Afmælisbörn 29. mars 2017

Þórir Baldursson

Þrjú afmælisbörn dagins eru eftirfarandi:

Þórir Baldursson hljómborðsleikari er sjötíu og þriggja ára í dag. Hann er frá Keflavík og tilheyrir þeirri kynslóð þaðan sem markaði bítlaslóðir hérlendis, hann var þó meira í þjóðlagastílnum í upphafi. Þórir bjó lengi og starfaði að tónlist sinni í Þýskalandi, Bandaríkjunum og miklu víðar með tónlistarfólki eins og Donnu Summer og Giorgio Moroder, Grace Jones o.fl. en kom heim 1990. Þórir hefur samið fjöldann allan af lögum, útsett, spilað og komið að tónlistinni á einn eða annan hátt nánast alla ævi og er afar virtur í sínu fagi.

Hera Björk Þórhallsdóttir söngkona er fjörutíu og fimm ára. Hún er dóttir Hjördísar Geirs söngkonu þannig að hún á ekki langt að sækja hæfileikana, hún hefur sungið Eurovision framlag Íslendinga, gefið út sólóplötur, unnið mikið með Friðriki Ómari og sungið með hljómsveitum, sönghópum og kórum allt frá unglings aldri, þar má nefna Orgil, Reykjavík 5, Sweety og 17 vélar.  Hún hefur verið sérlega áberandi í jólatónlistinni, söng m.a. með Frostrósunum.

Egill Örn Rafnsson trommuleikari er þrjátíu og fimm ára. Hann hefur setið við trommusettið nánast frá fæðingu en hann er sonur Rafns Jónssonar (Rabba) og bróðir Ragnars Sólberg. Eðlilega hefur hann því oft setið við trommurnar við plötuupptökur sem tengjast fjölskyldufyrirtækinu (R&R músík) en auk þess hefur hann starfað með hljómsveitum eins og Woofer, Buttercup, Ber, Bergrisunum, Sign og Noise svo nokkrar séu hér upp taldar.