Strengir [2] (1965-67)

Strengir

Árið 1965 var starfandi hljómsveit á höfuðborgarsvæðinu undir nafninu Molar en þegar hljómsveitin Strengir (sem þá hafði starfað á annað ár) hætti störfum síðla sumars, munu Molarnir hafa keypt nafnið af þeirri sveit og kölluðu sig eftir það Strengi.

Ekki liggja fyrir allar upplýsingar um meðlima- og hljóðfæraskipan Strengja en Guðmundur Emilsson píanóleikari og Stefán Halldórsson bassaleikari voru áreiðanlega meðal þeirra, einnig gætu Björn Emilsson [söngvari?], Snæbjörn Kristjánsson bassaleikari, Sigurgeir Sigurjónsson [?] og Hannes Jón Hannesson gítarleikari hafa verið meðlimir hennar, jafnvel Gunnar Jökull Hákonarson trommuleikari – upplýsingar þ.a.l. mætti gjarnan senda Glatkistunni.

Strengir lék töluvert mikið á dansleikjum á höfuðborgarsvæðinu næsta árið, oft ásamt öðrum hljómsveitum s.s. Toxic, Beatniks og Fjörkum t.d. í Breiðfirðingabúð en einnig mun sveitin hafa leikið töluvert á Vellinum hjá varnarliðinu.

Strengir störfuðu eitthvað fram á 1967.