S.h. draumur (1982-88)

SH draumur

S.h. draumur

Hljómsveitin S.h. draumur (Svarthvítur draumur) starfaði um sex ára skeið, mestan þann tíma neðanjarðar með lítinn en tryggan aðdáendahóp en varð líkt og Ham, þekktari eftir andlát sitt og fékk á sig goðsagnakenndan stimpil með almennari vinsældum síðar meir.

Tilurð sveitarinnar má rekja til þess að í Kópavogi hafði Gunnar Lárus Hjálmarsson (Dr. Gunni) starfrækt nokkrar sveitir í anda pönks og nýbylgju sem þá hafði verið að ná hámarki hérlendis en hafði í raun runnið sitt skeið annars staðar. Þetta voru sveitir eins og Geðfró og Beri beri en þær innihéldu m.a. gítarleikarann Steingrím Birgisson og trymbilinn Hauk Valdimarsson auk Sigríðar Beinteinsdóttur söngkonu.

Þegar Sigríður söngkona var rekin úr Beri beri sumarið 1982 héldu þér félagarnir Gunnar, Steingrímur og Haukur að spila áfram. Gunnar tók nú við söngnum – reyndar í óþökk Hauks trommuleikara, a.m.k. til að byrja með.

Tónlistin var líklega áþekk því sem hún hafði verið áður, eins konar síðpönk eða framsækið nýbylgjurokk. Reyndar vafðist skilgreiningin á tónlistinni eitthvað fyrir blaðamönnum, t.a.m. var hún kölluð ribbaldarokk í einhverri blaðaumfjölluninni. Gunnar samdi efnið að langmestu leyti.

Fyrsta opinbera verkefni sveitarinnar var að taka þátt í hljómsveitakeppni sem þá var haldin í fyrsta skipti um haustið undir heitinu Músíktilraunir Tónabæjar og SATT. Um þrjátíu sveitir höfðu, þegar upp var staðið, skráð sig til leiks og keppti sveitin ásamt þremur öðrum undankvöldið 18. nóvember.

Sveitin, sem nú tók upp nafnið Svarthvítur draumur enda varla forsvaranlegt að taka þátt í hljómsveitakeppni án nafns, hafði ekki erindi sem erfiði á þessum fyrstu tónleikum sínum og hafnaði í þriðja sæti af fjórum sveitum þrátt fyrir ágætar en nokkuð misjafnar viðtökur áhorfenda og blaðaskríbenta.

Sveitin tók litlu síðar þátt í maraþontónleikum sem SATT stóð fyrir og lék einnig nokkuð á tónleikum um veturinn 1982-83 með andlega skyldum hljómsveitum.

s-h-draumur-1984

Svarthvítur draumur á sviði 1984

Þeir félagar voru einnig duglegir að taka upp efni í æfingahúsnæði sínu og um vorið 1983 kom út snælda með sveitinni á vegum Grammsins undir titlinum Listir með orma, í þrettán eintökum. Þetta var fjórtán laga snælda og seldist hún upp á augabragði en var ekki endurútgefin af einhverjum ástæðum. Einhver laganna komu hins vegar út síðar á safnplötunni Goð+.

Svarthvítur draumur hætti reyndar í stuttan tíma þá um vorið þegar þeir Haukur og Steingrímur fóru að vinna með Mána Svavarssyni sem hafði einmitt sigrað Músíktilraunirnar með hljómsveit sinni DRON, það samstarf stóð hins vegar stutt og fáeinum vikum síðar byrjaði sveitin aftur. Haukur var þó farinn að missa áhugann á hljómsveitastússi og hætti í sveitinni um sumarið 1983, sæti hans tók Ágúst Jakobsson sem síðar var kunnari fyrir tónlistarmyndbönd sín og kvikmyndir á borð við Popp í Reykjavík og Stuttu frakki, sem hann leikstýrði. Ágúst lék með sveitinni til vorsins 1984 en þá kom Haukur aftur inn í bandið.

Um sumarið 1984 var Svarthvítur draumur bókuð á útihátíð sem ákveðið hafði verið að blása til í Viðey um verslunarmannahelgina. Þessi Viðeyjarhátíð varð þó aldrei það sem henni var ætlað að verða enda voru skemmtanaþyrstir unglingar þess tíma ekki á þeim buxunum að skemmta sér um verslunarmannahelgi við þröskuld höfuðborgarinnar en tíndust miklu fremur til Atlavíkur og Vestmannaeyja. Hátíðin varð því afar fámenn samkoma og hefur verið skotspónn brandarakarla og -kerlinga allt til okkar daga.

