Íslenska hljómsveitin [1] (1981-93)

islenska-hljomsveitin

Íslenska hljómsveitin

Íslenska hljómsveitin var sinfóníuhljómsveit sem starfaði á annan áratug á síðari hluta liðinnar aldar án opinberra styrkja að mestu.

Markmiðið með stofnun sveitarinnar var að gefa hæfileikaríku ungu tónlistarfólki tækifæri til að leika reglulega opinberlega en Sinfóníuhljómsveit Íslands var þá í raun eina starfandi hljómsveitin af því taginu og ekki gátu allir komist að þar. Nafn sveitarinnar kom til af því að sveitin átti að vera eingöngu skipuð íslenskum hljóðfæraleikurum.

Undirbúningur að stofnun sveitarinnar hófst vorið 1981 og um haustið var hún stofnuð formlega. Fyrstu tónleikarnir voru þó ekki haldnir fyrr en sléttu ári síðar. Það var Guðmundur Emilsson sem var hugmyndasmiðurinn á bak við stofnun sveitarinnar og varð hann aðalstjórnandi hennar lengstum, auk þess að gegna starfi framkvæmdastjóra.

Gert var ráð fyrir að meðlimir hennar yrðu á bilinu tuttugu til fjörutíu talsins og varð fjöldi þeirra venjulega við hærri mörkin. Fyrst um sinn var mikil hreyfing á meðlimum Íslensku hljómsveitarinnar, fólk kom og fór á leið sinni til og frá útlöndum í tónlistarnámi sínu en þegar á leið varð fastur kjarni í sveitinni. Nokkrir meðlimir léku einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands samhliða Íslensku hljómsveitinni.

Og hljómsveitin fékk fljúgandi start, fyrsta veturinn var venjulega fullt hús og fjölmargir einleikarar komu við sögu tónleikum sveitarinnar, þeirra á meðal var fiðluleikarinn Sigrún Eðvaldsdóttir en hún var þá á sextánda ári.

Á starfstíma sínum frumflutti Íslenska hljómsveitin tugi tónverka eftir íslenska höfunda enda var áhersla lögð á ný íslensk verk. Oft var flutningurinn í samstarfi við kóra eða aðrar hljómsveitir s.s. karlakórinn Fóstbræður, Fílharmóníukórinn, Kammersveit Reykjavíkur, Hljómeyki o.fl.

gudmundur-emilsson-og-islenska-hljomsveitin

Guðmundur Emilsson stjórnandi

Stærst verkefna sem Íslenska hljómsveitin átti hlutdeild að var menningarátakið Námur en það hófst 1988 og stóð allt þar til sveitin hætti störfum 1993. Námur var tónleikaröð tengt þúsund ára afmælis kristnitöku á Íslandi en á þeim tónleikum voru flutt tónverk eftir íslensk tónskáld tengd tímabilum í Íslandssögunni.

Auk þess að halda sjálf tónleika kom hljómsveitin að ýmsum öðrum uppákomum meðan hún starfaði, þar má nefna uppfærslu á óperunni Dido og Aeneas, opnunarhátíð Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar o.fl.

Ekki hafði verið gert ráð fyrir ríkisstyrkjum við rekstur sveitarinnar og því varð ljóst frá upphafi að á brattann yrði að sækja. Áskriftarkort fóru í sölu og dugðu næstum til að dekka kostnaðinn við hljómsveitina þannig að reksturinn var lengst af réttu megin við núllið. Það fór þó aldrei svo að hið opinbera styrkti ekki sveitina því ríkið hjálpaði til við að brúa bilið með það sem vantaði upp á, 10-15% af kostnaðinum.

Hins vegar hafði verið tekið lán við stofnun sveitarinnar og náðist aldrei að greiða af því. Því fór að lokum að reksturinn var tekinn í rækilega endurskoðun sumarið 1988 en þá voru stofnuð samtök utan um sveitina, Samtök um Íslensku hljómsveitina, en sá félagsskapur hafði að geyma á milli sextíu og sjötíu tónlistaráhugafólk. Guðmundur Emilsson sem var allt í öllu, var kjörinn formaður samtakanna. Hann átti síðan eftir að hljóta Bjartsýnisverðlaun Brösters fyrir framlag sitt. Íslenska ríkið kom til bjargar og lánið var greitt upp. Þá hafði Íslenska hljómsveitin nánast verið óstarfhæf um tíma, og reyndar gekk sú saga 1987 að sveitin væri þá hætt. Svo var þó ekki og sveitin átti eftir að starfa áfram til vorsins 1993 en þá hætti hún störfum eftir liðlega áratugar starf.