Barnabros-serían [safnplöturöð] (1993-95)

Aðstandendur Barnabros taka á móti gullplötum fyrir góða plötusölu

Það er varla hægt að tala um safnplöturöð þegar út koma tvær plötur í seríu en það á þó við í þessu tilfelli.

Þau María Björk Sverrisdóttir söngkona og Pétur Hjaltested tónlistarmaður unnu nokkrar barnaplötur um og eftir 1990. Þau höfðu rekið hljóðverið Hljóðsmiðjuna frá 1987 og árin 1990 og 1991 gerðu þau tvær plötur með Eddu Heiðrúnu Backman fyrir börn, Barnaborg og Barnajól. Plöturnar tvær komu þó ekki út á þeirra vegum heldur Skífunnar annars vegar og PS músík hins vegar. Þau María Björk og Pétur komu sjálf einnig nokkuð við sögu á plötum Eddu sem og dóttir þeirra, Sara Dís Hjaltested kornung en hún er fædd 1986.

Plöturnar tvær með Eddu gengu vel og þau María Björk og Pétur sendu árið 1993 næst frá sér plötuna Barnabros en í þetta skiptið gáfu þau út undir Hljóðsmiðjunafninu sem þá var einnig orðið útgáfufyrirtæki. Á þeirri plötu, sem hafði að geyma þekkt barnalög komu nokkrir þekktir söngvarar við sögu s.s. Edda Heiðrún, Helga Möller, Egill Ólafsson, María Björk sjálf og Sara Dís, sem og Sigríður Beinteinsdóttir en þær María áttu síðar eftir að vinna saman undir merkjum Söngvaborgar. Platan seldist vel og fékk þokkalega dóma í DV og Pressunni, einkum fyrir frísklegar útsetningar Péturs.

Þegar Sara Dís tók þátt í alþjóðlegri söngvakeppni barna sem haldin var á Ítalíu þótti Pétri og Maríu Björk upplagt að gefa út plötu með tólf bestu lögunum úr keppninni og fá nokkra söngvara til að syngja lögin. Útkoman varð platan Barnabros 2: frá Ítalíu, sem kom út 1995. Karl Ágúst Úlfsson var fenginn til að íslenska textana og söngvarar eins og Edda Heiðrún, María Björk, Sara Dís og Þorvaldur Davíð Kristjánsson (síðar leikari) sungu lögin en sá síðast nefndi var þá tólf ára. Barnabros 2 hlaut ágæta dóma í Tímanum, seldist ekki eins vel og fyrri platan en skildi eftir stórsmellinn Skólarapp sem naut mikilla vinsælda og gekk reyndar í gegnum endurnýjun lífdaga löngu síðar með kunnum hópi rappara.

Pétur og einkum María Björk komu að fleiri barnaplötum, Jaba daba dúúú!!! kom út nokkrum árum síðar og Söngvaborgar-plöturnar einnig en eru eðlilega ekki taldar með í þessari umfjöllun.

Efni á plötum