Baldur Georgs (1927-94)

Baldur og Konni

Margir þekkja varla nafn Baldurs Georgs nema brúðan Konni sé nefnd í sömu andrá en þeir eru eitt frægasta tvíeyki skemmtanabransans á Íslandi frá upphafi.

Baldur hét fullu nafni Baldur Georgs Tackás en hann var hálf ungverskur, fæddur 1927 í Reykjavík. Hann var fremur ungur farinn að æfa töfrabrögð og kom fram fyrst opinberlega sem töframaður sextán ára gamall árið 1943. Hann gekk um tíma í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar að sögn sem undirbúning og þjálfun í að koma fram og þegar árið 1945 hafði hann skemmt um tvö hundruð sinnum.

Það átti heldur betur eftir að bætast við þær tölur því þarna í stríðslok hóf hann að skemmta með búktalabrúðu sem hann hafði sérpantað frá Bretlandi en búktal hafði hann kynnst hjá skoskum hermanni og í framhaldi af því varð hann sér um bækur um efnið og var þannig séð sjálfmenntaður í faginu. Brúðuna kallaði hann Konna og þeir urðu þekktir sem tvíeykið Baldur og Konni, og komu fram mörg hundruð sinnum á næstu áratugum, mest á árunum milli 1945 og 1970.

Baldur var kominn á fertugs aldur þegar hann tók stúdentspróf samhliða annarri vinnu en slíkt þótti mikið þrekvirki á þeim árum, löngu fyrir tíma öldungadeilda framhaldsskólanna. Í framhaldi af því hóf hann að kenna í barnaskólum og starfaði m.a. við það á Seyðisfirði, Eskifirði, Patreksfirði og Akranesi eftir 1970. Hann lagði skemmtibransann að mestu til hliðar á þeim árum en var nokkuð virkur í leiklistarlífinu á þeim stöðum sem hann starfaði og lék nokkuð á sviði.

En Baldur var auðvitað þekktastur fyrir töfrabragða- og búktalaraferilinn og um tíma starfaði hann í Danmörku, kom m.a. fram í tívolíinu þar en hér heima naut hann gríðarmikilla vinsælda og var varla haldin sú skemmtun eða revía svo ekki væri leitað til hans (þeirra), tívolíið í Vatnsmýrinni var hans aðalvettvangur um tíma, einnig Austurbæjarbíó en annars skemmti hann um allt land. Þá komu þeir félagar ósjaldan fram í útvarpi allra landsmanna.

Svo miklar voru vinsældir Baldurs og Konna að fimm hljómplötur voru gefnar út með Konna á árunum 1954 til 59, fjórar ásamt Alfreð Clausen og ein þar sem hann söng með Skapta Ólafssyni, hluti laganna var svo endurútgefinn ásamt öðru efni fáeinum árum síðar. Á þessum plötum rísa hæst slagararnir Í sveitinni og Búkolla í Bankastræti.

Baldur og Konni

Baldur Georgs samdi sitt skemmtiefni sjálfur og tvær bækur að minnsta kosti komu út sem hafa að geyma efni eftir hann, Konni og Baldur gera galdur (1960) og Galdra- og brandarabók Baldurs og Konna (1977). Þá skrifaði hann einnig leikrit sem sett voru á fjalirnar og vann eitthvað við þýðingar.

Margar sögur eru til af Baldri og Konna, og samskiptum fólks við þá en margir töluðu um þá eins og þeir væru raunverulega tveir, sú saga hefur verið sögð að í eitt sinn hafi verið borið á borð fyrir þá báða eftir skemmtun þar sem Baldur var að skemmta og einnig mun hafa verið settur míkrafónn fyrir framan Konna þegar þeir voru að skemmta á sviði. Ekki hefur það verið staðfest en frasinn „Saltkjöt og baunir – túkall“ hefur verið eignaður þeim félögum Baldri og Konna.

Eftir 1970 lagði Baldur Konna að mestu á hilluna en þeir birtust þó stöku sinnum á áttunda áratugnum, þá gerði hann að minnsta kosti eina tilraun til að skapa nýjan karakter, Nönnu frænku sem reyndar var sama brúðan en búið að dubba upp sem kvenmann.

Margir muna eftir Konna í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu, þar sem hann tjáir sig um búktalaraatriði þeirra félaga en það er í eitt af síðustu skiptunum sem hann kom fram.

Baldur Georgs lést árið 1994 eftir nokkur veikindi en segja má að leikarinn Erlingur Gíslason hafi hitt nokkuð naglann á höfuðið þegar hann sagði um Baldur að hann hefði verið eini sirkuslistamaðurinn á Íslandi en í sirkuslausu landi.

Það var ósk Baldurs að Þjóðminjasafnið fengi Konna til vörslu eftir sinn tíma, og þar er hægt að líta hann augum.

Efni á plötum