Tómas Guðmundsson (1901-83)

Tómas Guðmundsson

Skáldið Tómas gegnir stærra hlutverki í íslenskri dægurlagatónlistarsögu en margir gera sér grein fyrir, fjölmargar plötur hafa verið gefnar út tileinkaðar honum en útgefin lög með ljóðum hans skipta sjálfsagt hundruðum enda hefur tónlistarfólk verið iðið við að semja lög við lagvæn ljóð hans.

Tómas Guðmundsson fæddist í Grímsnesinu í ársbyrjun 1901, ólst þar upp en fluttist síðan til Reykjavíkur þar sem hann nam lögfræði. Hann starfaði lengi við fag sitt, lengstum við Hagstofu Íslands en helgaði sig einnig ljóðlistinni. Fyrsta bók hans, Við sundin blá, kom út 1925 þegar Tómas var aðeins tuttugu og fjögurra ára gamall og sú næsta, Fagra veröld átta árum síðar. Þær tvær eru þekktustu ljóðabækur hans en alls komu út fimm bækur með ljóðum hans, auk heildarsafns sem hefur verið endurútgefið í nokkur skipti.

Mörg ljóða Tómasar hafa tengingu við höfuðborgina enda hefur hann verið kallaður Reykjavíkurskáld, frá árinu 1994 hefur Reykjavíkur-borg veitt bókmenntaverðlaun tengd við nafn Tómasar.

Auk þess að fást við ljóðagerð samdi Tómas einnig efni m.a. fyrir revíusýningar, ritaði bækur um æviþætti fólks og stóð í tímaritaútgáfu, hann kom einnig að félags- og útgáfumálum, var einn af stofnendum Almenna bókafélagsins og gegndi formennsku í bókmenntaráði.

Tómas lést árið 1983.

Tvær plötur hafa komið út sem hafa að geyma upplestur skáldsins, annars vegar platan Gunnar Gunnarsson og Tómas Guðmundsson lesa úr eigin verkum (1968) og hins vegar smáskífa með upplestri skáldsins, litlar upplýsingar er hins vegar að finna um þá plötu en hún kom út 1969.

Skáldið á göngu í Austurstrætinu

Tómas er því þekktastur fyrir ljóð sín og margir tónlistarmenn hafa samið lög við ljóð hans og lengi vel var samstarf þeirra Sigfúsar Halldórssonar rómað en meðal þekktra laga úr því samstarfi má nefna Tondeyleyó, Játning, Dagný og Við eigum samleið sem hafa komið út í ótal útgáfum með fjölda tónlistarfólks. Meðal annarra ljóða sem búin hafa verið til þekkt lög við má nefna Ég leitaði blárra blóma, Fyrir sunnan fríkirkjuna (Fyrir átta árum), Hanna litla, Húsin í bænum, Í Vesturbænum, Frá liðnu vori og Hótel jörð.

Einnig hafa komið út plötur sem hafa eingöngu að geyma ljóð Tómasar, annars vegar við lög Gylfa Þ. Gíslasonar á plötunni Við sundin blá: Róbert Arnfinnsson flytur ljóð eftir Tómas Guðmundsson við lög eftir Gylfa Þ. Gíslason (1974), og hins vegar platan Sundin blá: Lög Þormars Ingimarssonar við ljóð Tómasar Guðmundssonar (1995) en á þeirri síðarnefndu eru ýmsir þjóðþekktir söngvarar flytjendur laganna. Þá sungu Egill Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir ljóð Tómasar við lög ýmissa lagahöfunda á plötunni Fagra veröld (1993) og einnig kom út safnplatan Ég leitaði blárra blóma (1981) en á henni sungu nokkrir einsöngvarar ljóð skáldsins við lög hinna og þessara tónskálda.

Mikill fjöldi annarra tónlistarmanna hafa haft lög við ljóð Tómasar Guðmundssonar á plötum sínum og þeirra á meðal eru hér nefndir Hörður Torfason, Gunnar Þórðarson, Heimir og Jónas, Ríó tríó, Ingvi Þór Kormáksson, Jóhann Helgason og Lítið eitt svo aðeins fáeinir séu hér nefndir.

Efni á plötum