Gálan (1998-)

Gálan

Gálan er aukasjálf Júlíusar Freys Guðmundssonar sem er kunnur tónlistarmaður, upptökumaður og útgefandi úr Keflavík, hann á ekki langt að sækja tónlistaráhugann enda sonur Rúnars Júlíussonar bítils númer eitt á Íslandi. Nafnið Gálan kemur fyrst fyrir í hljómsveitarnafninu Gálan, götuleikarinn og guð en Júlíus hafði áður verið í þeirri sveit.

Árið 1998 gaf Gálan út sína fyrstu plötu, Fyrsta persóna eintölu, undir merkjum Geimsteins útgáfufyrirtækisins sem Rúnar faðir hans hafði stofnað á sínum tíma, en á henni leikur Júlíus á öll hljóðfæri sjálfur, útsetti og tók upp. Platan hlaut ágætar viðtökur og fékk til að mynda mjög góða dóma í Morgunblaðinu og þokkalega í Fókus. Gálan fylgdi plötunni lítillega eftir með spilamennsku þar sem hann hafði sér til fulltingis nokkra félaga úr Keflavík, þar á meðal þá félaga Sigurð og Kristin sem síðar voru kenndir við Hjálma.

Tvö ár liðu þar til Gálan lét næst á sér kræla, þá kom út önnur plata sem bar einfaldlega kennitölu kappans, 220971-3099. Júlíus lék eins og áður sjálfur á öll hljóðfæri auk þess að sjá um söng en á útgáfutónleikum sem haldnir voru á Gauk á Stöng lék hljómsveitin Fálkar frá Keflavík undir hjá honum. Platan fékk ágæta dóma í Fréttablaðinu og jafnvel enn betri í Morgunblaðinu.

Svo virðist sem Gálan hafi eftir útgáfu þessarar plötu lagst í dvala um árabil en ellefu ár liðu áður en næsta plata leit dagsins ljós, hún hét Gálan og var unnin undir sömu formerkjum og hinar fyrri, þ.e. Hann annaðist alla vinnu sjálfur, útsetti, söng, spilaði, tók upp og vann tónlistina að mestu leyti auk þess að semja efnið. Platan var tileinkuð móður Júlíusar, söngkonunnar Maríu Baldursdóttur en textar plötunnar voru mjög persónulegir og ortir til hennar, meðal annars byggðir á bréfum föður hans til Maríu. Platan fékk ágæta dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Gálan hefur átt efni á safnplötunum 25 ára (2001) og Afsakið hlé (2002).

Efni á plötum