Ingibjörg Þorbergs (1927-2019)

ingibjorg-thorbergs7

Ingibjörg Þorbergs á yngri árum

Ingibjörg Þorbergs er án nokkurs vafa eitt af stóru nöfnunum í íslenskri tónlistarsögu, hún söng og samdi fjölda þekktra laga og texta sem komið hafa út á ótal plötum, hún átti einnig þátt í að móta íslenskt útvarp með tilliti til barnaefnis og ekki hvað síst í að varða leið kvenna í íslenskri tónlist með framlagi sínu.

Ingibjörg Kristín Þorbergsdóttir fæddist í Reykjavík haustið 1927 og snemma varð ljóst að tónlistin var henni í blóð borin, hún var af tónelsku fólki komin og var aðeins níu ára gömul þegar hún samdi sitt fyrsta lag.

Ingibjörg byrjaði snemma að syngja, var t.d. í Sólskinsdeildinni sem var barnakór og starfaði á fimmta áratug síðustu aldar. Hún söng einsöng í útvarpinu aðeins tólf ára gömul en þá var hún þegar farin að læra á hljóðfæri. Hún lærði bæði á gítar, orgel og píanó en lagði síðan stund á klarinettuleik og varð fyrst íslensk kvenna til að ljúka einleikaraprófi á blásturhljóðfæri, og reyndar fyrsti Íslendingurinn til að ljúka prófi á klarinettu. Aukinheldur lærði hún til tónmenntakennara.

Ingibjörg var aðeins nítján ára gömul er hún hóf störf hjá Ríkisútvarpinu en það var rétt eftir stríðslok, 1946. Fyrstu þrjú árin starfaði hún á innheimtudeild útvarpsins en síðan fluttist hún yfir á tónlistardeildina þar sem hún átti eftir að starfa bróðurpartinn af starfsævinni. Hún tók við óskalagaþættinum Óskalögum sjúklinga 1952 af Birni R. Einarssyni sem hafði verið með þáttinn á undan, og annaðist þá þáttagerð í fjögur ár við miklar vinsældir – reyndar svo mjög að þegar hún tók sér eitt sinn þriggja vikna sumarfrí ætlaði allt um koll að keyra. Hún annaðist einnig þáttagerð fyrir börn en hún átti stóran þátt í að móta útvarpsefni fyrir þann aldurshóp í Ríkisútvarpinu á þessum fyrstu áratugum útvarpsreksturs á Íslandsi, auk þess fékkst hún við ýmis þula- og þáttastörf.

ingibjorg-thorbergs6

Ingibjörg lærði snemma á gítar

Um 1950 var Ingibjörg farin að syngja nokkuð opinberlega, bæði ein en einnig með Smárakvartettnum og Marz bræðrum sem einnig var sönghópur, ennfremur með hljómsveitum Carls Billich og Aage Lorange. Hún var með fyrstu dægurlagasöngvurum hérlendis en slíkur söngur á dansleikjum átti lítt við hana og féll hún því fljótlega frá þeirri tegund tónlistargeirans. Hún söng aftur á móti í kórum, t.d. í Útvarpskórnum, Tónlistarfélagskórnum og Þjóðleikhúskórnum sem hún söng reyndar með í um tuttugu og fimm ár.

Þrátt fyrir að söngur á dansleikjum hugnaðist Ingibjörgu ekki lagði hún dægurlagasöng fyrir sig og átti eftir að syngja inn á fjölmargar hljómplötur og varð sjötti áratugurinn henni sérlega afkastamikill hvað plötuútgáfu varðar.

Fyrstu tvær plöturnar kom út á vegum Fálkans haustið 1953, á fyrri plötunni sem var tveggja laga eins og flestar plötur á þeim tíma, söng hún lögin Hríslan og lækurinn og Játning ásamt Smárakvartettnum í Reykjavík en Carl Billich lék undir á píanó.

