Tónlistarbandalag Íslands [félagsskapur] (1985-92)

Vorið 1985 voru stofnuð eins konar regnhlífarsamtök fyrir íslenska tónlist, þ.e. þau félaga- og hagsmunasamtök sem snúa að íslensku tónlistarlífi.

Milli þrjátíu og þrjátíu og fimm félög og samtök í geiranum komu að stofnun samtakanna sem hlutu nafnið Tónlistarbandalag Íslands (TBÍ / T.B.Í.) og samtals voru meðlimir þeirra um ellefu þúsund talsins. Meðal stofn aðildafélaga má nefna STEF, SATT, Jazzvakningu, Félag harmonikkuunnenda og FÍH.

Tónlistarbandalagi Íslands var ætlað að vera samnefnari allra þeirra sem vinna að eflingu tónlistar í landinu, koma fram fyrir þeirra hönd gagnvart opinberum aðilum og vera ráðgefandi í tónlistarmálum.

Meðal verkefna Tónlistarbandalags Íslands var að koma á fót Degi íslenskrar tónlistar sem haldinn er hátíðlegur í desember ár hvert, bandalagið hafði ennfremur yfirumsjón með átakinu Ár söngsins (1991-92) og gaf t.d. út tvær sönglagabækur með nótum af því tilefni sem og safnplötuna „…góðra vina fundur“ er hafði að geyma tuttugu íslensk sönglög.

Stefán Edelstein var fyrsti formaður Tónlistarbandalags Íslands og Símon H. Ívarsson varð næstur í röðinni áður en nafni bandalagsins var breytt árið 1992 og varð þá að Tónlistarráði Íslands, en það starfar enn undir því nafni.