Kikk (1982-86)

Kikk

Kikk

Kikk var merkileg hljómsveit í þeim skilningi að í henni komu Sigríður Beinteinsdóttir söngkona og Guðmundur Jónsson gítarleikari og lagasmiður sér fyrst sæmilega á poppkortið en þau áttu bæði eftir að verða meðal þeirra fremstu í íslensku tónlistarlífi. Sveitarinnar verður þó helst minnst fyrir sex laga plötu og tíð mannaskipti.

Hljómsveitin var stofnuð haustið 1982 og voru áðurnefnd Sigríður og Guðmundur meðal stofnenda en aðrir meðlimir í upphafi voru Sigurður Helgason trommuleikari (Kaktus, Exodus o.fl.) og Sveinn Kjartansson (síðar þekktastur sem upptökumaður). Í febrúar 1983 bættist fimmti meðlimurinn, hljómborðsleikarinn Gunnar Rafnsson við.

Þannig skipuð fór sveitin á fullt, lék í fyrstu á tónleikum innan höfuðborgarsvæðisins en bætti síðan við sveitaböllum, strax í upphafi voru eigin lagasmíðar í rokkaðri kantinum áberandi á prógramminu en Guðmundur gítarleikari var þar fremstur í flokki, hann átti síðar eftir að vera meðal fremstu lagahöfunda landsins.

Fljótlega spurðist út að Kikk hefði hlotið plötusamning við hljómplötuútgáfuna Steina en útsendari fyrirtækisins hafði séð sveitina á sviði á SATT-kvöldi, sem voru haldin þó nokkur um það leyti.

Um vorið urðu fyrstu mannabreytingar í Kikk en þá kom Nikulás Róbertsson hljómborðsleikari (Start o.m.fl.) inn fyrir Gunnar Rafnsson sem þá gekk til liðs við Egó. Sveitin lét þetta ekki á sig fá en hún stóð í ströngu við plötuupptökur og spilamennsku allt sumarið.

Einhverjir tónlistaskríbentar blaðanna urðu til að gagnrýna enska texta sveitarinnar en meðlimir hennar svöruðu því til að þeir væru einungis til bráðabirgða, til stæði að gera íslenska texta við lögin. Af því varð þó aldrei.

Um haustið 1983 urðu næstu breytingar á skipan sveitarinnar þegar Sigurður trommuleikari hætti og nýr trymbill, Jón Björgvinsson settist við settið. Upptökur á plötunni undir stjórn Tómasar M. Tómassonar töfðust í kjölfarið og ákveðið var að platan kæmi ekki út fyrr en á nýju ári en þar spilaði einnig inn í að ekki þótti ráðlegt að senda svo nýja og óþekkta sveit í jólaplötuflóðið enda myndi platan líklega kafna þar.

Kikk 1984

Kikk 1984

Sigríður söngkona var nú farin að vekja nokkra eftirtekt og þegar Björgvini Halldórssyni hafði verið bent á hana fékk hann söngkonuna til að syngja dúett með sér í lagi HLH-flokksins, Vertu ekki að plata mig. Lagið varð stærsti smellur sumarsins 1984 og varð til dæmis fyrsta íslenska lagið sem komst í efsta sæti vinsældalista Rásar tvö, vinsældir lagsins tafði auðvitað útgáfu plötunnar enn frekar en varð um leið góð auglýsing fyrir Kikk. Þar með var söngkona sveitarinnar komin á landakortið og það opnaði ýmsar leiðir fyrir þau.

Kikk spilaði mikið þetta sumar og má þess geta að sveitin var ein þeirra sem var auglýst sem skemmtiatriði á Viðeyjarhátíðinni frægu um verslunarmannahelgina 1984, ekki er ljóst hvort sveitin spilaði þar en hátíðin var blásin af um miðja helgi vegna lélegrar aðsóknar eins og kunnugt er.

Platan langþráða kom loksins út fyrir jólin 1984, upphaflega hafði verið talað um tveggja breiðskífna plötusamning, síðan tíu laga plötu en þegar upp var staðið kom út sex laga plata. Og einhver átök hafa hugsanlega orðið innan sveitarinnar um það leyti sem platan kom því þegar henni var fylgt eftir voru Magnús Stefánsson trommuleikari (Utangarðsmenn, Egó o.fl.) og Sigurgeir Sigmundsson gítarleikari (Drýsill, Start o.m.fl.) komnir í stað Jóns og Guðmundar en sá síðarnefndi hafði verið einn stofnenda og aðal lagahöfundur sveitarinnar. Sagan segir reyndar að hann hafi dottið svo hressilega í það á Viðeyjarhátíðinni að hann hafi verið rekinn úr bandinu, aukinheldur hafi hann verið orðið nokkuð einangraður innan sveitarinnar í þeirri afstöðu sinni að leggja áherslu á frumsamið efni í stað ábreiðulaga. Þar með voru Sigríður og Sveinn ein eftir af upprunalegu meðlimum Kikks.

Platan sem bar nafn sveitarinnar fékk ágætar viðtökur og lagið Try for your best friend naut meira að segja nokkurra vinsælda, gagnrýnendur fjölmiðlanna voru einnig fremur jákvæðir og platan fékk ágæta dóma í Þjóðviljanum, Morgunblaðinu, NT og DV, og þokkalega í Helgarpóstinum og Degi. Menn fundu sveitinni helst til foráttu að hún skyldi syngja á ensku.

Kikk 1986

Kikk 1986

Eins og búast mátti við hætti sveitin störfum fljótlega eftir áramótin 1984-85 enda höfðu Magnús og Sigurgeir einungis komið inn í Kikk til að fylgja plötunni eftir. Sigríður Beinteinsdóttir flutti upp úr því til Noregs til að elta söngtækifæri sem henni buðust þar og því bjóst enginn við að Kikk kæmi saman aftur.

Öllum að óvörum var sveitin þó ekki dauð úr öllum æðum og vorið 1986 þegar Sigríður kom heim til Íslands í nokkrar vikur, var Kikk endurvakin með nokkuð breyttum mannskap, auk hennar voru þá Sveinn bassaleikari, Jón trommuleikari sem aftur var kominn inn og Þröstur Þorbjarnarson gítarleikari og Máni Svavarsson hljómborðsleikari í sveitinni. Birgir Baldursson hefur einnig verið nefndur sem trommuleikari um tíma árið 1986.

Svo vel heppnaðist endurkoman að um sumarið kom Sigríður heim aftur og nú endanlega, og þá var Kikk sett aftur á koppinn. Betur gekk að safna saman upprunalegum meðlimum í þetta skiptið því auk Sigríðar, Sveins og Jóns var Guðmundur gítarleikari aftur kominn á sinn stað. Auk þeirra var Styrmir Sigurðsson á hljómborðinu en sá staldraði stutt við, Helga Magnúsdóttir tók við hans stöðu áður en sumrinu lauk og þannig skipuð lék Kikk út haustið, líklega fast að áramótum 1986-87.

Helga varð þar með fimmti hljómborðsleikari sveitarinnar og Birgir fjórði trommuleikarinn og um leið fjórtándi meðlimur sveitarinnar frá upphafi á þeim þremur árum sem sveitin starfaði samtals. Sú staðreynd vegur kannski þyngst þegar skoðaðar eru ástæður fyrir því hvers vegna Kikk varð ekki stærra númer í íslensku tónlistarlífi en ella, til þess hafði hún líklega alla burði.

Efni á plötum