Hin platan hafði að geyma þrjú lög, tvö lög sem báru titilinn Bangsimonlögin og síðan lagið Litli vin. Bangsimon lögin voru eftir Ingibjörgu sjálfa en Helga Valtýsdóttir sem þá hafði verið að lesa Bangsímon-sögu fyrir börn í útvarpinu, óskaði eftir því við hana að hún semdi lög tengt efninu.

Um sama leyti um haustið 1953 kom út plata á vegum Íslenzkra tóna en á þeirri plötu sungu þau Ingibjörg og Alfreð Clausen lögin Á morgun og Stefnumótið við undirleik Hljómsveitar Carls Billich. Bangsimonlögin tvö og Á morgun, sem einnig var eftir Ingibjörgu, voru fyrstu þrjú lögin sem íslensk kona hafði samið og flutt sjálf á plötu.

Ingibjörg sló í gegn með plötum sínum og lögum, og fleiri fylgdu í kjölfarið. Tvær plötur litu dagsins ljós á fyrri hluta ársins 1954, Mamma mín / Pabbi minn og Oh my papa / Trying, Hljómsveit Carls Billich lék undir á þeim báðum en lögin áttu bara eftir að styrkja Ingibjörgu í sessi.

ingibjorg-thorbergs4

Í þularstarfinu

Ekki löngu síðar komu út tvær plötur sem Ingibjörg söng á ásamt Alfreð, þetta voru lögin Ég vildi að ung ég væri / Þín hvíta mynd og Harpan ómar / Þórður sjóari. Á fyrri plötunni samdi Ágúst Pétursson lögin en Sigfús Halldórsson á þeirri síðari.

Einnig kom út plata á vegum Músíkbúðarinnar Tóniku þar sem Ingibjörg og Ragnar Bjarnason sungu tvö lög, All of me og Nótt, það var KK-sextett sem lék undir söngnum á þeirri plötu.

Mörg laganna voru endurútgefin þetta sama ár á fjögurra laga plötum sem voru þá eins konar safnplötur, með söng söngvara eins og Ingibjargar, Alfreðs, Sigurveigar Hjaltested, Sigurðar Ólafssonar og Sigfúsar Halldórssonar.

Enn komu út plötur með söng Ingibjargar sem á þessum tímapunkti hafði skipað sér meðal fremstu dægurlagasöngvara samtímans. Á næstu tveggja laga plötu var að finna stórsmellinn Nú ertu þriggja ára sem enn í dag heyrist reglulega spilað í útvarpi en hitt lagið var Rósin mín. Hljómsveit Carls Billich lék undir söng Ingibjargar á þessari plötu en á næstu plötu lék hún sjálf ein á gítar við eigin söng. Það voru lögin Aravísur og Börnin við tjörnina en fyrra lagið var eftir Ingibjörgu sjálfa og kom henni endanlega á kortið sem lagahöfundur. Stefán Jónsson samdi ljóðið við lagið en Jenni Jóns lag og texta við síðara lagið.

En útgáfusögu Ingibjargar var enn ekki lokið 1954 því tveggja laga jólaplata kom út og varð að mörgu leyti tímamótaplata í íslenskri tónlistarsögu. Fyrra lag plötunnar heitir Hin fyrstu jól og var samið af Ingibjörgu við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk og er án nokkurs vafa fyrsta íslenska jólalagið sem kom út á plötu sem ekki var sálmur. Hitt lagið var erlent lag, Klukknahljóð, við ljóð Lofts Guðmundssonar.

ingibjorg-thorbergs3

Ingibjörg Þorbergs

Ingibjörg lét sér ekki nægja að semja þetta fyrsta íslenska jólalag heldur stjórnaði hún upptökum, útsetti lögin og söng þau, stjórnaði hljómsveitinni sem lék undir og stjórnaði barnakór sem söng með henni á plötunni. Hún var þannig fyrst íslenskra kvenna til að koma svo rækilega að útgáfu einnar plötu og sjálfsagt voru dæmin ekki mörg væru karlkyns tónlistarmenn einnig teknir með, ef nokkur.

