Moðfisk (1996-97)

Moðfisk

Hljómsveitin Moðfisk úr Keflavík virðist hafa starfað í um tvö ár um og eftir miðjan tíunda áratug síðustu aldar.

Ekki liggur fyrir hvenær sveitin var stofnuð en hennar er fyrst getið í fjölmiðlum vorið 1996 þegar hún keppti í Músíktilraunum Tónabæjar, þá voru meðlimir hennar Karl Óttar Geirsson trommuleikari, Jón Björgvin Stefánsson gítarleikari, Guðmundur Bjarni Sigurðsson gítarleikari og söngvari og Kristján Guðmundsson bassaleikari. Sveitin komst í úrslit Músíktilraunanna en náði sér ekki á strik þar.

Um haustið 1996 sendi Moðfisk frá sér átta laga plötu sem bar heitið Neðansjávar en Rymur gaf plötuna út. Platan fór ekki hátt en hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Moðfisk starfaði eitthvað fram á árið 1997, svo virðist sem Guðmundur Freyr Vigfússon hafi gegnt stöðu bassaleikara sveitarinnar undir lokin en Danmodan var stofnuð upp úr henni.

Efni á plötum