Ingibjörg Sigurðardóttir frá Bjálmholti (1909-98)

ingibjorg-sigurdardottir-bjalmholti1

Ingibjörg Sigurðardóttir frá Bjálmholti

Tónlist Ingibjargar Sigurðardóttur frá Bjálmholti kom óvænt upp á yfirborðið þegar sveitungi hennar kynntist henni og stóð fyrir útgáfu á lögum eftir þessa alþýðukonu.

Ingibjörg (Kristín) Sigurðardóttir, venjulega kölluð Minna, fæddist 1909 og bjó alla tíð í Bjálmholti í Rangárvallasýslu þar sem hún var borin og barnfædd.

Minna hóf snemma að semja tónlist og líkast til var hún um sex ára aldur þegar hún fyrst setti saman lagstúf. Hún hlaut litla tónlistarmenntun, hafði hlotið einhverja leiðsögn hjá Ísólfi Pálssyni og Margréti Ísólfsdóttur dóttur hans og var því fær um að lesa og rita nótur. Að mestu leyti var hún þó sjálfmenntuð í tónlist en hún lék bæði á orgel og harmonikku, Minna kom þó aldrei fram opinberlega til að flytja tónlist sína svo þekkt sé.

Það var í raun á fárra vitorði að Minna semdi tónlist en þegar sveitungi hennar úr hreppnum, Jón Þórðarson kynntist henni kom honum fljótlega í hug að gefa lög hennar út á nótum. Reyndar fór svo að farið var alla leið með hugmyndina og plata með þrjátíu og sex lögum eftir tónskáldið kom út haustið 1997, auk um níutíu laga nótnaheftis en Minna var þá áttatíu og átta ára gömul.

Einhver laganna höfðu áður verið gefin út á nótum fyrir tilstilli dr. Hallgríms Helgasonar, einhver þeirra höfðu ennfremur verið flutt í útvarpi en engin þeirra höfðu komið út á plötum.

Jón gaf sjálfur út plötuna en naut aðstoðar Guðjóns Halldórs Óskarssonar kórstjórnanda og organista sem fékk til liðs við sig fjöldann allan af tónlistarfólki úr heimabyggð og víðar, bæði kóra, einsöngvara og annað tónlistarfólk. Sjálf lék Minna lokalag plötunnar á harmonikku. Upptökur fóru fram á höfuðborgarsvæðinu og víðar undir stjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar, Didda fiðlu.

Platan fékk titilinn Heyrði ég í hamrinum, 75 ára yfirlit í flutningi einsöngvara og kóra: Lög Ingibjargar Sigurðardóttur, Bjálmholti í Rangárvallasýslu, og hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu. Eðli málsins samkvæmt seldist platan best í sýslunni en um fjögur hundruð manns sóttu útgáfutónleika sem haldnir voru að Laugalandi í Holtum.

Minna lést rétt tæplega ári síðar (haustið 1998) þá komin fast að níræðu en lög hennar munu lifa með útgáfu plötunnar og nótnaheftisins.

Efni á plötum