Vorið 1985 luku þeir félagar stúdentsprófi, þeir höfðu spilað minna en ella um veturinn vegna þess og svo fór að þeir fóru saman í Inter-rail ferð um Evrópu um sumarið. Einhvern veginn þróuðust málin á þann veg að sveitin lék á einum tónleikum í þeirri ferð, í Preston í Englandi þar sem pennavinur Gunnars, John Robb, hafði útvegað þeim gigg. Í þessari ferð áttuðu þeir sig á að nafnið Svarthvítur draumur yrði þeim ekki til framdráttar í heimi meiksins og því styttu þeir nafni sveitarinnar í S.h. draumur (S/h draumur) og kölluðu sig það síðan.

s-h-draumur-3

S.h. draumur

Um haustið 1985 fór sveitin í hljóðverið Mjöt og tók þar upp fjögurra laga tíu tommu plötu undir stjórn Kjartans Kjartanssonar. Hún kom síðan út í fimm hundruð eintökum síðla vetrar undir titlinum Bensínskrímslið skríður. Platan fékk mjög góða dóma í Tímanum og DV og þokkalega í Helgarpóstinum.

Gunnar hafði stofnað rassvasaútgáfu eins og hann kallaði það sjálfur, Erðanúmúsík, sem gaf út plötuna og átti reyndar eftir að koma að útgáfum mest alls efnis sem sveitin sendi frá sér frá því.

Tvær snældur í takmörkuðu upplagi höfðu komið út á árinu 1985, átta laga snældan Benzine & bloood á vegum Gunnars sjálfs (þó ekki undir merkjum Erðanúmúsík) og Itch sem Warpt west music / Santa Cruz gáfu út. Um var að ræða bílskúrsupptökur.

Fljótlega eftir útgáfu Bensínskrímslisins eða um vorið 1986 hætti Haukur trommuleikari aftur í S.h. draumi og í þetta skiptið endanlega, og tók Birgir Baldursson við trommunum af honum. Sveitin spilaði um sumarið m.a. með þýsku sveitinni Einstürzende Neubauten og síðar sama sumar með hinum áströlsku Crime & the city solution á tónleikum í Reykjavík.

S.h. draumur lagðist í híði um haustið 1986 þegar Gunnar fór til Frakklands og dvaldi þar í nokkra mánuði. Þegar hann kom aftur heim til Íslands í febrúar 1987 var þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið.

Þrátt fyrir að hafa farið utan til annarra hluta en að semja eða vinna tónlist samdi Gunnar heilmikið efni í Frakklandi. Sveitin fór því í hljóðverið Gný sem þá var nýtekið til starfa, þar tók hún upp á annan tug laga undir stjórn Sigurðar Inga Ásgeirssonar. Afraksturinn varð tvær plötur, breiðskífan Goð og sjö tomman Drap mann með skóflu.

s-h-draumur-1986

S.h. draumur 1986

Aðstæður höguðu því til að sjö tomman kom út á undan þrátt fyrir að bera útgáfunúmer sem var á eftir breiðskífunni. Hún náði að koma út fyrir jólin 1987 og fékk góða dóma í Alþýðublaðinu en fleiri dómar virðast ekki hafa birst um hana.

Breiðskífan Goð birtist síðan snemma á árinu 1988 og fékk mjög góðar viðtökur, platan hlaut t.d. frábæra dóma í Morgunblaðinu (undir fyrirsögninni Goð minn góður), Degi, Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum og ágæta einnig í DV. Einnig vakti umslag plötunnar mikla athygli en framan á því spegla meðlimir sveitarinnar sig í sólgleraugum lífskúnstersins Stefáns Grímssonar. Platan kom einnig út í Bretlandi undir merkjum Lakeland records, nýrrar neðanjarðarútgáfu þar í landi, og fékk jákvæða dóma í New musical express og Melody maker.

Um vorið 1988 fór S.h. draumur út til Bretlands með Sykurmolunum sem þá voru að gera það gott í landinu. Um það leyti kom einnig út snælda sem bar heitið Bútaðir leggir 1982-1986, á henni var að finna tuttugu og tvö lög en upplagið var um hundrað eintök.

