Moðhaus (1997-2001)

Moðhaus

Breiðhyltska hljómsveitin Moðhaus var stofnuð 1997, stofnmeðlimir voru þeir Þorsteinn Kristján Haraldsson bassaleikari og Arnar Ingi Viðarsson trommuleikari en fljótlega bættist Trausti Laufdal söngvari og gítarleikari í hópinn, Magnús Kjartan Eyjólfsson gítarleikari kom síðastur inn.

Sveitin kom fyrst almennilega fram á sjónarsviðið árið 1998 þegar hún keppti í hljómsveitakeppninni Rokkstokk í Keflavík, í kjölfarið átti hún efni á safnplötunni Rokkstokk 1998, sem gefin var út í tengslum við keppnina.

Árið eftir (1999) keppti Moðhaus síðan í Músíktilraunum Tónabæjar. Sveitin komst í úrslit tilraunanna en varð ekki meðal efstu sæta.

Árið 2000 var Moðhaus minna áberandi en sveitin vann að því að semja og taka upp frumsamið efni, nýr bassaleikari kom til sögunnar en það var að öllum líkindum Viktor Ingi Jónsson. Langur tími leið uns Moðhaus kom aftur fram á sjónarsviðið svo numið gæti en það var um haustið 2000, þá hafði sveitin legið í dvala, að minnsta kosti hvað tónleikahald snerti, í um tíu mánuði.

Moðhaus var endanlega hætt haustið 2001 og einhverjir meðlimir sveitarinnar birtust skömmu síðar í hljómsveitinni Lokbrá.