Afmælisbörn 8. febrúar 2017

Svala Björgvinsdóttir

Svala Björgvins

Afmælisbörnin eru fjögur talsins í dag:

Fyrstan skal nefna Jónatan Garðarsson tónlistarséní sem er sextíu og tveggja ára en hann hefur verið viðloðandi tónlist í áratugi með einum og öðrum hætti. Hann hefur verið í hljómsveitum, samið lagatexta, skrifað um tónlist, komið að félags- og réttindamálum tónlistarmanna og er það sem almennt er kallað – tónlistarnörd eða poppfræðingur.

Valgarður (Þórir) Guðjónsson söngvari Fræbbblanna er fimmtíu og átta ára ára gamall í dag, hann hefur sungið með fleiri hljómsveitum en flestar eru þær í pönkgeiranum og tengjast Fræbbblunum, þar má nefna Mamma var Rússi, Glott, Fitlarinn á þakinu.

Kolbeinn Jón Ketilsson tenórsöngvari er fimmtíu og fimm ára gamall á þessum degi. Kolbeinn nam söng fyrst hér heima en síðan í Vín í Austurríki og hefur sungið ýmis konar óperu- og önnur sönghlutverk á ferli sínum, víðs vegar í Evrópu. Hann býr og starfar í Þýskalandi, syngur reglulega hér heima og hefur sent frá sér eina plötu.

Svala Karítas Björgvinsdóttir (Svala Björgvins) er fertug og á því stórafmæli dagsins. Svala varð þekkt aðeins tíu ára þegar hún söng lagið Fyrir jól á jólaplötu föður sín, Björgvins Halldórssonar, síðar var hún í hljómsveitum eins og Magic mushrooms og Scope en hefur undanfarin ár starfað í Bandaríkjunum með hljómsveit sinni, Steed Lord. Svala hefur gefið út sólóplötur og reyndi fyrir sér sem sólóisti vestan hafs um tíma en hún hefur verið ein af dómurum The Voice.