi.

Inga hóf snemma að semja lög og texta, og var ófeimin að koma fram og syngja eigin lög við gítarundirleik en hún kenndi sér sjálf á gítar að mestu. Það var því eðlilegt að hún væri fengin til að semja efni fyrir skemmtanir í heimabyggð, s.s. þorrablót o.þ.h.

Sumarið 1954 starfaði Inga á höfuðborgarsvæðinu og svo fór að hún sigraði söngkeppni sem haldin var á skemmtistaðnum Röðli og voru verðlaunin tveggja mánaða söngsamningur með Hljómsveit Árna Ísleifs. Ári síðar söng hún með Hljómsveit Hauks Sveinbjarnarsonar og löngu síðar (1980) með hljómsveitinni Fjórum félögum sem lék gömlu dansana í Hreyfilshúsinu, en að öðru leyti var hún mestmegnis ein með gítarinn. Hún mun ennfremur hafa starfrækt um tíma einhvers konar söngskóla fyrir börn á Suðureyri.

inga-jonasar

Inga með gítarinn

Inga starfaði mest alla tíð við fiskvinnslu, verslunarstörf og skólaakstur og var tónlistin alltaf aukabúgrein ef svo mætti segja. Þegar hún varð sextug gaf fjölskyldan henni þrjá tíma í hljóðver sem hún nýtti vægast sagt vel. Tveir þeirra voru notaðir til upptöku á frumsömdum lögum hennar þar sem hún söng og lék undir á gítar, og síðasti tíminn fór í fjölföldun á efninu sem gefið var út á snælduformi undir titlinum Vinnukonugripin árið 1993.

Inga Jónasar flutti ásamt eiginmanni sínum suður til Reykjavíkur 1997 vegna heilsubrests og átti hún eftir að skemmta m.a. á eilliheimilum og víðar á höfuðborgarsvæðinu.

Inga lést haustið 2012, áttatíu og sex ára gömul.

Efni á plötum