Óðmenn (1966-68 / 1969-70)

Óðmenn 1966

Óðmenn voru í raun tvær hljómsveitir þó að hér sé fjallað um hana sem eina, Jóhann G. Jóhannsson myndaði þær báðar en þær voru að öðru leyti alls óskyldar, bæði meðlima- og tónlistarlega séð. Síðari útgáfa hennar var að mörgu leyti frumkvöðlasveit í margs konar skilningi og starfaði að flestra mati í allt of skamman tíma.

Óðmenn hinir fyrri voru stofnaðir í ársbyrjun 1966 í Keflavík af bræðrunum Jóhanni Georgi og Eiríki Jóhannssonum bassa- og gítarleikurum, Engilbert Jensen trommuleikara og Karli Hermannssyni sem staldraði reyndar mjög stutt við og tók Valur Emilsson gítarleikari sæti hans. Allir sungu þeir félagarnir en Engilbert var þá þegar landsfrægur söngvari, hafði sungið og trommað með Hljómum. Hinir voru flestir byrjendur í faginu en Jóhann hafði verið áður í sveitum eins og Skuggum og Straumum.

Óðmenn birtust fljótlega með frumsamið efni, sem kenna má líklega við bítlatónlist, í bland við erlenda slagara og spiluðu víða þetta fyrsta ár, bæði á höfuðborgarsvæðinu sem og á landsbyggðinni. Um haustið 1966 hætti Engilbert þegar hann gekk aftur til liðs við Hljóma og um tíma var Pétur Pétursson trommuleikari í sveitinni eða þar til nafni hans, Pétur Östlund settist á bak við settið um vorið 1967.

Ríkissjónvarpið hafði tekið til starfa haustið áður og Óðmenn urðu svo heppnir að vera meðal fyrstu hljómsveita sem fengu þann heiður að koma fram í sjónvarpsþætti, það var sumarið 1967 og fluttu þeir félagar frumsamið efni (eftir Jóhann) í þættinum.

Sveitin hafði í hyggju að gefa út litla plötu en þegar enginn útgefandi hafði áhuga á að gefa þá plötu út keyptu þeir upptökurnar sem Ríkissjónvarpið hafði gert, og gáfu þær út sjálfir í formi fjögurra laga plötu haustið 1967. Platan hlaut þokkalegar viðtökur og fékk t.d. ágæta dóma í Vikunni en margir hnutu um að eitt laganna skyldi vera á ensku, þá tíðkaðist það ekki. Þeir Óðmenn höfðu þá hugmyndir um að sveitin myndi e.t.v. vekja athygli erlendis en lagið fékkst fyrir vikið ekki leikið í Ríkisútvarpinu.

Óðmenn á sviði 1967

Haustið 1967 hætti Eiríkur gítarleikari í sveitinni og tók Magnús Kjartansson orgel- og trompetleikari sæti hans, Magnús var þá nýorðinn sextán ára. Síðar um haustið söng ung og efnileg söngkona með sveitinni í nokkur skipti og fljótlega eftir áramótin 1967-68 gekk hún einnig til liðs við Óðmenn, hún hét Shady Owens.

Sveitin naut nú orðið töluvert mikilla vinsælda og hjálpaði söngkonan ekki lítið til, talað var um að sveitin hygði á plötuútgáfu en áður en af því varð bárust þær fregnir að sjálfir Hljómar vildu fá Shady söngkonu (og Gunnar Jökul úr Flowers) í sveit sína fyrir fyrirhugaða Ameríkuferð sem þá var fyrirhuguð. Shady og Gunnar Jökull gátu ekki afþakkað slíkt kostaboð og þó að síðan yrði ekkert út þeirri frægðarför gáfust Óðmenn upp og lögðu niður sveitina. Það var síðsumars 1968 og þar með lauk sögu Óðmanna hinna fyrri fremur snögglega.

Eins og gengur fóru liðsmenn sveitarinnar í ýmsar áttir, Shady fór reyndar í Hljóma eftir allt, Magnús stofnaði Júdas en þeir Pétur og Jóhann fóru að spila með hljómsveitinni Musica Prima í Þjóðleikhúskjallaranum. Sá síðarnefndi þoldi illa við í þeirri dempuðu djassskotnu tónlist sem þar var við lýði og svo fór að hann stofnaði nýja sveit undir Óðmannanafninu um ári eftir að hin fyrri lagði upp laupana, sumarið 1969.

