Blúshátíð í Reykjavík 2018 nálgast

Senn líður að hinni árlegu Blúshátíð í Reykjavík en hún fer fram í dymbilvikunni nú fyrir páska.

Hátíðin hefur að geyma þrenna stórtónleika á Hilton Reykjavík Nordica þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöld (skírdag) og verður Klúbbur Blúshátíðar opinn eftir alla tónleikana þar sem gerast undur og stórmerki, þar sem reynsluboltar, ungliðar og frægir leynigestir hræra saman þjóðlegum íslenskum blús, Missisippi blús, rokki og öðrum skemmtilegheitum fyrir lífsglaða nátthrafna.

Á þessum þrennum stórtónleikum koma fram þekkt nöfn úr blúsheiminum s.s. Laura Chaves, Ina Forsman, Nick Jameson og Larry McCray en einnig þekkt íslensk nöfn eins og Beggi Smári, Berglind Björk, Tryggvi Hübner, Haraldur Þorsteinsson, Ásgeir Óskarsson, Halldór Bragason, Björgvin Gíslason, Sigurður Sigurðsson o.m.fl.

Blúsmiðinn veitir aðgang að öllum þremur stórtónleikunum á Hilton Reykjavík Nordica. Takmarkað magn er í boði, fyrstir kaupa – fyrstir fá.

Blúshátíð í Reykjavík 2018 verður formlega sett laugardaginn 24. mars með Blúsdegi í miðborginni þar sem Blúshátíðin leggur Skólavörðustíginn undir sig. Skrúðganga verður frá Leifsstyttu klukkan 14:00, og Lúðrasveitin Svanur og bílalest fagna vorinu. Við setningu hátíðarinnar verður tilkynnt um val á heiðursfélaga Blúsfélags Reykjavíkur 2018. Boðið verður upp á lifandi blús á Skólavörðustígnum frá klukkan 14.00. Kveikt verður upp í grillunum og boðið upp á kjúklingavængi og fleira. Tónleikar verða síðan á Borgarbókasafninu í Grófinni klukkan 16.00.

Ítarleg dagskrá fyrir alla hátíðadagana er á www.blues.is
Facebook https://www.facebook.com/www.blues.is