Þess má geta einnig að Ingibjörg samdi enskan texta við Hin fyrstu jól og grínaðist reyndar með það síðar að hún hefði líklega verið fyrst Íslendinga til að fara í poppútrás erlendis þegar lagið var flutt við eitthvert tækifæri á erlendri grundu.

Á árinu 1954 kom Ingibjörg við sögu á ellefu plötum en það varð afkastamesta árið hvað útgáfu varðar í hennar tilfelli. 1955 kom einungis út ein plata með söngkonunni en á henni söng hún tvö lög með Marz bræðrum, Í dansi með þér / Litli skósmiðurinn, Hljómsveit Jan Morávek lék undir.

1956 var einnig fremur rólegt hvað útgáfu varðar hjá Ingibjörgu en önnur tveggja laga plata með Marz bræðrum leit dagsins ljós, lögin Bergjum blikandi vín og Heillandi vor voru á þeirri plötu en síðarnefnda lagið hafði sigrað í sönglagakeppni SKT, einnig kom út 1956 fjögurra laga með áður útgefnum lögum en á henni söng Ingibjörg ásamt Alfreð Clausen, Jakobi Hafstein og Sigurði Ólafssyni.

Árið 1956 var hins vegar viðburðarríkt að öðru leyti hjá söngkonunni, hún hafði hætt með óskalagaþátt sjúklinga um vorið og fór í tveggja mánaða ferð um Bandaríkin um sumarið sem henni bauðst eftir að kór og hljómsveit frá The George Washington University kom hingað til lands í heimsókn, og hún hafði haft veg og vanda af undirbúningnum fyrir þá heimsókn. Í Bandaríkjunum kom Ingibjörg fram bæði í útvarpi og sjónvarpi í nokkur skipti og bauðst störf vestra í kjölfarið, m.a. plötusamningur hjá Capitol records. Ingibjörg hafnaði hins vegar tilboðunum, annars vegar vegna tímaskorts þar sem hún var að fara heim og fyrirvarinn til að taka svo stórar ákvarðanir stuttur, hins vegar vegna þess að show-bissnessinn heillaði hana ekki með sinni pressu og athygli.

Ingibjörg kom því heim aftur um haustið og starfaði áfram hjá Ríkisútvarpinu en auk þess kenndi hún um tíma tónlist, hún varð ekki eins áberandi á útgáfusviðinu næstu árin á eftir og endurútgáfur voru jafn fyrirferðamiklar á markaðnum.

ingibjorg-thorbergs5

Gítarinn ávallt skammt undan

Árið 1959 kom út á vegum Íslenzkra tóna fjögurra laga platan Ingibjörg Þorbergs syngur fyrir börnin. Á henni var að finna Aravísur og Börnin við tjörnina sem áður höfðu komið út en einnig tvö önnur lög, Guttavísur og Stjánavísur. Fyrrgreinda lagið var eftir Bellmann en síðar lagið eftir Ingibjörgu sjálfa, Stefán Jónsson samdi ljóðin.

Ári síðar kom önnur fjögurra laga plata út, sem með réttu mætti kalla safnplötu en á þeirri plötu sungu Ingibjörg, Óðinn Valdimarsson, Sigurður Ólafsson, Sigurveig Hjaltested og Sigfús Halldórsson sitt lagið hvert, lag Ingibjargar var Kvölds í ljúfum blæ sem venjulega gengur undir nafninu Man ég þinn koss en það er erlent lag sem margir þekkja undir nafninu Little things mean a lot. Það var Þorsteinn Sveinsson sem íslenskaði það.

Sjöundi áratugurinn gekk í garð og Ingibjörg hélt sínu striki hjá tónlistardeild Ríkisútvarpins, þar átti hún eftir að starfa fram á miðjan níunda áratuginn, undir það síðasta sem varadagskrárstjóri og dagskrárstjóri, söngvarinn Ingibjörg var hins vegar lítt áberandi.