Síðasta útgáfan af Óðmönnum hinum fyrri

Óðmenn hinir síðari var hljómsveit gjörólík fyrri hinni. Í stað bítlakenndrar tónlistar var kominn progkennt blústríó í anda Cream, og voru meðlimir hinnar nýju sveitar Finnur Torfi Stefánsson gítarleikari og Ólafur Garðarsson trommuleikari, auk Jóhanns sem sjálfur lék á bassa sem fyrr. Tónlistin almennt var að þróast yfir í þyngra, framúrstefnulegra og tormeltara rokk sem sveitin meðtók og gerði að sínu, og í raun var hún nokkuð á undan sinni samtíð hérlendis og nokkuð á skjön við það sem aðrar sveitir, nema kannski Blúskompaníið, voru að gera. Jóhann var duglegur að semja lög í þessum anda og hinir lögðu einnig í púkkið.

Sveitin fór að líta í kringum sig eftir útgefanda til að gefa út tveggja laga plötu og Fálkinn sýndi þeim áhuga. Þegar búið var að taka upp efni á hana í Ríkisútvarpinu voru Óðmenn ósáttir við útkomuna enda voru hljóðversaðstæður hér á landi fremur fábrotnar og gamaldags, þeim fannst sándið hreinlega ekki boðlegt og óskuðu eftir að fá að taka upp lögin í erlendu hljóðveri. Þeir Fálkamenn voru ekki á þeim buxunum og svo fór að Óðmenn ákváðu að líta betur í kringum sig, enda ekki bundnir Fálkanum á neinn hátt þótt búið væri að taka upp tvö lög.

Svo fór að Svavar Gests hjá SG-hljómplötum var tilbúinn að bjóða þeim að fara til London til að taka upp fjögur lög á tvær tveggja laga plötur, sem Óðmenn þáðu með þökkum.

Í sjónvarpssal 1970

Um svipað leyti var sveitinni boðið að semja tónlist og taka þátt í einþáttungi sem settur var á svið á vegum Litla leikhússins, það voru fyrstu kynni þeirra af leikhústónlist og átti sú reynsla eftir að opna sveitinni möguleika síðar.

Fyrri platan sem tekin var upp í London undir stjórn Derek Wordsworth (sem þá hafði nýverið hafði annast hljómsveitarstjórn í söngleiknum Hair í London) kom út í febrúar 1970, og um það leyti hætti Ólafur trymbill í Óðmönnum og tók Reynir Harðarson sæti hans. Margir áttu von á að sveitinni hrakaði við þetta, og vissulega breyttist tónlistin eitthvað en það kom ekki að sök. Platan, sem hafði að geyma lögin Spilltur heimur / Komdu heim fékk prýðilegar viðtökur, hlaut t.d. frábæra dóma í Vikunni og mjög góða í Vísi.

Þessi plata var tímamótaplata hérlendis að því leyti að hún var fyrsta tveggja laga platan sem hér kom út með stereo-hljómi. Hún var einnig nýstárleg að því leyti að það kvað við nokkuð nýjan tón í textagerð sveitarinnar en þeir voru fullir af þjóðfélagsádeilu og gagnrýni á stríðsrekstur, og fylgdu fleiri tónlistarmenn í kjölfarið í þeim efnum. Fram að því höfðu íslenskir popptextar mestmegnis snúist um samskiptin við hitt kynið.

Reynslan úr leikhúsinu skilaði sér þegar Litla leikhúsið leitaði aftur til þeirra félaga en í þetta skipti var um að ræða tónlist í Popleiknum Óla en það var íslenskur söngleikur í anda Hársins og átti að setja upp í Tjarnarbæ (síðar Tjarnarbíó) í tengslum við Listahátíð sem þarna var haldin í fyrsta sinni. Óðmenn gripu tækifærið fegins hendi enda hafði sveitin allt of lítið að gera miðað við hversu mikilla vinsælda og virðingar hún naut, ástæðan fyrir því var að blaðamaður hafði ritað að tónlist sveitarinnar væri þess eðlis að ekki væri hægt að dansa við hana og varð það til þess að færri vildu fá hana á dansleiki, einkum á landsbyggðinni.

Óðmenn

Þeir Óðmenn (mest Jóhann) sömdu á annan tug laga til að nota í Popleiknum Óla og hófust sýningar í júní. Sýningar voru fáar um sumarið 1970 enda var þá ráðgert að halda áfram um haustið eftir sumarfrí, en tríóið fékk ágæta gagnrýni fyrir framlag sitt í söngleiknum.

Óðmenn þrjóskuðust lengi við en það var þó augljóst að sveitin þyrfti aðeins að „létta“ dansleikjaprógrammið og gera tónlist sína aðgengilegri ef þeir félagar ætluðu að hafa eitthvað að gera þannig að þeir bættu við nokkuð af léttari tónlist og fengu sér umboðsmann, í kjölfarið fengu Óðmenn meira að gera um sumarið.

