Ingibjörg Þorbergs er látin, á nítugasta og öðru aldursári. Ingibjörg var fyrst og fremst tónskáld og mörg laga hennar hafa orðið þekkt, þeirra á meðal má nefna jólalagið Hin fyrstu jól sem fyrir löngu er orðið sígilt, þá þekkja allir Aravísur, Litli vin, Pabbi minn og Nú ertu þriggja ára og ekki má gleyma laginu um Jólaköttinn, í flutningi Bjarkar Guðmundsdóttur.
Ingibjörg (Kristín Þorbergsdóttir) fæddist í Reykjavík 1927 og þótti snemma ljóst að hugur hennar sneri til tónlistar, hún söng t.d. með barnakórnum Sólskinsdeildinni og lærði síðan á gítar, orgel og píanó en hún varð jafnframt fyrstur Íslendinga til að ljúka prófi á klarinettu. Hún var meðal fyrstu dægurlagasöngvara Íslands, kom þá fram með hljómsveitum Carls Billich og Aage Lorange og söng þá einnig inn á fjölmargar 78 snúninga plötur, þá fyrstu árið 1953. Dægurlagasöngurinn átti þó ekki alls kostar við hana og kaus hún fremur að syngja í kórum, Útvarpskórnum, Þjóðleikhúskórnum o.fl. Ingibjörgu bauðst jafnvel plötusamningur í Bandaríkjunum með tilheyrandi tónleikahaldi en það heillaði hana ekki. Á þessum árum kom hún fram sem lagahöfundur en mörg laganna sem komu út á plötum hennar samdi hún sjálf, þá kom fyrir að hún stjórnaði upptökum, útsetti, lék á hljóðfæri og stjórnaði hljómsveitum og kórum á plötum sínum.
Ingibjörg var alltaf viðloðandi tónlist með einum eða öðrum hætti þótt hún sneri baki við tónlistarferilinn, hún starfaði í áratugi hjá Ríkisútvarpinu, fyrst á innheimtudeildinni en síðan á tónlistardeildinni, annaðist þá þáttagerð við stofnunina, s.s. við Óskalög sjúklinga við miklar vinsældir auk þáttagerðar fyrir börn, um tíma gegndi hún stöðum varadagskrárstjóra og dagskrárstjóra. Ingibjörg ritaði um skeið greinar um gítarkennslu í barnablaðinu Æskunni og sagðist t.d. Eyjólfur Kristjánsson tónlistarmaður hafa lært á gítar með lestri þeirra greina. Hún ritaði fjölmörg útvarpsleikrit fyrir börn auk annars efnis fyrir yngri aldurshópana og einnig samdi hún tónlist við barnaleikritið Ferðin til Limbó sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu um miðjan sjöunda áratuginn. Hluti laganna komu út á plötu.

Ingibjörg með gítarinn
Það var svo haustið 1987 sem tónlistarmaðurinn Ingibjörg kom nokkuð fram á sjónarsviðið á nýjan leik þegar jólaplatan Hvít er borg og bær kom út en þar var að finna lög eftir hana í útsetningum Ríkarðs Arnar Pálssonar, platan sló í gegn og fjölmargt tónlistarfólk eins og Björk, Megas, Egill Ólafsson og Hljómeyki fluttu tónlistina. Árið 2005 komu út tvær plötur með tónlist Ingibjargar, sólóplatan Í sólgulu húsi þar Ingibjörg söng eigin lög við ljóð Kristjáns Hreinssonar, og safnplatan Útvarpsperlur í samnefndri safnplöturöð. Tveimur árum síðar (2007) kom svo út vegleg safnplata, Man ég þinn koss sem hafði að geyma tuttugu og þrjú lög frá ferli Ingibjargar. Lög Ingibjargar hafa komið út í ótal útgáfum annarra listamanna, og hún hlaut jafnframt margar viðurkenningar og verðlaun fyrir framlag sitt til tónlistarinnar, þeirra á meðal var Hin íslenska fálkaorða.
Með Ingibjörgu er fallinn frá einn merkasti tónlistarmaður íslenskrar tónlistarsögu, á annað hundrað útgefinna laga mun liggja eftir hana og áhrifa hennar gætir enn í dagskrárgerð fyrir börn, og barnamenningu almennt. Hún þurfti þó að berjast fyrir sínu og var t.a.m. umsókn hennar um inngöngu í Tónskáldafélagið á sínum tíma hafnað, líklega vegna þess að hún var kona og samdi m.a. tónlist fyrir börn.
Hér má lesa meira um Ingibjörgu Þorbergs.