Valsbandið (1991-96)

Valsbandið

Hljómsveit sem bar nafnið Valsbandið starfaði á tíunda áratugnum og skemmti á ýmsum skemmtunum tengdum knattspyrnufélaginu Val.

Sveitin kom í fyrsta skipti fram opinberlega 1991 og er hér gert ráð fyrir að hún hafi verið stofnuð sama ár. Meðlimir hennar voru framan af Einar Óskarsson trommuleikari, Ólafur Már Sigurðsson bassaleikari, Óttar Felix Hauksson gítarleikari, Dýri Guðmundsson gítarleikari [?] og Guðjón Guðmundsson söngvari. Guðmundur Frímannsson var á einhverjum tímapunkti kominn í Valsbandið í stað Guðjóns og árið 1996 lék Pétur [?] saxófónleikari með sveitinni. Ekki finnast upplýsingar um fleiri meðlimi hennar en svo virðist sem hún hafi starfað til 1996.

Reyndar finnst heimild frá árinu 2005 um sveit undir sama nafni, Óttar Felix er í þeirri útgáfu en aðrir meðlimir hennar voru Sálar-liðarnir Stefán Hilmarsson söngvari og Friðrik Sturluson bassaleikari, auk Stuðmannsins Jakobs Frímanns Magnússonar sem væntanlega hefur leikið á hljómborð.