Þegar hér var komið sögu var Óðmönnum ljóst að sveitin myndi ekki starfa lengi áfram þar sem Finnur Torfi, sem hafði verið í lögfræðinámi samhliða spilamennskunni, yrði nú að láta námið ganga fyrir ef hann ætlaði á annað borð að ljúka því, ekki kom til greina að fá annan í hans stað. Þremenningunum fannst þó mikilvægt að koma óútgefinni tónlist sinni í útgáfuform enda átti sveitin efni á tvær plötur, ef tónlistin úr Popleiknum Óla teldist með. Erfiðlega gekk að fá útgefendur að efninu en þó fór svo að Fálkinn samþykkti að kosta upptökur í Danmörku og útgáfu á tveim plötum.

Seinni tveggja laga platan (Bróðir / Flótti) sem tekin hafði verið upp í London kom út í september á vegum SG-hljómplatna en hlaut ekki eins góða dóma í fjölmiðlum og fyrri smáskífan, Vikan gaf henni þó ágæta dóma og Morgunblaðið og Vísir þokkalega. Á þeirri plötu voru tveir breskir session leikarar þeim til aðstoðar.

Óðmenn voru þarna raunverulega hættir enda Finnur Torfi á kafi í námi sínu, sveitin fór þó til Danmerkur í október til að taka upp plöturnar tvær en var naumt skammtaður tími til verksins, heimildir sögðu að fjörutíu tímar hefðu verið notaðir í upptökurnar en líklega voru það sjötíu tímar – sem telst þó varla neitt fyrir tvöfalda plötu.

Óðmenn 1969

Platan sem bar heiti sveitarinnar kom síðan út rétt fyrir jólin 1970 og varð þar með fyrsta íslenska tvöfalda albúmið. Á henni voru lagasmíðar úr Popleiknum Óla (sem voru að einhverju leyti endurútsettar enda voru þær þarna í flutningi sveitarinnar eingöngu en ekki leikaranna í söngleiknum) auk annarra laga en einna mesta athygli vakti tónverkið Frelsi sem var tæplega nítján mínútna langur spuni, saminn í hljóðverinu.

Tvöfalda albúmið seldist ekki sérlega vel og má þar kannski kenna um að það kom út svo skömmu fyrir jól, en platan fékk gríðarlega góða dóma gagnrýnenda Morgunblaðsins, Vikunnar og Vísi, og í sameiginlegu tónlistaruppgjöri þeirra var hún kjörin plata ársins, Jóhann lagahöfundur ársins og fyrri litla platan (Spilltur heimur / Komdu heim) smáskífa ársins. Auk þess varð Jóhann í öðru sæti yfir textahöfunda ársins.

En Óðmenn voru hættir, hljómsveitin Tatarar höfðu tekið við hlutverki sveitarinnar þegar Popleikurinn Óli fór aftur á svið í nóvember og gekk Jóhann til liðs við þá og starfaði með þeim í einhvern tíma áður en hann sneri sér að sólóferli. Finnur Torfi kom lítið að tónlist næstu árin, starfaði sem lögfræðingur og alþingismaður um tíma en kom aftur inn í tónlistina sem tónskáld síðar. Reynir trommuleikari virðist lítið hafa komið nálægt tónlist eftir Óðmenn.

Óðmenn áttu nokkur kombakk, sveitin kom t.a.m. saman í útvarpsþætti haustið 1971 og þá lék Karl J. Sighvatsson orgelleikari með sveitinni en einnig komu þeir saman 1979, 1982 og 1987.

Tvöfalda Óðmannaplatan hefur nokkrum sinnum verið endurútgefin, hún var t.d. í fimm platna heildarútgáfusafni Jóhanns sem kom út 1980 og einnig var hún endurútgefin á geislaplötu og 180 gr vínyl árið 2010 af þýska útgáfufyrirtækinu Shadoks music (í 500 eintökum). Alda music endurútgaf plötuna á vínyl í tilefni af fimmtíu ára afmæli hennar haustið 2020.

Þá hafa lög sveitarinnar komið út á safnplötum eins og Gullkorn Jóhanns G. Jóhannssonar (2003), Trúartónar (1999), Bítlar og blómabörn (1993), Blóm og friður (1992), Aftur til fortíðar 60-70 II (1990), Kærleikur: Til styrktar Kærleikssjóði Stefaníu Guðrúnar Pétursdóttur (2008), Skonrokk: 40 klassísk rokklög (2003), SG hljómplötur: 75 bráðskemmtileg dægurlög frá 1964 – 1982 (2014), Stóra bílakassettan I (1979) og Svona var 1967 (2008).

Efni á plötum