Molar (1964-65)

Hljómsveitin Molar var bítlasveit skipuð ungum tónlistarmönnum um miðjan sjöunda áratug liðinnar aldar.

Svo virðist sem sveitin hafi fyrst komið fram á sjónarsviðið snemma árs 1965 og starfað fram að mánaðamótum ágúst – september undir því nafni en þá var nafni hennar breytt í Strengi.

Molana skipuðu í upphafi þeir Björn Emilsson gítarleikari, Hannes Jón Hannesson gítarleikari, Sigurgeir Sigurjónsson trommuleikari og Snæbjörn Kristjánsson bassaleikari, og þannig mun hún hafa verið skipuð þegar hún lék á dansleik í Skátaheimilinu í byrjun febrúar 1965, það eitt og sér bendir til að sveitin hafi verið stofnuð fyrir áramótin 1964-65. Fljótlega hættu þeir Hannes Jón og Snæbjörn en í þeirra stað var kominn Stefán Halldórsson bassaleikari, og líklega einnig Magnús Magnússon gítarleikari, um svipað leyti eða e.t.v. litlu síðar komu þeir Helgi Hjaltason gítarleikari (þá væntanlega í stað Björns) og Guðmundur Emilsson orgelleikari inn í sveitina og var nafni sveitarinnar þá fljótlega breytt í Strengir.

Molar léku einkum sem pásuhljómsveit á dansleikjum, t.d. á Hótel Hveragerði og víðar.