Björn Roth (1961-)

Björn Roth

Björn Roth verður fyrst og fremst þekktur fyrir myndlist sína en hann vann einnig að tónlistasköpun á sínum yngri árum, sú sköpun þótti reyndar sumum undarleg og þekktast þeirra verkefna er án efa hljómsveitin Bruni BB.

Björn fæddist í Reykjavík 1961 og ólst upp við listatengt uppeldi en foreldrar hans voru bæði myndlistafólk. Hann vann töluvert með svissneskum föður sínum, Dieter Roth að listsköpun, síðar öðrum myndlistamönnum en eftir andlát föður síns (1998) hefur hann stýrt sýningum og unnið með það sem þeir feðgar unnu saman.

Á unglingsárum sínum vann Björn nokkuð við tónlistarsköpun en sú tónlist átti lítt skylt við hefðbundnar melódíur eða rythma, heldur var hún tilraunakennd og oftast verulega á skjön við það sem venjulegast heyrðist á vinsældalistum eða útvarpsstöðvum almennt. Nokkrar plötur tengdar tónlistarsköpun hans komu út á vegum Roth-útgáfunnar en það var eins konar fjölskyldu-útgáfufyrirtæki í anda þeirra Roth-feðga.

Til að mynda gáfu þeir feðgar út plötu árið 1979 sem bar titilinn Autofahrt / Bílferð en sú plata hafði að geyma upptöku úr bílferð sem þeir fóru frá bænum Bala í Mosfellssveitinni (þar sem þeir voru búsettir) til Reykjavíkur (A-hliðin) og síðan ferðina til baka (B-hliðin). „Tónlistin“ var vélarhljóð bílsins, útvarpið í bakgrunninum og spjall þeirra feðga. Þessari plötu hefur verið lýst sem einni þeirri sérstæðustu sem gefin hefur verið út á Íslandi. Áður (1977) hafði Björn tekið þátt í verkefninu Freddy and the fighters ásamt þremur félögum sínum en engar sögur fara af því hvort það var nafn á hljómsveit eða einhverju öðru, plata kom út með þeim einnig á vegum Roth-útgáfunnar.

Þekktasta tónlistarverkefni Björns Roth er hljómsveitin Bruni BB sem hann starfrækti ásamt nokkrum félögum sínum í nýlistadeild Myndlista- og handíðaskólans (MHÍ), frægasta uppákoma þeirrar sveitar tengist kvikmyndinni Rokk í Reykjavík (1982) eftir Friðrik Þór Friðriksson en sá náði að festa hluta herlegheitanna á filmu og þar mátti sjá hænsnaslátrun og ýmis skemmilegheit í nafni gjörnings undir sérkennilegri tónlist sem að mestu var spiluð af teipi. Björn mun hafa leikið á bassa eða gítar í sveitinni. Sveitin kom fram í nokkur skipti og vakti alltaf athygli og jafnvel hálfgerðan ótta því menn vissu aldrei hvað myndi gerast næst. Lögregla var stundum kölluð til, m.a. við kvikmyndun Rokks í Reykjavík en frægt er þegar fimm lögregluþjónast reyndu að tjónka við Björn vopnaðan forláta vélsög á sviðinu.

Þá kom Björn einnig við sögu á plötu hljómsveitar sem kölluð var Bárðarbúðarböðlarnir en sú plata hafði að geyma upptökur úr partíi á Snæfellsnesi en þar hafði Roth-fjölskyldan afdrep sem víðar.

Björn hefur lítið sem ekkert (af því er best verið að komist) komið að tónlistarsköpun síðustu áratugina.

Efni á plötum