1967 hóf hún að skrifa fyrir barnablaðið Æskuna, ritaði þar gítarkennslugreinar sem nutu vinsælda og munu mörg börn hafa lært á gítar undir handleiðslu Ingibjargar í blaðinu, tónlistarmaðurinn Eyjólfur Kristjánsson sagðist t.a.m. í blaðaviðtali á sínum tíma hafa lært á gítar fyrir tilstilli Æskunnar.

En Ingibjörg var öflug á öðrum vígstöðvum einnig, hún ritaði fjölmörg útvarpsleikrit fyrir börn og annað efni tengt þeim. Ingibjörg Jónsdóttir hafði skrifað sögu fyrir börn sem flutt hafði var í útvarpinu 1962, síðar var gert barnaleikrit við söguna undir yfirskriftinni Ferðin til Limbó en sagan fjallaði um tvo músarunga sem lenda á hnettinum Limbó. Leikritið var sett á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu veturinn 1965-66 og Ingibjörg Þorbergs samdi tuttugu lög sem voru í leikritinu. Þrjú þeirra komu út á sex laga plötu á vegum Fálkans 1969 en þar söng Ingibjörg og Guðrún Guðmundsdóttir lögin við undirleik Carls Billich. Hin lögin þrjú voru barnalög eftir Ingibjörgu einnig.

Hér verður hlé á útgáfusögu Ingibjargar Þorbergs og mætti segja að á tímabili hafi hún lifað á fornri frægð, lögin hennar um Ara og Gutta, jólalagið Hin fyrstu jól, Litli vin og Nú ertu þriggja ára lifðu góðu lífi og urðu með tímanum klassísk en fyrir jólin 1987 þegar Ingibjörg varð sextug kom út plata á vegum Hljóðakletts sem hafði að geyma tíu jólalög hennar í útsetningum Ríkarðar Arnar Pálssonar.

ingibjorg-thorbergs-og-gudrun-gudmundsdottir

Ingibjörg Þorbergs og Guðrún Guðmundsdóttir

Platan, sem hét Hvít er borg og bær, sló samstundis í gegn og fleytti Ingibjörgu aftur á þann tónlistarstall sem hún hafði verið komin á um miðjan sjötta áratuginn. Gamli slagarinn Hin fyrstu jól var þarna í nýjum búningi Hljómeykis en önnur lög voru ný og urðu mjög vinsæl mörg hver, þar má nefna Jólabros í jólaös í flutningi Egils Ólafssonar, Jólakötturinn með Björk Guðmundsdóttur og Grýlukvæði í meðförum meistara Megasar. Sjálf söng Ingibjörg eitt laganna, Barnagælu frá Nýja Íslandi.

Ekki voru allir reyndar á eitt sáttir um meðferð fegurðardrottningarinnar Hólmfríðar Karlsdóttur á laginu Jólin eru að koma sem hún söng með Barnakór Kársnesskóla en almennt fékk platan góðar viðtökur, mjög góða dóma í DV og ágæta í Morgunblaðinu. Smekkleysa endurútgaf plötuna 2001.

Hvít er borg og bær er að öllum líkindum fyrsta alíslenska jólaplatan hérlendis og enn á ný varð Ingibjörg Þorbergs leiðandi frumkvöðull í plötuútgáfu á Íslandi.

Árið 2005 komu út tvær plötur með tónlist Ingibjargar Þorbergs, annars vegar það platan Í sólgulu húsi en á þeirri plötu söng Ingibjörg eigin lög við ljóð Kristjáns Hreinssonar, Skerjafjarðarskáldsins svokallaða en titill plötunnar vísaði til hússins sem hann bjó í en Ingibjörg hafði leikið sér í sama húsi sem barn. Ingibjörg söng á þessari plötu við undirleik Flís-tríósins og hlaut glimrandi viðtökur gagnrýnenda, hún hlaut t.d. mjög góða dóma í Morgunblaðinu og var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Ingibjörg var sjötíu og áttatíu ára gömul þegar platan kom út.