Þrátt fyrir að sveitin væri nú loks farin að uppskera, bæði með Goð plötunni og spilamennsku á erlendri grundu, var ljóst að S.h. draumur ætti ekki langt eftir. Steingrímur gítarleikari var í þann veginn að stofna fjölskyldu og slíkt rímaði afar illa við plön hljómsveitar sem var að reyna að meika það, hann hafði aukinheldur hug á klassísku gítarnámi.

Vegna þessa var ákveðið að vinna eins konar kveðjuplötu, fjögurra laga tólf tommu plötu sem fékk nafnið Bless. Það voru hinir ísfirskættuðu bræður, Sveinn og Sigurjón Kjartanssynir sem tóku plötuna upp. Dr. Gunni segir frá því á vefsíðu sinni að illa hafi gengið að finna prentsmiðju „sem hafði ekki kaþólska prentara í vinnu“ en umslag plötunnar hafði að geyma mynd af Maríu mey við óvenjulegar aðstæður.

sh-draumur2

Sveitin um það leyti sem hún hætti

Bless kom út um haustið um svipað leyti og S.h. draumur hélt lokatónleika sína, sveitin hitaði einnig upp fyrir Pere Ubu sem hélt hér tónleika. Plötunni var lítt fylgt eftir enda sveitin hætt en þess má geta að eitt laganna, Sóli, var kjörið Lag ársins 1988 af  Jens Guðmundssyni sem þá annaðist poppdálkinn í barnablaðinu Æskunni.

Þeir Gunnar og Birgir voru þó ekkert hættir að starfa saman, þeir fengu til liðs við sig Ara Eldon og stofnuðu sveitina Bless í höfuðið á síðustu smáskífu S.h. draums.

Sögu S.h. draums var þó ekki alveg lokið því 1993, fimm árum eftir að sveitin hætti sendi hún frá sér safnplötuna Allt heila klabbið, en hún hafði að geyma plöturnar Bensínskrímslið skríður, Goð, Drap mann með skóflu og Bless, auk aukaefnis. Allt heila klabbið kom út í þúsund eintökum og seldist fljótlega upp enda hafði sveitin á þeim fimm árum síðan hún hætti öðlast eins konar költ stimpil og naut nú mun meiri almennra vinsælda en nokkru sinni þann tíma er hún starfaði þegar sami litli en tryggi hópurinn elti hana. Það má þó ekki skilja sem svo að tónlist sveitarinnar flokkaðist nú undir mainstream tónlist en hlustendahópurinn var orðinn mun stærri.

Í tilefni af útgáfu safnplötunnar kom S.h. draumur saman á nýjan leik og hélt tónleika í Tunglinu, Steingrímur gítarleikari hafði þá ekki spilað opinberlega í fimm ár á meðan Gunnar og Birgir höfðu komið víða við í tónlistinni.

Platan fékk ennfremur ágætar viðtökur gagnrýnenda sem fyrri plötur sveitarinnar, hún fékk frábæra dóma í Vikunni og Degi, og ágæta í Morgunblaðinu.

Og S.h. draumur kom aftur saman árið 2010 þegar tvöfalda safnplatan Goð+ kom út á vegum Kimi records. Á plötunni var að finna, auk efni gömlu platnanna, lög af hinum fjölmörgu snældum sem sveitin hafði sent frá sér og var hún aðdáendum heilmikill fengur því fæst af því efni hafði verið þeim aðgengilegt fram að því. Upptökurnar voru auk þess hljómjafnaðar og unnar mun meira en fyrir fyrri safnplötuna frá 1993. Platan fékk frábæra dóma á vefsetri Rjómans.

S.h. draumur skildi eftir sig fjölda útgáfa í vínyl-, snældu- og geislaplötuformi og átti ennfremur fjölda laga á safnútgáfum ýmis konar, s.s. snældum eins og Rúllustiginn (1984), Euer Geld, unser Geld: The compilation (1984), New Icelandic music (1987), Snarl (1987) og Snarl II: veröldin er veimiltíta (1987)

Plötur S.h. draums (og annarra sveita af sama meiði) sýna glögglega þá grósku sem var í raun í íslensku tónlistarlífi á þeim tíma sem menn tala um sem dauða tímann (oft kenndan við gleðipoppið) milli pönksins/nýbylgjunnar og þeirrar bylgju sem kennd hefur verið við dauðarokk um og eftir 1990 hérlendis.

Efni á plötum