Jazzband Reykjavíkur [2] (1990)

engin mynd tiltækJazzband Reykjavíkur starfaði í nokkra mánuði árið 1990 og innihélt m.a. tvo af efnilegustu dægurlagasöngvurum þess tíma.

Þau Móeiður Júníusdóttir (átján ára) og Páll Óskar Hjálmtýsson (tvítugur) höfðu lent í öðru og þriðja sæti Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin hafði verið í fyrsta skiptið vorið 1990. Þau ákváðu í framhaldinu að vinna saman og fengu til liðs við sig nokkra unga hljóðfæraleikara á svipuðu reki, það voru Einar Valur Scheving trommuleikari, Gunnlaugur Guðmundsson bassaleikari, Heimir Helgason píanóleikari og Jóel Pálsson saxófónleikari, og starfaði sveitin saman um sumarið 1990 undir nafninu Jazzband Reykjavíkur.

Sveitin mun einnig hafa gengið undir nafninu Palli, Móa og búðingarnir og Palli, Móa og Þingvallasveitin, en bandið lék m.a. sem húshljómsveit á Hótel Þingvöllum þá um sumarið.

Jazzband Reykjavíkur var ekki langlíft samstarf en flest þeirra áttu eftir að setja mark sitt á íslenskt tónlistarlíf þótt á mismunandi hátt yrði.