Jazz [fjölmiðill] (1947)

tímaritið Jazz [fjölmiðill]

Tímaritið Jazz 2. tbl.

Tímaritið Jazz kom út 1947 á vegum Tages Ammendrup, sem jafnframt var ritstjóri blaðsins.

Alls komu út sjö tölublöð af Jazzi og var blaðið einkar fjölbreytilegt að efni, í því var að finna greinar um djasstónlistarfólk íslenskt sem erlent og fréttir úr djassheiminum, auk þess sem blaðið hafði að geyma bréf frá lesendum, plötufréttir, nótur og texta af djasslögum, harmonikkuþátt og m.a.s. dálk um kvennahljómsveitir og kventónlistarfólk.

Sjöunda tölublaðið kom út í nóvember 1947 og var það jafnframt síðasta tölublaðið. Tage var mjög upptekinn maður, hann var um þetta leyti að setja á stofn hljómplötuútgáfuna Íslenzka tóna, hann stóð í innflutningi á erlendum djasstónlistarmönnum auk þess sem fjölskylda hans starfrækti verslunina Drangey, svo það kann að hafa haft eitthvað um endalok tímaritsins að segja. Hann var þarna aðeins tvítugur að aldri.

Tvö önnur sambærileg tímarit fylgdu í kjölfarið, fyrst tímaritið Jazzblaðið sem Svavar Gests ritstýrði en hann skrifaði einnig í Jazz (frá New York þar sem hann var í námi 1947-48), og ári síðar gaf Tage út tímaritið Musica en það lagði áherslu á klassíska tónlist.