Bárðarbúðarböðlarnir (1982-)

Bárðarbúðarböðlarnir hafa starfað með löngum hléum allt frá árinu 1982 og jafnvel lengur en sveitin er vinahópur sem spilar einstöku sinnum við hátíðleg tilefni.

Litlar upplýsingar er að finna um þessa sveit en árið 1982 sendi hún frá sér tuttugu laga plötu sem hafði að geyma efni sem tekið var upp í partíum á Snæfellsnesinu en þaðan virðist sveitin að mestu hafa verið upprunnin.

Upplag plötunnar var tvö hundruð eintök en hún var gefin út af Roth útgáfunni sem stóð fyrir útgáfum nokkurra „öðruvísi“ platna á sínum tíma. Einn af forsprökkum þeirrar útgáfu var Björn Roth sem að öllum líkindum var í sveitinni þótt ekki sé það þó alveg víst. Aðrir sem komu við sögu á plötunni, sem bar titilinn Afurðir, voru Kristinn Kristjánsson, Pálmi Almarsson, Vigfús Kr. Hjartarson og Sigfús Almarsson.

Ekki liggur fyrir hversu samfellt Bárðarbúðarböðlarnir störfuðu en staðfest er að hún var til 2007 og 2014, fyrrnefnda árið mun sveitin hafa tekið upp nokkuð af efni. Þá var Pálmi einn eftir af upprunalega hópnum en aðrir meðlimir sveitarinnar voru Sverrir Pálmason, Ægir Þórðarson, Kristinn Sigþórsson og Loftur Bjarnason. Einnig hafa verið nefndir Eggert Sveinbjörnsson og Þorkell Cýrusson. Engar upplýsingar finnast hins vegar um hljóðfæraskipan meðlima.

Allar upplýsingar sem fyllt gætu upp í eyðurnar í sögu sveitarinnar mætti gjarnan senda Glatkistunni.

Efni á plötum