Garðar og Gosar (1964)

Garðar og Gosar

Garðar og Gosar

Hljómsveitin Gosar, sem iðulega var kölluð Garðar og Gosar mun teljast ein fyrsta bítlasveit Íslands og vilja meðlimir hennar meina reyndar að hún hafi rutt brautina fyrir Hljóma sem komu upp um svipað leyti árið 1964.

Garðar og Gosar skartaði söngvaranum Garðari Guðmundssyni en aðrir meðlimir voru Magnús Harðarson, Jón Ármannsson, Viðar Jónsson og Markús Magnússon bassaleikari.

Sveitin mun einkum hafa verið undir áhrifum frá bresku sveitinni Dave Clark Five og í mars 1964 er hún auglýst sem nýjasta Beatles hljómsveitin, hún mun þó hafa flutt eitthvað af frumsömdu efni.

Sveitin hafði áður gengið undir nöfnum eins og Strengir og Taktar og starfað í nokkurn tíma, en þegar Garðar söngvari bættist í hópinn tók hún upp nafnið Garðar og Gosar. Gunnar Jökull Hákonarson trommuleikari mun hafa komið við sögu hennar í byrjun en hann var þá bráðungur.

Sveitin mun hafa starfað til ársloka 1964 en þá höfðu Hljómar tekið öll völd í íslenska bítlaheiminum eins og kunnugt er. Einhverjar mannabreytingar urði í Garðari og Gosum undir það síðasta en hverjar þær voru er ekki ljóst.