Hins vegar kom út þetta ár safnplatan Útvarpsperlur úr samnefndri útgáfuröð sem Ríkisútvarpið hafði þá sett á laggirnar en þær höfðu að geyma safnupptökur úr fórum Útvarpsins, upptökur sem hvergi höfðu verið gefnar út annars staðar.

Tveimur árum síðar (2007) kom út löngu tímabær safnplata á vegum Íslenskra tóna en á henni var að finna tuttugu og þrjú lög í flutningi Ingibjargar, frá ýmsum tímum. Það var Trausti Jónsson veðurfræðingur og áhugamaður um íslenska tónlist sem hélt utan um útgáfuna en þeir Megas (Magnús Þór Jónsson) og Þorvaldur Þorsteinsson rituðu um söngkonuna í bæklingi sem fylgdi plötunni. Þess má geta að Megas hafði lengi verið einlægur aðdáandi Ingibjargar og flutt Gutta- og Aravísur t.a.m. á plötunni Nú er ég klæddur og kominn á ról.

Ingibjörg Þorbergs1

Ingibjörg Þorbergs

Fleiri hafa tekið lög Ingibjargar og sett í eigin búning, þetta á einkum við um fyrrnefndar Guttavísur og Aravísur sem flytjendur eins og Bessi Bjarnason, Þórunn Antonía, Ingunn Gylfadóttir og Tómas Hermannsson, Dægurlagapönkhljómsveitin Húfa, Hundur í óskilum, Björgvin Franz Gíslason, Egill Ólafsson og margir fleiri hafa gefið út en einnig lög eins og Börnin við tjörnina (Björk), Nú ertu þriggja ára (Guðrún Gunnarsdóttir / Eivör Pálsdóttir) og Litli vin (Jón Kr. Ólafsson o.fl.) svo nokkur dæmi séu tekin. Þá eru ótalin lög Ingibjargar sem ratað hafa á safnplötur en þau lög og útgáfur skipta tugum.

Ingibjörg Þorbergs hlaut margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir ævistarf sitt og eru hér nefnd nokkur, hún fékk t.a.m. verðlaun fyrir enska ljóðið We‘re children of the world today í alþjóðlegri barnasöngvakeppni sem haldin var í tilefni af ári barnsins 1979, hún hlaut listamannalaun 1980 og styrki frá menntamálaráðuneytinu 1986 og 89, hún var kjörin heiðursfélagi FTT 1996, hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2003 og hlaut einnig fálkaorðuna. Ingibjörg var ennfremur bæjarlistamaður Kópavogs 2012 en hún bjó þar um árabil ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Jónssyni píanóleikara (1929-2010). Ingibjörg hafði fært Kópavogsbæ lag og ljóð eftir sig á 40 ára afmæli bæjarfélagsins 1995 og Kópavogsbær heiðraði hana á sjötugs afmæli hennar með útgáfu á söngvasafni með yfir 100 lögum eftir hana.

Það er ljóst að framlag Ingibjargar Þorbergs til íslensks tónlistarlífs verður seint metið að verðleikum. Hún samdi, útsetti, söng og gaf út fjöldann allan af lögum, eitthvað á annað hundrað laga og mikið af textum og ljóðum einnig, var fyrirmynd kvenna með starfi sínu og þurfti á sama tíma að berjast við karlaveldið, henni var t.d. hafnað þegar hún sótti um inngöngu í Tónskáldafélagið á sínum tíma. Störf hennar og framlag innan Ríkisútvarpsins eru sömuleiðis þess eðlis að þeim verður alltaf haldið á lofti sem og aðkoma hennar að tónlist fyrir börn.

Ingibjörg Þorbergs lést vorið 2019 á nítugasta og öðru aldursári.

Efni á plötum