Meira efni í gagnagrunn Glatkistunnar

Kikk 1986

Hljómsveitin Kikk

Síðasta mánuðinn hafa bæst við gagnagrunninn hátt í fimmtíu „spjöld“ sem innihalda upplýsingar um hljómsveitir, kóra, einstaklinga og annað tónlistartengt.

Meðal þekktustu nafna má nefna hljómsveitir eins og Kikk sem var fyrsta hljómsveitin sem Sigríður Beinteinsdóttir (Sigga Beinteins) og Guðmundur Jónsson (Gummi í Sálinni) létu að sér kveða svo eftir var tekið, Káta pilta úr Hafnarfirði sem innihélt Radíus-bræður og fleiri þekkta einstaklinga, og Kartöflumýsnar sem vöktu helst athygli fyrir að strippa í myndbandi á sínum tíma. Einnig mætti nefna einstaklinga eins og barnastjörnuna Kötlu Maríu og söngvarana Ketil Jensson og Janis Carol, sem og djasstengt efni s.s. tímaritin Jazz og Jazzmál, og djassklúbbinn Jazzþing sem starfaði á Húsavík.

Lesendur eru sem áður hvattir til að senda Glatkistunni ábendingar varðandi efnið, leiðréttingar og jafnvel myndefni sé þess kostur á póstfangið glatkistan@glatkistan.com en frétta- og viðburðatilkynningar á vidburdir@glatkistan.com.