Garðar og stuðbandið (1985-98)

Garðar og Stuðbandið

Hljómsveitin Garðar og Stuðbandið (Stuðbandið og Garðar) var hljómsveit sem fór mikinn á dansstöðum borgarinnar og lék þá einkum rokk frá sjötta og sjöunda áratugnum fyrir fólk á miðjum aldri.

Sveitin var nokkuð misstór og fór jafnvel niður í að vera dúett en kallaðist þá Stuðgæjarnir. Annars voru meðlimir Stuðbandsins þeir Lárus H. Ólafsson bassaleikari, Guðmar Marelsson trommuleikari, Ólafur Már Ásgeirsson hljómborðsleikari, Garðar Karlsson gítarleikari og Garðar Guðmundsson söngvari. Gítarleikari að nafni Sturla Már [?] lék um tíma á gítar í sveitinni en stundum léku þeir án gítarleikara, fleiri gætu hafa komið við sögu Stuðbandsins. Sveitin starfaði á árunum 1985 til 98 að minnsta kosti en þessi sveit var náskyld annarri sveit, Ó.M. og Garðar, sem skipuð var sömu meðlimum að hluta.

Garðar og Stuðbandið áttu lag á safnplötunni Lagasafnið 1: Frumafl, sem út kom 1992.